27.10.2008 23:26

Tamdir gemsar.



 "Þeir eru alltaf með tamdar rollur í þessu"  heyri ég oft útundan mér bæði við fjárhundasýningar og í keppnum, úr hópi áhorfendanna. Og þó það sé nokkuð ljóst að við sýningar á dýrum, hvort sem það eru hestar, hundar, eða kindur verður sýningin ekki góð nema um tamdar skepnur sé að ræða læt ég svona athugasemdir í léttu rúmi liggja. Staðreyndin er hinsvegar sú að það er sjaldgæft að ná þjálum kindum í keppni eða sýningar, þó ég hafi reyndar haft tamdar kindur til sýninga hér heima síðustu tvö árin.

  Þar sem komin er löng hefð á notkun taminna hunda er komið á gott jafnvægi á milli kindanna og hundsins/anna. Hundurinn hefur ekki bein afskifti af fénu nema það standi framaní honum eða ráðist á hann og kindurnar vita það og eru því býsna rólegar þegar verið að vinna að þeim með hundinum, en hlýða honum vel. Þær eru hinsvegar alltaf tilbúnar að stinga af eða vera til leiðinda ef tækifæri gefst.
  Ég legg því dálitla áherslu á að kenna lömbunum strax fyrsta veturinn að hlýða hundinum og það tekur yfirleitt ekki langan tíma.  Síðustu haust er þessari kennslu yfirleitt lokið áður en lömbin koma á hús því breyttar aðstæður valda því að sífellt er verið að nota hundana við allt haustragið svo lömbin eru búin að læra á þá og rekstrarganginn.



  'I blíðunni í gær tókst loks að þurrka ullina á lömbunum  og hér er verið að koma þeim endanlega í hús þetta haustið. Snilld gekk eitthvað rólega að koma þeim af stað svo föðurbróðirinn var sendur henni til fulltyngis.



 Snilld tekur sigti á húsbóndann til að marka stefnuna óvön svona mörgu fyrir framan sig.



  Svona á að gera þetta og Vaskur sem heldur trúlega að hér sé um kennslustund að ræða heldur sér til hlés og lætur frænku litlu um þetta.

  Það er svo gott að vera ekki stór í fjárbúskapnum þegar kemur
að rúningnum. (og tapinu per kind).  emoticon

 

26.10.2008 21:34

Heimasíða/ skoðanakönnun.


  Nú fer að líða á fyrsta ár þessarar heimasíðu en þó markmiðin með henni hafi kannski verið dálítið óljós var þó ákveðið að reyna ætti að halda henni með lífsmarki í a.m.k eitt ár.
  
  Það sem hefur verið erfiðast í þessu úthaldi er netsambandið hér, en þau eru ófá bloggin sem hafa tapast út í tómið hálf eða fullgerð. Óþarft er að taka fram að þetta hafa undantekningarlaust verið langbeztu bloggin.

  Tíminn sem í þetta hefur farið, hefur svo margfaldast vegna þessarra netskilyrða.
Að öðru leyti hef ég haft dálítið gaman af þessu uppátæki og hef trúlega fengið nokkra útrás fyrir ritþörfina en á einu tímabili ævinnar ætlaði ég mér nefnilega að verða rithöfundur.
Ég ákvað í upphafi  að vera ekkert að brýna lesendur síðunnar  á að koma með comment eða skrifa í gestabók einfaldlega vegna þess að ég veð fram og aftur um annarra manna heimasíður án þess að gera vart við mig.

  Það er hinsvegar ekkert launungamál að comment og kvittun í gestabók getur virkað eins og olía á gangverkið og lífgað upp á síðuna.

  Nú sem  sagt fer að koma tími á að ákveða um framhald síðunnar og þessvegna henti ég til gamans  inn skoðanakönnun, ef þið hefðuð einhverja skoðun á því sem sem hér er verið að gera.
 Ef einhverjum finnst vanta spurningu um eh. í könnunina má commenta um það.

  Hér gerði svo loksins alveg meiriháttar veður í dag.




   Manni fannst þó að svona dagur ætti betur heima í áliðnum janúar en í okt.



  Og vinir mínir á austurbakkanum eiga líka falleg fjöll.  Þeir fengu svo líka sinn skerf af þessum fallega degi. 

Ég átti hann nú samt betur skilið en þeir.emoticon

25.10.2008 19:50

Gæsaveiðilok og harðindi.

 

 
  Þeim var ekki hlýtt veiðimönnunum sem droppuðu inn í kaffi hjá mér um hálfellefu í morgun.
Þeir voru komnir ofan í skurð hjá mér um hálfátta og það var kalt. N.a. stinningur og í hviðunum var skafrenningur. Enginn þeirra hafði nokkurn tímann legið fyrir gæs í svona veðri og snjó. Finnarnir tveir sem komu til landsins í gærkveldi báru sig jafnvel betur en landarnir.

  Ég held að þetta verði lokin á gæsaveiðinni hér þetta haustið og nú finnst mér að gæsirnar ættu að nota norðanáttina og drífa sig út, enda þurfa þær ekki að bíða eftir því að ná út gjaldeyri.
  En  gæsunum sem leggja af stað til vetrarheimkynnanna héðan úr Eyjarhreppnum fækkaði um 61. þennan fyrsta dag/morgun vetrarins. 

   Já það eru bara hel..... harðindi hér, snjór , kuldi og bara hundleiðinlegt veður. Lömbin eru svona ýmist úti eða inni meðan beðið er lags að ná þeim inn með ullina þurra og ómengaða svo hægt sé að rýja þau. Einhverstaðar eiga svo að vera a.m.k. tvær tvílembur á fjöllum sem frúin vill fá í hús áður en hún afskrifar annað ókomið.
Nú er svo að hefjast burðartímabil no. 2 í fjósinu en um 20 kýr eiga að bera á þeim tíma sem eftir lifir af árinu.

  En það voru niðurstöðurnar úr efnagreiningunni á heysýnunum síðan í sumar, sem björguðu endanlega deginum hjá mér.emoticon

Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere