Færslur: 2010 Nóvember

29.11.2010 08:39

Enda býsna baukavænn/blessað gamalmennið.

 Það voru vísur og söngur sem voru allsráðandi í afmælisveislunni eins og að var stefnt.

Ég hef aldrei komist á alvöru " hagyrðingakvöld "  og nú kom það til mín.


                Helgi, Dagbjartur og Vigfús  fóru á kostum og slógu algerlega í gegn.

  Það mættu 3 snillingar ofan úr Borgarfjarðardölum og sýndu sitt rétta innræti því þeir höf'ðu greinilega ekki áttað sig á því að í afmælum á að hlaða oflofi á menn en ekki brjóta þá niður.

Og byrjuðu svona.

Helvíti er nú Halla klár

og hörkugóður svanni

að þrauka í yfir þrjátíu ár

með þessum líka manni.

                                   dd 

 Ég á svo eftir að fara betur yfir þetta og ákveða hvað er prenthæft. 

 

Sýnist löngum sopakær

sæll með byggið fljótandi

endar daginn (sukkið) oftast nær

uppíloft og hrjótandi.

                             dd

Hagmæltur og viskyvænn

vín og kvennagóður

en kollurinn er gegnumgrænn

og gamanmálafróður.

                           dd

 

Sér til gamans brúkar blogg,

býsna mikið lesið

sem virkar alveg eins og Mogg-

inn á Snæfellsnesið.

                           dd

Beint frá Býli.

 

Afkoman er ósköp næs

hjá öllum sem það stunda

selja beint frá býli gæs,

bygg og smalahunda.

                             dd
Og aðeins var minnst á austurbakkann.
 

Heyrast bæði hróp og köll

harmakvein og grátur

Eltir sprækur upp á fjöll

Austurbakkaskjátur.

                             dd
Og þessi sprengdi nú salinn.

 

Eins og refur reynslukænn,

rís og hækkar ennið,

enda býsna baukavænn

blessað gamalmennið.

                             dd


 Öddi mætti oftar en einu sinni á svið.  Hér tekur hann Binnavísur ( Svínárnesvísur) með miklum tilþrifum en sá vísnabálkur er í miklum metum hjá undirrituðum.

Og þessar áttu m.a. ágætlega við þessa kvöldstund.

 Mikið lét nú lífið okkur litlu kvíða.
Meðan kyrrlát kvöldsins blíða,
klappaði vanga Rauðárhlíða. 

Hjartað fullt af fjörsins yndi finn ég tifa.
Það er sem ég segi og skrifa,
 svona dag er gott að lifa.
                                     b.j.
Og veislustjórinn hann Þórólfur  var í essinu sínu, kominn á fornar slóðir.



 Hér er hann örugglega að segja sögu sem ekki er látin gjalda sannleikans.

 Austan frá Selfossi var sjálfur Ingi Heiðmar mættur og söng ræðuna sína af mikilli snilld.
 Þar lýsti hann miklum mannkostum afmælisbarnsins sem komu ábyggilega mörgum veislugesta á óvart.



Þakið á húsinu  gekk svo í bylgjum þegar hagyrðingunum tókst alveg sérstaklega  kvikindislega upp.
 Trúlega þessi verið að koma í loftið.

Fýkur nú í flest mín skjól,
fallið sérhvert vígi.
ef ég segi um hann hól,
er það bara lýgi.
                       dd


Göslarinn, Keli Langaholtsvert og Mummi refabani, sungu og kváðu að hætti alvöru sveitamanna.




Og þessir enduvöktu gömlu góðu gangnaskálastemminguna.

 Nóttin vart mun verða löng .
Vex oss hjartastyrkur.
Inni er bjart við yl og söng.
Úti er svartamyrkur.



 Stjáni pípari, Sveinn Blönduósi, Þórólfur,og Öddi náðu vel saman þó þeir kæmu sitt úr hverri áttinni.

 Yngri dóttirin söng m.a. uppáhaldslag/ljóð gamla mannsins, Rósin. 

Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós,
þráir lífsins vængjavíddir
vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan,
hjartasláttinn, rósin mín,
er kristalstærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður, kyssa blómið,
hversu dýrðlegt fannst mér það.
Finna hjá mér ást og unað,
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist
aldrei það er minning þín.
                                          Guðmundur Halldórsson

Þá lá nú við að hann gréti.



 Og Steinka sem var algjör primus motor og allt í öllu þetta kvöld, spilaði undir.

Það var svo afastelpan sem setti lokapunktinn á kvöldið.



 Ég ætla að syngja allt sem ég kann fyrir hann afa sagði hún á leiðinni á svið og kunni greinilega vel við sig þar. Fábært hjá henni.


 Þessi sáu um allt sem viðkom frábærum mat. Hafþór meistarakokkur og Súkkatmaður , Rúna og Keli
 ( m. pípuhattinn)  í Langaholti
.


Takk fyrir mig.emoticon

21.11.2010 22:42

Einungis ræður í bundnu máli.

 Ég hef aldrei verið mikill afmælisdagamaður og stundum hef ég varla munað eftir þessum árvissa degi sem hefur fylgt mér eins og skugginn allt þetta tilverustig.

 Það að gleyma kannski afmælisdeginum sínum er nú ekki nein höfuðsynd.

En að gleyma afmælidegi sinnar heittelskuðu flokkast hins vegar afdráttarlaust undir eina af stærri höfuðsyndunum.
En þetta blogg er nú ekki um það.


 Eins og glöggir blogglesendur hafa trúlega fyrir löngu gert sér ljóst er ég rakinn bogmaður enda fæddur 29. nóv.



Svona lítur rakinn bogmaður út undir regnboga í leitarskilum á Rauðamelsfjallinu. Þetta er lífið.

Og nú kemst ég ekki upp með að gleyma afmælisdeginum mínum ( 60 ára) og þó ég hóti því enn að verða að heiman þennan merkisdag er ég ekki spurður að því frekar en öðru.

Laugardagskvöldið 27. nóv. n.k. er því blásið til veislu að Breiðabliki og þar mun ganga mikið á.

 Allir sem flokkast undir vini (bæði með stóru og litlu vaffi) og vandamenn eru hvattir til að kíkja inn. og eiga góða stund saman.

Og vinir mínir á Austurbakkanum eru alveg einstaklega velkomnir.

Kl 20.00

 Aðeins verða leyfðar ræður í bundnu máli. Þeir sem vilja syngja fyrir afmælisbarnið eru sérstaklega velkomnir. Og þar sem afmælisbarnið á nóg af öllu er rétt að lágmarka allt gjafakyns.


Fyrir lengra að komna sem vilja gera skemmtilega helgarferð úr þessu er hægt að útvega gistingu.


20.11.2010 23:32

Hrútaveislan að bresta á.

Nú fer að styttast í jólavertíðina hjá fjárbændum eða öllu heldur hrútunum þeirra.

 En sveitahrútarnir njóta nú ekki alveg allra veisluréttanna því flestir rollukallarnir og konurnar nota sæðingar á hluta fjárins, en mismikið.

 Og í gærkveldi mættu þeir félagar, Jón Viðar og Lárus á Breiðablik og fluttu þeim sem heyra vildu árlega hrútamessu sína.



 Þeir voru að kynna hrútakostinn á sæðingarstöð vesturlands og hér að Jón Viðar að lýsa kostunum. Hann talaði ákaflega vel um þá enda eru þetta gallalausir gripir.

 Ég sem er löngu hættur að mæta á svona samkomur fann mig knúinn til að mæta í þetta sinn.
Ræktunarforkólfar búsins voru nefnilega kallalausar í menningarferð í borg óttans.

 Eftir að mér hafði verið gerð grein fyrir því hvað biði mín yrði Hrútaskráin ekki á eldhúsborðinu að morgni, mætti ég neistandi af áhuga. 
  Það fór hinsvegar ekkert á milli mála að aðrir fundargestir voru delluliðið í fjárræktinni.
Þ.e.a.s. fara ekki eins vel með áhugann og ég.



 Já það er gaman að þessu.

Og þessu líka.




Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579743
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:05:34
clockhere