Færslur: 2011 Desember

31.12.2011 08:35

Bloggannáll ársins.

 Það er óhætt að segja að ég hafi komist í krappan dans þegar ég fór að yfirfara blogg líðandi árs fyrir svona, ja bloggannál ársins.

 Ótrúlegt magn af allskonar kjaftæði.

En auðvelt að gleyma sér við að rifja þetta upp.

 Það vakti athygi að í janúar var heitasta óskin sú að fá meiri snjó en minni norðanblástur og kulda. 
 Ég komst í árangursríka eftirleit í Staðarsveitinni og svona leit hlaðið á Kálfárvöllum út þá.
Eitthvað hvítara ásýndum í dag.  Og við Mýrdalsbóndinn tókum dag í að leiðbeina nokkrum áhugasömum Dalamönnum og konum í að gangsetja hundana sína.
 

 
 Það er svo alltaf sama áhyggjuefnið í lok slíks dags hvað manni finnst mikið ósagt af allskonar tamningarpunktum.

 Febrúarmánuður leið hratt enda sýslað við margt skemmtilegt.

  Umbeðinn snjór mætti á svæðið án þess að verða til mikilla vandræða.

Sá gagnmerki félagsskapur, Hrútavinafélagið Hreðjar heiðraði mig og kannski sérstaklega hundana mína með heimsókn. Hér er ég að ljúga einhverju að þeim og áhuginn leynir sér ekki.

Og það var í feb. sem ég uppgötvaði svo að ég átti upprennandi snillingshund. Hann Tinna frá Staðarhúsum.

Það var líka í febrúarlok sem Innanríkisráðuneytið gerði sveitarstjórninni grein fyrir því hvernig ætti að umgangast íbúana varðandi boðun hreppsnefndarfunda. Sveitarstjórnin náði því nú ekki alveg en það er nú önnur saga.

 
Mars flaug líka framhjá á ógnarhraða enda daginn tekið að lengja og endalaus verkefni.
 Maður skellti sér í Hafnarfjörðinn svo vígslan á þessu hesthúsi færi nú örugglega vel fram sem hún og gerði.

Hvolparnir undan Glókolli og Dáð voru komnir á brottfararstigið til óþolinmóðra eigenda sinna sem voru valdir af stakri kostgæfni.Og það var í mars sem sótt var útigangsfé inná Núpudalinn. Þetta var trúlega síðasta fjallaferðin hans Vasks míns .

Það er í apríl sem vorfílingurinn fer fyrir alvöru að gera vart við sig og þetta byrjaði vel þegar stokkandarparið mitt mætti á tjörnina 3. apríl.
 Það tókst að koma mykjunni á túnin á tilsettum tíma en verr gekk með akrana.
 Kýrnar voru klaufsnyrtar fyrir sumartrimmið og nú þegar það er komið í árvissan fasa er heltin sem var umtalsverð í fyrstu skiptin eiginlega úr sögunni.

Það er svo í maí sem allt verður að gerast og þeir sem farnir eru að eldast aðeins, átta sig á því hvað það þýðir.

 Akuryrkjan er í algleymingi


 
og sauðburðurinn skellur á með sínum erfiðleikum og skemmtilegheitum.

 Fleirlemburnar eru að verða til vandræða og hún 616 sló öllu við þegar hún kom 5 stærðar lömbum í heiminn. Á fimm árum er hún búin að skila 16 lömbum en það er mun skemmtilegra að segja frá því en upplifa það. Og það var í maí sem þessi mæðgin, Skessa og Vaskur hurfu yfir á hinar eilífu smalalendur.

 Þau eiga alltaf inni hjá mér sitt hvort kveðjubloggið.

 Júnimánuður var hvorki hlýr né votviðrasamur og ætti það helst skilið að honum væri sleppt hér.

 Svona leit úthaginn út 7 júní. Og djö...... varð manni kalt á grenjunum.

 

 Þarna var legið í 8 tíma í na. roki og - 2 gr. Það er akkúrat á svona nóttum sem maður áttar sig á því hvaða fokkings rugl er að gefa sig í þetta.

 En eftir hóstasumar og útreiðaleysi á síðasta ári komst maður þó á hestbak. Hér er stoppað í áningarhólfinu í Stakkhamarsnesinu á leiðinni Böðvarsholt/Kálfárvellir - Söðulsholt.

 Sláttur hófst svo ekki fyrr en 5.júlí sem er um 1/2 mán seinna en í alvöru árferði.

 

Það náðist þó ágætlega ásættanlegt magn og gæðin komu skemmtilega á óvart.

 Guðmundur " ráðsmaður" Hallgrímsson mætti og fræsti flórana sem er algjör snilldarframkvæmd. Sammála um það bæði bændur og kýr.

 Ágúst sprautaðist alltof hratt framhjá eins og hinir sumarmánuðirnir. Það var þó reynt að laumast í smá frí og hér eru hæstu fossar landsins barðir augum þeir Háifoss og Granni bróðir hans.

Þessir voru eftirminnilegastir á Hrútaþukli þeirra Strandamanna. Og hingað fylgdum við svo henni Snilld minni, rollum svæðisins til mikillar armæðu. Mánuðirinn endaði síðan í snilldar fjárhundakeppni austur á Fljótsdal í urrandi blíðu. Þar fékk Tinni að spreyta sig í fyrstu og síðustu keppninni sinni. Hann landaði Íslandsmeistaranum í unghundaflokknum í hörkukeppni. Í tilefni þess fékk hann nú að koma innfyrir þröskuldinn, enda er hann hálfundrandi á svipinn.

 Það er byggstúss og smalamennskur sem eru allsráðandi í september sem að þessu sinni reyndist með rigningasælla móti. Veðrið var misgott í leitunum og svaladrykkirnir líka. Það leit svo ekki of vel út með bygguppskeruna, allt seint á ferðinni vegna vorkuldanna og haustið votviðrasamt. Og réttarhöld með lausafé fjárbændanna fór fram með hefðbundnum hætti.

 Það er í október sem uppskerutölur ársins liggja fyrir í byggi og sauðfjárrækt.

Byggtölurnar urðu í daprara lagi og enduðu í um 2.7 t. á ha.

Sauðfjárræktin gekk því betur. Meðalvigtin 19.27 gerð 9.84 0g fitan 8.05.Hækkun á vigt og fitu en lækkun á gerð frá f. ári.Slæma fréttin í okt var sú að Tinni frá Staðarhúsum var burtkallaður svona 10 árum fyrir aldur fram.

 Hann var hinsvegar ekki allur þar sem hann var séður og nú eru til undan honum á svæðinu 9 pínulitlir hvolpar úr tveim gotum.

 Það var í nóvember sem uppskera átti nýju olíujurtina, Akurdoðruna eða Camelinuna. Það hafði verið fullyrt að hún héldi fræjunum framá veturinn en greinilega hafði hún ekki heyrt þetta, svo olían sem átti að gera okkur ríka í bygghallærinu lá í fræunum á fósturjörðinni þegar til þeirra átti að taka.

 Það var gerð tilraun með að samstilla bestu ærnar  tveim gangmálum fyrir sæðingu og allt bendir til þess að það dæmi hafi gengið upp.
Jörð var og er kannski enn klakalaus svo loksins gafst tími til að plægja akrana síðast í mánuðinum.Snjórinn setti strik í reikninginn en það var nú samt látið vaða á síðasta akurinn.

Spurning hvort snjórinn geymist í strengjunum til vors?

 Já , hvað desember varðar er rétt að vísa bara í síðustu blogg.


Þeim ykkar sem hafa enst til að lesa þetta alla leið hingað, eða hafið haft vit á því að byrja aftast á annálnum óska ég góðs komandi árs með þökk fyrir samfylgdina á þessu ári.

27.12.2011 09:08

Forystusauðurinn Höttur og bóndasonurinn á Þverá.

Þegar grúskað er í gömlum sögnum og heimildum kemur alltaf eitthvað skemmtilegt upp á borðið.

 Árið var 1874 eða 5.

 Svæðið sem þeir Höttur og Guðmundur áttust við var Snæfellsnesfjallgarðurinn uppaf Núpudal, dalurinn og sveitin niðuraf honum.


 Séð inn Núpudalinn. Skyrtunna og Svörtufjöll fyrir miðju.

 Guðmundur Sigurðsson var fæddur 1852 og fluttist með foreldrum sínum að Þverá Eyjarhreppi 1861 þar sem faðir hans Sigurður Jónsson bjó síðan til dauðadags eða 5. mai 1890.

 Á þessum tíma héldu menn sauði og átti einn sveitungi Guðmundar nokkuð stóra sauðahjörð á þess tíma mælikvarða.  Um þetta leyti fór fyrir þeim hóp höttóttur forystusauður sem var orðinn nokkurra ára þegar sagan gerðist. Höttur var mikill fyrir sér og fylgdi honum jafnan hópur sauða. Hann var frár á fæti og var um sig, náðist aldrei til byggða í leitum en þegar fór að harðna á dalnum skilaði hann sér heim að húsi með hópinn.

 Eigandanum fannst nokkuð til um þetta og fengu smalar svæðisins stundum að heyra það að seint myndu þeir koma þeim höttótta til réttar.

"  Í norðaustur af botni Núpudals rísa 3 keilulagaðir tindar. Þessir tindar heitu einu nafni Þrífjöll en hver þeirra á sitt eigið heiti. Sá austasti heitir Svartfjall, sá nyrsti Snjófjall en sá vestasti Skyrtunna og er hann þeirra mestur fyrirferðar. " (Úr bókinni Bóndinn á Heiðinni eftir Gunnlaug Jónsson.)

 Það var í umhverfi Þrífjalla sem talið var að Höttur héldi sig.


Þrífjöll. Skyrtunna til vinstri. Snjófjall og Svartafjall t.h. eru toppar á samfelldum móbergshrygg. Samnefnari fyrir móbergshrygginn er Svörtufjöll.( á kortum Landmælinga Svörtufell.) Nafnið Snjófjall virðist vera nokkuð á reiki sérstaklega þegar kemur framá síðustu öld og nafnið Litla Skyrtunna fer að koma fyrir í heimildum.


 Guðmundur á Þverá sem var þarna á sínu léttasta skeiði rúmlega tvítugur ákvað að láta sverfa til stáls milli sín og Hattar trúlega haustið 1874 eða 5.

 Á leitardaginn er hann mættur til leiks í birtingu inn að Þrífjöllum og hittir þar á Hött vestan í Skyrtunnu þar sem hann fór fyrir 30 sauða hóp.

 Er skemmst frá því að segja að þar hefst mikið spretthlaup, fyrst vestur fjallgarðinn að Ljósufjöllum, þaðan til baka og síðan niður Núpudalinn. Sá sprettur endaði niður við Hrútsholt þar sem Guðmundur kemst fyrir hópinn sem snýr þá til fjalla á ný og er nú hlaupið sem aldrei fyrr, enda báðir aðilar áttað sig á því að nú var að duga eða drepast. Það er hér við Hlíðarhornið ofan Dalsmynnis sem Guðmundur kemst að lokum fyrir hópinn og þar með var mótstaða Hötts brotin á bak aftur. Guðmundur rak hópinn í hús á Þverá og fór síðan í smalamennskuna sem þá stóð yfir. Eigandi Hattar var mættur í Þverárrétt þegar safnið kom niður og hafði orð á því að enn hefði Höttur sinn leikið á leitarmenn.

 
Það hefur hinsvegar verið stór stund fyrir bóndasoninn á Þverá þegar hann gekk til fjárhúsanna og rak sauðahópinn í réttina.

 Talið er að bein loftlína á þeirri leið sem spretturinn stóð samfellt yfir hafi verið um 18 km. svo varlega áætlað hefur smalinn og sauðahópurinn  hlaupið 20 - 30 km. á fullri ferð.

  Það er nokkuð örugglega búið að rækta þessa hlaupagetu úr fénu á þessum 140 árum, spurning með smalana.


Heimild. Bóndinn á heiðinni eftir Gunnlaug Jónsson 1950.
 

24.12.2011 15:23

Jólabloggið .

 Hér eru búin að vera hin margvíslegustu veður í dag og ákaflega misgóð. Svona var það í birtingunni og reyndar ágætt þá stundina en svo brast " hann " á.Reyndar tók ég þessa mynd af garði húsmóðurinnar áður . Hér sést að trampólín heimilisins hefuir lagst á grúfu yfir vetrarmánuðina svo Söðulsholtsbóndinn fær það vonandi ekki á rekann þetta árið. Skaflinn sem áður var mikill leikvöllur barnanna minna, bæði sem gott snjóhúsaefni og rennibraut er orðinn ónýtur til slíks, vegna þessarar  skógræktar...... .


Óveðrið gekk hratt yfir og hin árlega ferð bóndans í kirkjugarðinn var drifin af. Það var mikill snjór kringum Rauðamelskirkju og allt hið jólalegasta. Það er búið að leggja gríðarlegar fjárhæðir í umhverfi kirkjunnar á síðustu árum og nú er komið að því að ljúka dæminu og mála hana að utan. Þar sem ég sveik systkini mín um hinn árlega annál í jólakortinu í þetta sinn, ætla ég að leiða þau þeirra sem heimsækja mig hingað, í kirkjugarðinn á Rauðamel.

 Megið þið svo kæru lesendur mínir hafa það gott um hátíðina og að sjálfsögðu framvegis.
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151377
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 12:41:49
clockhere