19.03.2008 21:01

Sauðféð 2007.

   Það lyftist brúnin á húsfreyjunni eftir því sem leið á lesturinn en uppgjörið fyrir sauðfjárafurðir síðasta árs komu með póstinum í dag.

  Veturgömlu gimbrarnar voru að skila 21.3 kg eftir á m/lambi (1 geld af 18).
Fyrir daga byggsins var verið að gefa þessum aldurshóp um 60/80 gr. af fiskimjöli á dag frá fengitíma og framyfir burð. Nú er gefið bygg á þessum tíma sem er náttúrulega allt annað fóður og mér finnst það svínvirka.(Hlutlaust álit eða þannig).

  Ærnar skiluðu hinsvegar 33.3 kg (ær m/lambi.)  Þær fá hinsvegar ekkert bygg fyrr en eftir burð þar sem gjafaaðstaðan býður ekki upp á neitt dekur. Þegar frúin hafði síðan athugað hvar í röðinni búið var yfir afurðahæstu búin í landinu var farið að liggja verulega vel á henni.
 Fyrir gúrúana í ræktuninni skal upplýst að lömbin fengu 9.2 fyrir gerð og 7.5 fyrir fitu.
Hér hefur aðalbaráttunni verið beint gegn fitunni sem hefur oft leikið okkur grátt í matinu og hefur nokkur árangur náðst í þeim slag. En betur má ef duga skal bæði í gerðinni og fitunni. Hér eru ekki taldir fósturvísar, en eftir að hafa sett út bæði veturgamlar og gemlinga er verulegar líkur á að allt sé með lömbum. (Engin leikur sér) En þessir aldurhópar fá sérkennslu í að hlýða hundum á þessum tíma. Það er sérverkefni sem Skessa er látin um. Hún þarf svona 10- 15 mín. til að siða til gemlingahópinn og það sér aldrei á gemling eftir hana blessaða. Eins og málin standa núna lítur vel út með að allt sé með lambi. Það lítur hinsvegar illa út með geldfé í hundatamningar og hundasjó í sumar. Þetta kallast víst að svíða og klæja samtímis.

18.03.2008 13:28

Kvennaferð til Rvk

Við kvenkynið á hlaðinu brugðum undir okkur betri fætinum (eða betri bílnum) og skelltum okkur  bæjarleið í gær. Yfirlýstur tilgangur var enginn og því lítið stress í gangi. Ég var hins vegar búin að tilkynna að ég ætlaði í einhverja stóra dótabúð og kaupa sparkbíl handa uppáhaldsbarnabarninu. Í Toys eitthvað vakti hvað mesta lukku risastór hestur en verðið var eins og á alvöru folaldi eða um 50.000 kr sem þótti fulldýrt. Þarna fannst þessi forláta sparkbíll sem var fjárfest í og allir nokkuð sáttir. Ja nema afinn núna í hádeginu þegar hann átti að setjast og keyra á bílnum. Það var frekar erfitt. Svo var farið í Rúmfatalagerinn og þar fæst jú sitt lítið af hverju. Gardínubúðir fengu góðan tíma því bæði Guðný og Iðunn eru með stóra stofuglugga sem vantar gluggatjöld fyrir. Stoppað var í Álfheimum hjá langafa og langömmu en hún er alls ekki búin að jafna sig ennþá. Gullfiskar og afmælisgjafir og þá er allt upp talið.
Svo var kóræfing um kvöldið bæði vegna páskamessu sem kórstjórnn kallar oftast máskapesku og væntanlegra ferminga. Þar tókst ýmsum að æsa sig og aðra vegna fermingarfræðslu sem menn eru missáttir með. Sem betur fer þarf ég ekki að stressa mig lengur á þeim hlutum , alla vega ekki næstu 12 árin. Kannski verður þá búið að leggja þær af þá, hver veit. Þegar Kolbrún mætti svo í pössun í morgun var farið út í fjós að hitta kálfana sem eru hvað skástir af þessum mudýrum. Gáfum nokkrum spökum rollum bygg og svo var farið inn að vekja Höllu Sif sem átti að taka við barnapössun meðan ég þrifi mjaltabásinn.
Veðrið er eiginlega of gott fyrir innivinnu svo ég ætla að sleppa bókhaldinu og þrífa frekar bílinn.

17.03.2008 22:58

Taðmokstur og konudagur.

  Það var skipt liði í morgun. Húsmóðirin brá sér í bæinn ásamt dætrunum báðum ,dótturdóttir og tengdadóttur. Þó furðulegt megi telja var ekki aðalásetningur ferðarinnar að strauja kortin heldur var þetta svona" konudagur". Ég vonaði svo að Kolbrún yrði nógu fljót að átta sig á veiklyndi kvennanna ef þær ættu nú leið um einhverja álitlega dótabúð eða annað áhugavert.
  Ég var hinsvegar heima að moka skít. Það verður að viðurkennast að ég var hæstánægður með þessa verkaskiptingu því ef eitthvað er leiðinlegra en að fara í bæinn, er það að fara í bæinn í eitthvað búðaráp.
 Já það var verið að moka undan fénu sem er á taði/hálmi og kálfunum(minnstu) sem ganga á hálmi. Sjefferinn í Söðulsholti var notaður í verkið ,mokað á sturtuvagn og búnir til haugar niður á eyrum . Líklegt er að hækkandi áburðarverð verði til þess að haugarnir endi í ökrum og á túnum í stað þess að breytast í hóla í landslaginu með tíð og tíma. Sjefferinn er mikið snildartæki og ótrúlegt hvernig er hægt að læðast fyrir horn á honum. Eitt af þessum nauðsynlegum tækjum sem allir bændur ættu að eiga í dótahúsinu sínu. Ég náði samt ekki að klára í dag en þetta verður búið fyrir hádegi á morgun. Atli komst svo með torfærutröllið út í smá prufu í dag. Hann brosti hringinn og gerir það trúlega enn. Það eru samt nokkur handtök eftir áður en hringurinn um Skyrtunnuna verður tekinn. Dagurinn endaði svo með fundi í Borgó þar sem farið var yfir hugsanleg rekstrarform á Laugargerðisskóla sem er rekinn í samstarfi Borgarbyggðar og  Eyja og Miklaholtshrepps. Jávæður og fínn fundur.
 
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere