05.03.2010 22:15

Vorboðarnir, sáðbyggið, áburðurinn og prúttið.

Nú er kominn sá tími að mann er farið að hungra og þyrsta eftir vorinu og sumrinu.

 Og hverjum vorboða er tekið fagnandi og stundum gert mikið úr litlu.

Lægðin sem er að bögga okkur núna gæti t.d. verið fyrsta vorlægðin o.sv.frv.

 Einn af þessum pottþéttu vorboðum er hann Elías hjá Líflandi sem hringdi í mig í dag, svona til að minna á frækaupin fyrir vorið.

 Við félagarnir í byggræktinni erum trúlega góðir viðskiptavinir enda oft að versla okkur um 20 tonn af sáðbyggi sem er tekið í einum sameiginlegum  pakka.

Því miður er sænska gengið að stríða okkur og hækka fræið um 12-15 % frá fyrra ári sem er a.m.k. 12- 15  % of mikil hækkun því nú hefðum við viljað sjá lækkandi tölur bæði í fræi og áburði. 


 Já, já , það styttist óðfluga í sáninguna þó ekki sé búið að ákveða endanlega hektarfjöldann sem sáð verður í.

 Stærsti gallinn sem ég hef fundið við hann Elías er, að það er ekki fyrir fj. sjálfan að hagga honum í prúttinu, enda komst  Einar lítið  með hann þegar við ætluðum að þjarma að honum í upphafi viðskipta.

  Svo eru áburðarverðin komin fram í dagsljósið og gengur mönnum alveg þokkalega að halda aftur af gleði sinni yfir þeim tölum.

 Hafi upplýsingarnar um lækkandi áburðarverð erlendis átt við rök að styðjast er ljóst að sú lækkun hefur horfið í hafi. Enda alltaf vitað að margt getur gerst á langri leið.
 
 Ef ég væri aðeins yngri og sprækari myndi ég safna saman nokkur hundruð tonna pöntun og gera áburðarsölunum lífið leitt, því ýmislegt bendir til þess, að þar sé innistæða til einhverrar lækkunar.

 Ég verð allavega mun verri við þá í komandi prútti, en hann Elías í Líflandi þó hans tími muni koma áður en lýkur.

  Nú er bara að loka áburðaráætluninni, ákveða hektarafjöldann í bygginu og svitna aðeins við að skoða kostnaðartölurnar við þetta ævintýri.

Já, mikið held ég nú að það sé skemmtilegt sumar framundan.emoticon  

03.03.2010 21:15

" Þróttmikið " Búnaðarþing og ímyndin.

 Nú er Búnaðarþingi lokið, búið að hressa upp á stjórnina og örugglega verið samþykkt fullt af skynsamlegum ályktunum og tillögum. 

Mér varð hugsað til þess þegar verið var að vasast í bændapólitíkinni í gamla daga, þegar kom að stjórnarkjöri upphófst mikið púsluspil.

 Það þurfti að gæta þess að landshlutarnir ættu sína fulltrúa í stjórn  Stéttarsambandsins.
Það þurfti  svo að gæta þess vandlega að stjórnarmenn skiptust í rétta pólitíska flokka.

 Ég minnist þess nú reyndar ekki að hagsmuna kratanna væri gætt á þessum vettvangi.

 Á þeim tíma þurftu menn hinsvegar ekkert að hafa áhyggjur af kynjaskiptingu í stjórninni því betri helmingar okkar fulltrúanna voru að sjálfsögðu heima að sinna búinu með einni eða tveimur undantekningum .

 Gaman væri að vita hvernig stórnarkjörið er dílað í dag.

 Gamli kúabóndinn í Dalsmynni er himinlifandi yfir því að kúabændur eiga 5 fulltrúa af 7 í stjórninni.

Það er ljóst að sólin sest ekki hjá okkur kúabændum fyrr en um 23 des. n.k. í fyrsta lagi.

 Gamli rollubóndinn í Dalsmynni er hinsvegar alveg arfavitlaus yfir því að sauðfjárbændur eiga ekki nema einn fulltrúa í þessari 7 manna stjórn.

 Þetta gengur náttúrulega ekki.

Reyndar var mér bent  á það, að þetta yrði nú kannski til þess að rollubændurnir myndu frekar lifa af komandi hörmungar í landbúnaðinum en ég tek náttúrulega ekki undir slíka vantrú á þessari þróttmiklu forystusveit okkar.

 Og formaðurinn okkar stóð sig bara nokkuð vel í kastljósinu í gærkveldi og ég trúði því oft, að hann tryði mestöllu sem hann hélt fram þar.

 Viðtalið við þær Lárusdætur fyrrverandi heimasætur í Kirkjubæjarklaustri í útvarpinu í dag, var svo ekki síður öflugt fyrir brothætta ímynd bændastéttarinnar.

 En ekki orð um þingið meira. emoticon 

 Ég fékk póst frá góðum kunningja í gær með ávítum fyrir slaka frammistöðu í bloggafköstum síðustu daga.

 Þar sem þessi ágæti lesandi minn hefur hvorki commentað né skráð sig í gestabók frá upphafi eyddi ég póstinum hans með brosi á vör.emoticon

26.02.2010 23:47

Fjöllin, fjórhjólin og við landníðingarnir.

   Nú eins og stundum áður hefur lifnað við umræðan um landverndina og landspjöllin.

 Eins og oftast áður á hún fullan rétt á sér, sérstaklega þegar öfgaliðið í báðar áttir hefur hægt um sig.

 Nú sem fyrr vill þessi umræða þó verða dálítið einsleit.

Á þvælingi mínum um fósturjörðina hef ég upplifað margvíslega meðferð á landinu.
Ég hef farið gamlar  þjóðleiðir milli bæja, sveita og landshluta. Þjóðleiðir sem voru fjölfarnar vel fram á síðustu öld.

 Sem betur fer er Kolbeinsdalurinn ekki riðinn með þessum látum nema einu sinni á ári, annars myndi hann láta á sjá.

 Þær leiðir sem sem eru alveg dottnar útúr notkun í dag eru nánast horfnar að mestu eða öllu leiti.
Það er ánægjulegt að upplifa það að flest  sár gróa um síðir.

Hinar sem hafa lent í því að verða tískuleiðir hestamanna eða göngufólks eru hinsvegar rækilega sýnilegar. Þar er ekki erfitt að finna jarðrask sem leiðir til til úrrennslis og landspillingar.

 Hestar og göngufólk hafa sömu viðleitni og torfærugengin á vélknúna dótinu, að leita uppúr djúpum förum og slarkinu þegar það myndast og breikka þannig slóðina.

 Það er orðin heil atvinnugrein að finna og selja nýjar gönguleiðir.Þetta er umhverfisvænn ferðamáti en setur engu að síður sín merki á landið.

 Þetta er meira draumatækið sagði bóndinn sem ég var staddur á hlaðinu hjá fyrir um 20 árum.
Ég held ég gæti ekki búið án þess í dag.

 Þau voru farin að reskjast hjónin, bjuggu með nokkur hundruð kindur og börnin farin að heiman.

Við vorum að virða fyrir okkur fjórhjólið hans.


Þetta er að vísu töluvert flottara enda 20 árum yngra og notagildið hefur líka margfaldast á þessum árum.

 Landverndin er margslungin og stundum verður erfitt að fóta sig í rökunum þegar allt er skoðað.



 Hér sést yfir hluta niðurlandsins í Dalsmynni og ljóst að hér er ekki lengur um ósnortið land að ræða. Þó ég sé enginn spámaður gæti ég trúað að ekki líði margir áratugir þar til þetta land verði allt nýtt í einhverskonar matvælaframleiðslu.

 Um helmingur jarðarinnar er fjalllendi sem er nýtt til beitar.

Fyrir tuttugu árum þurfti 6-8 manns að smala fjallið og það tók mann heilu dagana að hreinsa upp eftirlegukindurnar á þessum örafrétti.

 Nú eru ekki 6-8 manns í boði og fjallið er smalað af 2-3 á mun skemmri tíma.
Og eftirleitin er leikur einn.


Hér er ekið á fjallaslóða Dalsmynnis sem hvorki er á aðalskipulagi né kortum slóðavinafélagsins.

Það var um 1987 sem fyrsta flóðbylgjan af fjórhjólunum skall yfir og það voru fyrst og fremst bændurnir sem tóku þessum vinnutækjum fagnandi á þeim tíma.

  Á þessum árum síðan, hafa þessi tæki sett sitt mark á fjallendið þar sem þau hafa verið notuð.

Það eru komnar slóðir þar sem aðalleiðirnar liggja í leitir, girðingarviðhald eða grenjavinnslu.

Það er nær undantekningarlaust sameiginlegt með öllum þessum slóðum að ekki er um gróðurrof að ræða heldur troðningur sem myndast eftir þessar fáu ferðir sem farnar eru árlega um landið.

 Utan þessara aðalslóða er erfitt að merkja ummerki
eftir fjórhjólin sem stíga létt til jarðar.

 
        Kolólegur utanvegarakstur á dráttarvél eða eðlilegar girðingarframkvæmdir?
Hér er verið að koma upp skógræktargirðingu og það hefði verið auðvelt að safna saman mannskap, bera út efnið og gera þetta þannig að ekkert sæist á landinu. Það hefði hinsvegar hleypt kostnaðinum uppúr öllu valdi.
Eftir nokkur ár verður þetta komið í kaf í sinu og engin verksummerki
eftir vélaumferð sjáanleg.

 Tvöfeldnin í umræðunni er sú að engin athugasemd er við að umbylta öllu niðurlandinu í ræktun og matvælaframleiðslu.

 Troðið gras í  fjórhjólaslóðum um fjalllendið er hinsvegar stórglæpur í huga sístækkandi hóps  " umhverfissinna".

Já. það er vandlifað í henni veröld
.emoticon



 

 

Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere