18.01.2013 22:15

Endalausir áfangasigrar og botnlaus heilabrot.


 Hægt og sígandi er verið að vinna á því sem eftir af framkvæmdalistanum.

Það var að vísu farið rólega af stað eftir jóladæmið en núna er aðeins farið að gefa í því hundatamningarnar bíða handan við hornið.

 Við vorum með bráðabirgðarbrynningar bæði hjá geldneytunum og fénu og höfum verið í að leggja alvöru lagnir til þeirra.

 Eftir nokkra íhugun var farið í John Guest lagnaefnið og það verður að segjast eins og er að þetta lagnaefni er rosalega skemmtilegt og einfalt í lagningu.

 Og þó ekki sé hægt að tala um að eitthvað sé ódýrt í byggingarbransanum þá ætla ég ekki að kvarta yfir verðlaginu á þessu miðað við annað.



 Hér er farið inn í fjóslögn til að ná vatni fyrir geldneytin og síðan er það bara fittings í vasann, töng í hendi til að klippa niður rörin, svo er þessu raðað saman án annarra verkfæra.

 Ef þarf að fara í lögnina eða breyta henni seinna, er hægt að smella þessu öllu sundur með berum höndum.



 Það var farið í galvandæmið í lögnina þar sem kvígudótið nær að djöflast í þessu svo maður gat rifjað upp gamla kerfið.



 Stálvír strengdur milli stoða til að halda plastinu uppi.



 Það var svo splæst í gömlu góðu brynningarskálarnar hjá rollunum, þvi taðhúsin þola illa sulluganginn sem fylgir stútabrynningunni. Þegar gangar og gjafaplattar voru steyptir henti ég 25 mm. lögn í steypuna og það er skýringin á þessu svarta  röri.



 Atli átti alltaf eftir að klára rúlluklóna sem hann smíðaði í yfirstærð því við erum með 140 cm rúllur.

 Það var ágætt, því þegar búið var að vera með hana í höndunum ófrágengna í einhvern  tíma var hægt að hanna lokastigið á henni svo allir yrðu kátir.



 Hér er niðurstaðan og þar sem við höfum ekki kynnst öðrum útfærslum á því hvernig klónni ert haldið opinni, trúum við því að þetta sé toppurinn.

 Og eins og við höfum margrekið okkur á í þessari framkvæmd , erum við að verða alveg djöfull góðir í einhverju þegar það er búið og  þarf að fara að hugsa um eitthvað nýtt.

16.01.2013 08:21

Púki , Steinn Steinarr og ég.

Alveg frá upphafi sambúðar var það kristaltært af minni hálfu að köttur yrði ekki liðinn á heimilinu.

 Reyndar man ég ekki lengur hvað lá á bak við þessa skynsamlegu ákvörðun en þegar prinsippið er komið verður auðvitað að halda sig við það.

 Enda gekk þetta átakalaust fyrir sig þar til eldri dóttirin fór að komast til vits og ára en hún fékk enn ríkulegri skammt af dýraáhugagenum  en systkini hennar og er þó ekki á þau bætandi.

 Ég var hinsvegar þverhaus hinn mesti,  fastur fyrir á prinsippunum, og þó ég sé slæmur enn hvað þessu viðvíkur er það ekki nema svipur hjá sjón miðað við gömlu góðu dagana.

 Og stóð allar atlögur af mér hvað þetta varðaði.

 Svo kemur að því að dóttirin sem hafði búið nokkur ár norður í Skagafirði hyggur á flutninga í gömlu sveitina sína. Þá var yngri dóttirin sem var komin allvel til vits og ára búin að átta sig á, eftir margar stórsóknir gegnum tíðina að kattarprinsippið var í fullu gildi enn.

 Svo er það einn vordaginn að ég kem dauðþreyttur inn úr gegningum að dóttir mín sú hin eldri er komin  í heimsókn af norðurslóðum.
Ég skynjaði strax og inn úr dyrunum kom að nú væri einhverra óvæntra tíðinda að vænta, einhver  spenna í loftinu og ekki laust við eitthvað sigurglott á gestinum.
 
  Það hefði enda komið sér vel á þessum tíma ef ég hefði haft aðgang að áfallahjálp þegar yngri dóttirin sýndi mér kampakát kolsvartan kettling sem systir hennar færði henni að gjöf við komuna.

 Þetta var það alótótlegast kvikindi sem ég hef nokkurntímann séð horaður, úfinn og svo ólánlegur í laginu að það hálfa væri nóg.

 Og til að bæta gráu ofan á svart í orðsins fyllstu merkingu upplýsti gefandinn, að kvikindið væri hreinræktað úr villikattastofni Stebba í Keldulandi.  Stofninn  er gamalræktaður og heldur ofanverðum Kjálkanum bæði tófu og minklausum.

 Ósigurinn var algjör og þó  væri löngum fátt milli mín og Púka var samt allt illindalaust.



 Hann gjörbreyttist í útliti og þó ég viðurkenni það ekki, er þetta hinn myndarlegasti köttur og villikattastofni Stebba til nokkurs sóma allavega hvað útlit varðar.

Þess minnist ég, að mér og þessum heimi,
kom misjafnlega saman fyrr á dögum.
Og beggja mál var blandið seyrnum keimi,
því báðir vissu margt af annars högum.

Sagði Steinn Steinarr fyrir margt löngu og þannig var samband okkar Púka lengi vel.

 Við skiptum okkur helst ekkert hvor af öðrum þó ekkert skorti á stimamýkt okkar við aðra á heimilinu.
 
Það kom þó að því að kæmust á sættir milli okkar Púka og sem betur fer þurfti nú ekki jafnmikið til  og hjá Steini og heiminum í den.
 

Og við, sem áður fyrr með grimmd í geði

gerðum hvor öðrum tjón og falli spáðum,

sáum það loks í ljósi þess, sem skeði,

að lífið var á móti okkur báðum.


Nú ölum við ei lengur beiskju í barmi

né byrgjum kala neinn í hjörtum inni,

því ólán mitt er brot af heimsins harmi

og heimsins ólán býr í þjáning minni.

 Sagði Steinn Steinarr.
 
Þar kom að dóttirin hvarf til Rvíkur í nám og þegar við félagarnir vorum orðnir  tveir heima lungann úr deginum fór ekki hjá því að samkomulagið lagaðist.

 Og þegar hann  varfærinn kom sér vel fyrir ofaná mér þar sem ég var að taka hádegislúrinn varð ekki aftur snúið.



 Púki vill lifandi vatn úr krananum og á mjög auðvelt með að koma okkur í skilning um hvenær það hentar honum að við skrúfum frá fyrir hann.

 Hann fær stundum  mikla útivistarþörf og á til að hverfa vikum saman .
stundum líður svo langur tími að búið er að afskrifa kauða en alltaf skilar hann sér

Hjónaherbergisglugginn er samgönguleið hans við umheiminn og eftir að gleymdist að setja lokið á heita pottinn eitt sinn ( er undir glugganum) gengur hann frekar varlega um gluggann við heimkomur.



 Eftir að við urðum vinir og samherjar kemur hann gjarnan og aðstoðar mig við bloggskrifin. Yfirleitt stekkur hann þá upp á tölvuborðið, gengur eftir endilöngu lyklaborðinu, hikar aðeins meðan ég bjarga kaffibollanum í ofboði og leggst svo á skrifborðið við hliðina á mér. Eins og sést á myndinni er það nú samt ekki vegna áhuga hans á því sem sést á tölvuskjánum.

 Og ég er steinhættur að minnast á hvernig leðursófasettið sem átti að endast nokkrum ættliðum lítur út.

En það hefur reynst Púka ágætlega við að halda klónum í formi.

12.01.2013 21:26

Hálmur til sölu.

 Nú liggur fyrir að hálmnotkunin í fjárhúsunum verður margfalt minni en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

 Þess vegna er til sölu ágætur hálmur,  óplastaður og geymdur inni ( ennþá).

Rúllurnar eru í nokkrum stærðum.

 Síminn er 6948020 og verðið verður annaðhvort prúttað upp  eða niður, í það rétta.


Flettingar í dag: 311
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 435946
Samtals gestir: 40234
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 05:37:00
clockhere