28.07.2011 23:43

Girðingar og græjurnar.

 Hestamiðstöðin var að taka hluta fjalllendisins í  stórt hrossahólf og Gylfi girðingarmeistari og þúsundþjalasmiður mætti á svæðið.

 Girt var þvert yfir dalinn úr skógræktargirðingunni hjá mér.


 Það var gaman fyrir gamlan girðingarmógúl að skoða græjuna hjá Gylfa.



 Það var búið að raða utan og innan á hjólið allt sem þurfti í harkinu.



 Sjón er sögu ríkari.


 Rafstöð og öflugur höggbor til að glíma við holt og klappir.



 Og nefndu það bara.



  Svona á að gera þetta.

24.07.2011 21:46

Bændareið 2011.

 Það var lagt upp frá Skógarnesi um kl. 3.30 og riðinn Skógarneshringurinn. 

 Reiðin var í boði þeirra Einars  Söðulsholti, Auðuns á Rauðkollstöðum og Steins Loga Hrútsholti ásamt Hótel Eldborg. 

 Auk þeirra gesta, bættust við 2 hópar frá Hótel Eldborg svo það voru um 150 í hnökkum og 200 í veislunni um kvöldið.

 Húsfreyjan í Skógarnesi, skörungurinn hún Guðríður bauð gestina velkomna og óskaði þeim velfarnaðar í reiðinni.


 Þessi leið er algjörlega óviðjafnanleg með sléttum gulum sandfjörum og vallendisbökkum, enda var farið greitt milli stoppanna.


 Hér sést yfir hluta hópsins á hlaðinu í Skógarnesi í upphafi ferðar.



 Það teygðist úr hópnum og hér erum við að nálgast rústir verslunarinnar en þar var kaffistopp í bakaleiðinni.



 Hluti hópsins á bakaleiðinni, en lægðinni sem var spáð  að yrði til leiðinda þennan dag var frestað um 12 tíma svo það var hefðbundið bændareiðarveður þennan daginn.



 Tveir forsprakkanna, Auðun og Steinn Logi bera saman bækur sínar áður en næsta JÆJA gellur við.



 Umgjörð Löngufjara, Snæfellsnesfjallgarðurinn sást að þessu sinni í öskumistri sem minnti okkur á að landið okkar á sér ýmsar hliðar.



 Vinkonur mínar úr sleppitúrunum þær Rósa og Diemut létu sig ekki vanta á svona degi.

Dagurinn endaði síðan með mikilli veislu í hlöðu og tjaldi í Skógarnesi þar sem lambslærið sannaði sig einu sinni enn og síðan var sungið inní nóttina.

Takk fyrir mig.
 

18.07.2011 23:35

Óþurrkasumur og önnur sumur.

 Ég stæri mig gjarnan af því utan bloggs og innan að maður setji erfiða árferðið afturfyrir sig og eyði því af harða diskinum.

 Staðreyndin er nú samt sú að t.d erfiðustu rigningarsumrin sitja nokkuð vel inni í kollinum, þó farið sé að slá í góðu sumrin sem liðu áhyggjulaus með botnlausri blíðu og hamingju.


                              Dálítið fjarlæg uppákoma  í dag.
 Það er reyndar óskaplega langt síðan túnin gengu í bylgjum undir " litlu  " vélunum sem reyndar voru á dekkjum sem við köllum skurðarskífur í dag.


                         Svona græja hefði komið sér vel í dótakassanum þá.
 Og maður var orðinn algjör snillingur í að lesa úr lægðum og hæðum og gjörnýta hverja þurra stund sem gafst til heyskapar.

 Það verður nú að segjast eins og er að þeir hæfileikar nýtast alveg með afbriðgum illa síðustu árin.

Nú er varla hægt að segja að rignt hafi hér almennilega síðan í öndverðum maí og þó meira hefði orðið úr skúraleiðingum hér á svæðinu í dag en veðurfræðingarnir spáðu, fékk akkúrat bletturinn sem ég bý á alveg sérstaklega lítinn skammt.

 Það rigndi samt  greinilega þokkalega mjög víða í kringum mig og vinir mínir á Austurbakkanum fengu sem betur fer nokkuð góðan skammt, enda Austurbakkinn mun viðkvæmari fyrir endalausum þurrkum en gósenland Vesturbakkans.

 Hér var verið á fullu að heyja fyrir Hestamiðstöðina og ef rétt er lesið á veðurkortin næst vonandi að rúlla restinni þar á morgun. Þá eru eftir fyrri sláttur á nokkrum ha. á ýmsum leigutúnum.

 Þessi miklu þurrkasumur ( óþurrkasumur á öðrum landshlutum) ár eftir ár, vekja samt upp ýmsar spurningar sem enginn getur svarað.

Enda langbest að setja erfiðu árin afturfyrir sig og eyða þeim af harða diskinum, eða þannig.

Já, hér er svo alveg botnlaus blíða dag eftir dag.

 
Flettingar í dag: 386
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573600
Samtals gestir: 52137
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 12:47:51
clockhere