10.09.2010 21:53

Hóstandi smalahestar, afastelpa og endalaus blíða.

 Smalaklárarnir voru í fríi í allt sumar, Þegar þeir voru járnaðir um miðjan ágúst fóru báðir að hósta í prufuferðinni. 


Hyrjar og Stígandi ásamt Össu og Vask.  Nú eru klárarnir hóstandi, Assa gerir það gott vestur í Dölum og Vaskur verður varla tekinn með í Selfjallið oftar( eða alvöruleitir).  Já allt er í heiminum hverfult.

 
Já þetta næstöflugasta hestagengi sem ég hef notað í leitum, var afskrifað í snatri þrátt fyrir að vera nýjárnað. Öflugasta hestagengið var reyndar einn hestur í gamla daga en það er önnur saga eða annað blogg.

 Svo birtist afastelpan og reddaði málunum. Hún leyfði föðurnum að koma með í þetta sinn en nú styttist í að hann verði skilinn eftir heima.



 Hún kom færandi hendi með feðgana Þrym og Neista nýjárnaða svo nú getur afi gamli tekið gleði sína á ný náist samningar við konu og dóttir um afnot af þeim.


Afastelpan er svolítið sérsinna hestamanneskja og vill ógjarnan vera í öðru en kjól í hestamennskunni. Nú var hún samt talin á að vígja reiðbuxurnar frá ömmu enda eru þær sama merki og afa buxur. Kjólnum var samt ekki sleppt.

 Svo nú verður farið í að nota þetta endalausa (7- 9- 13 )blíðviðri  til að koma mér og klárunum í pínu betra leitarform.

 Já . Nú á hún vel við gamla vísan  mín sem ég sá í Skessuhorni í fyrradag.

Sú ljúfa þrá í  laumi virðist blunda,
en lifnar sterk er kemur haustsins tíð.
Ég legg á fjöll með hesta mína og hunda,
og hef þess beðið órór nokkra hríð.

08.09.2010 07:19

Þresking hafin á fullu.

 Við Yrkjamenn þurfum að vera nokkuð grimmir við okkur með þroska og þurrefnisstig byggsins við þreskingu.

 Bæði fer umtalsverður hluti uppskerunnar í sölu  þar sem vissar gæðakröfur eru gerðar og síðan er illa þroskað bygg dýrt og ódrjúgt í þurrkun.

 Í hitabylgjunni sem nú stendur yfir gengur þroskinn hratt og nú er hver akurinn á fætur öðrum að verða tilbúinn í þreskingu.



 Fallegt og velþroskað kornið er því farið að streyma í vagnana, þurrkarann og síðan í geymslusílóin með yfir 70 % þurrefni við uppskeru.

Eina sem angrar okkur er að of mikill áburður ( N ) hefur verið notaður sumstaðar í þessari árgæsku sem lýsir sér í gríðarlegri sprettu, seinna þroskastigi og legum á sumum akranna.



 Þessir gróskumiklu akrar sem litu svona út í júlílok eru farnir að gulna verulega en miklar legur hrjá þá og svo er alltof mikið grænt í þeim enn.



 Við erum ekki farnir að taka byggið inn á gólf enn, en það gæti orðið í vikunni ef okkur líst ekki á langtímaspána.

 Ef allt næst upp þá stefnir í uppskerumet og í fyrsta skipti í rækunarsögunni stefnir svo í að við náum sáðkorni til að nota næsta vor.



Það er mikils virði,  því þó maður beri sig mannalega hér á síðunni stendur allt í járnum í byggræktinni og margt dapurt uppskeruárið að baki.

05.09.2010 06:22

Hrossaræktin. Allar stóðhryssurnar sónaðar með fyli.

Ég er mikill hentistefnumaður í hrossaræktinni og geng að henni með hæfilegu kæruleysi.

 Eftir að ég dubbaði einu hryssuna sem ég átti eftir, Von frá Söðulsholti  upp sem ræktunarhryssu hef ég alfarið haldið mig við dálítið sérstaka stóðhesta fyrir hana.

  Hún hefur síðan látið koma krók á móti bragði og rauða hryssan sem ég hef beðið eftir er ókomin enn.

Í vor var það rauðstjörnótt hestfolald undan Sigri frá Hólabaki.



 Hann ber nafnið Dreyri frá Dalsmynni og þess er beðið á hverju kvöldi, svona með hinum kvöldbænunum að hann fá lit föðursins, appelsínugult fax og dökk, dökkrauðan lit á skrokkinn.

Að sjálfsögðu fer hann svo ýmist um á brokki eða tölti.


Sigur frá Hólabaki er sérstakur á litinn og reiðheststýpa sem ég sækist eftir.Nú fer að koma í ljós hvernig hann skilar því til afkvæmanna.

 Von er semsagt fengin og í þetta sinn með Arði frá Brautarholti og hvort það verður 6. hesturinn hjá henni kemur vonandi í ljós í fyllingu tímans.

  Afgangurinn af stóðhryssunum þetta árið er Fjóla frá Árbæ sem ég á þriðjungshlut í. og nú var komið að mér að halda henni.



 Það er búið að staðfesta  í henni fyl undan Fláka frá Blesastöðum.

 Undan Von á ég svo 3 ótamda fola og yngri dóttirin þann fjórða.

Þeir eru undan Parker, Hágangi, Eldjárn og Sigri og kannski getur einhver þeirra komist nálægt því að fylla skarðið eftir þennan hér fyrir neðan sem aldrei verður þó fyllt. Hann er enn hóstandi eftir sumarið og mun því ekki komast í göngur þetta haustið.



 Hyrjar Otursson frá Dalsmynni er kominn á aldur og verður ekki járnaður oft  enn.

Flettingar í dag: 456
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436091
Samtals gestir: 40257
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 10:46:29
clockhere