12.02.2010 23:35

Hestaferðir fyrr og nú.

Það hefur margt breyst síðan í gamla daga þegar maður var að fara í fyrstu hestaferðirnar.

 Þá stakk maður á sig samlokum fyrir daginn, ( nú eða sleppti því) og  veislan í áningarstað kom ekki úr drekkhlaðinni trússkerrunni heldur á gestrisnu sveitaheimili þar sem gistingin beið manns.


          Hólaskógur 2009.   Þetta er lífið og sem betur fer vissi enginn um úrhellið sem beið okkar daginn eftir.

 Þetta var að sjálfsögðu áður en menn fundu upp ferðaþjónustuna og maður lærði fljótt að móðga ekki gestgjafana með því að bjóða borgun fyrir hross eða menn.

 Reyndar fór maður yfirleitt úr gististað með það í kollinum að gestgjöfunum hefði verið gerður stórgreiði með viðkomunni.

 Mér eru minnisstæðastir Ketilstaðir í Dölum og Valbjarnarvellir í Borgarf. þegar þessar minningar koma upp á harða diskinum.

 Í dag eru veisluhöldin óslitin  frá morgunverðinum til kvöldverðar að stoppistöðunum meðtöldum því trússarinn er aldrei langt undan og hugmyndaflugið varðandi brýnustu nauðsynjar  í býsna góðu lagi hjá þeim sem kaupa inn fyrir hestaferðirnar.


 Hér bjóða Hornfirðingar upp á kríuegg í Hrollaugsborgum sumarið 2008.  Hornfirðingar vissu ekki að það væri búið að finna upp ferðaþjónustuna frekar en gestrisnu vinir mínir  fyrrum.

 Já, þetta er tóm sæla og hamingja.


 Maður notar svo oft ótíðarkafla vetrarins til að fara yfir komandi reiðleiðir sumarsins enda ekkert skemmtilegra en það.

 Nema náttúrulega ferðin sjálf.

 Nú er lélegt í ári hvað ótíð varðar, svo það verður að svindla á kerfinu og taka blíðviðriskvöldin í að dreyma um sumarið.

 Nú er verið að stinga út grunninn að túrnum milli sauðburðar og grenjavinnslu og stefnt að því að leita upphafsins í hestaferðunum.

Fer lífið ekki alltaf í hring?

 Enginn kerruflutningur á hestum. Enginn trússbíll nema í áfangastað að kveldi,.

 Það verða nokkrar samlokur í vasann að morgni. Skeifur í töskunni og járningartöngin við beltið.

Og stór hluti rekstrarins verður tamningatrippi eins og í gamla daga.

  Ef eitthvað fer úrskeiðis og dagurinn verður langur verða menn bara svangir.

Og hafa gott af því.emoticon

Svo er spurning hvort ég kemst upp með svona forneskju og afdalamennsku.emoticon





10.02.2010 23:33

Vakinn um miðjar nætur.- Af löggunni.- engar myndir.

  Ég var vakinn með símhringingu rétt fyrir kl. 4 aðfaranótt sl.sunnudags.

 Þetta var lögga í Borgarnesi, sem var að forvitnast, og þar sem þetta var góður kunningi minn og ágætis lögga í þokkabót fyrirgaf ég honum ónæðið.

 'Eg var hinsvegar smá andvaka á eftir.

Ég veit ekki hvað aðrir gera en ég fer alltaf að velta einhverju misskemmtilegu fyrir mér þegar ég verð andvaka.

 Ég fór að velta því fyrir mér að það væri orðið býsna langt síðan ég var vakinn upp af löggu með símhringingu um miðja nótt.

 Það hefur nefnilega gerst ótrúlega oft, að ýmsar löggur hafa séð ástæðu til þess að raska næturró minni af margvíslegun tilefni.

 Þetta náði sögulegu hámarki þegar farsímavæðingin var langt komin því ökumenn á leið um sunnanvert Nesið voru mjög tilkynningaglaðir um það sem þeir sáu á ferðum sínum, sérstaklega að næturlagi.

 Þessi tilkynningargleði ökumannana hefði ekkert komið mér  við  ef ekki hefði viljað svo óheppilega til að þeir voru ýmist fyrir " vestan " eða " austan"  Dalsmynni þegar þeir sáu hross eða nautgripi á vegi, kind sem ekið hafði verið á og var " kannski " með lífsmarki , bíl útaf sem þeir gáðu ekki frekar að o.sv. frv.

 Undantekningarlaust var fjarlægðin í umrætt skýrsluefni afar óljós og reyndar var stundum talað um nálægt Dalsmynni en ekki vitað hvoru megin o.sv frv.

 Þó að ég þrætti eins og sprúttsali fyrir að eiga hross á vegum eða ákeyrða kind og fullyrti að þeir sem lent hefðu utan vegar, væru annaðhvort komnir heim til sín eða víðsfjarri Dalsmynni enduðu þessi samtöl oftast með því að ég dróst á fætur og reyndi að hafa upp á viðfangsefninu.

Það tókst ekki nærri alltaf.

 Eftirminnilegast er þó þegar ég var vakinn upp um kl. 3 og beðinn að aflífa slasaða kind við brúna yfir Haffjarðará.

 Svona beiðni jánkar maður vafningalaust, svo ég græjaði mig, skellti mér í veiðijakkann og brenndi þessa 5 km. suður að brú.

 Þegar þangað kom gaf á að líta., Á miðri brúnni lá mikið slösuð ær sem hélt þó höfði en beggja vegna biðu bílar þess að eitthvað gerðist.

Vestan brúarinnar biðu 2 bílar en 3 sunnan hennar.

Vafalaust hefur viðkomandi þótt hér um grafalvarlegt atvik að ræða og beðið eftir blikkandi bláum ljósum,  sjúkrabíl og dýralækni.

 Þess í stað kom einhver Rambó  með hlaupsagaðan riffil í hendinni sem var kindabyssan mín á þeim tíma..

 Til að setja trúverðugan endi á þetta fyrir ferðafólkið, færði ég kindina gætilega til hliðar á brúnni og benti síðan bílstjórunum á að yfirgefa svæðið áður en málinu yrði lokað.

Fyrst þetta átti að gerast, hefði mér þótt seinnipartur föstudags mun heppilegri tími.

Þá hefðu kannski myndast alvöru bílalestir.emoticon 


 

 

08.02.2010 12:15

Sauðfjárbændur í útrás.- Mjólkurframleiðendur herða á höftunum.

Á vef landsambands sauðfjárbænda kemur fram að útflutningur sauðfjárafurða nam tæpum 2.000 milljónum á sl. ári. Sjá hér. Ársuppgjör útflutnings 2009

 Reksturinn er þungur hjá afurðastöðvunum sem eru í samkeppni á kjötmarkaðnum en samt eru þær að finna nýja markaði og efla þá sem fyrir eru nema bandaríkjamarkaðinn.

 Það eru ótrúlegustu aukaafurðir sem fluttar eru út allt frá görnum til ullar og gæra.

Á sama tíma rembast félagar mínur í mjólkurframleiðslunni eins og rjúpan við staurinn að geirnegla saman, úr sér gengið fullvirðis eða framleiðsluréttarkerfi . sjá hér. Vilja eyða óvissu um markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks

 Hjá þeim fór hinsvegar lítið fyrir því að ýta við afurðarsölufyrirtækinu okkar í mjólkinni svo það tæki silfurskeiðina úr munninum.
 
 Hvað skyldi það vera að gera í dag við að selja út afurðir úr umframmjólk sem einhverjir okkar sæju sér hag í að framleiða styrkjalaust?

 

Flettingar í dag: 806
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435488
Samtals gestir: 40203
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 19:38:28
clockhere