02.06.2009 21:05

Endalaus fjölbreytileiki í sveitinni.


   Það sem gerir sveitamanninum lífið þolanlegra, er endalaus fjölbreytileikinn í verkefnum daganna.

Nú er t.d. verið að brjóta nýtt land til ræktunar og einn dagurinn var tekinn í plægingu sem mér hefur alltaf þótt skemmtileg vinna.



 Hér er verið að vinna mýrlendi sem var tætt í haust og nú er verið að plægja það áður en ýtt er út ruðningum og lagað til. Þessi spilda verður notað í akuryrkjuna í nokkur ár og síðan lokað með grasfræi.


  Nú er verið að bera áburðinn á túnin sem  að sleppa verður seinni slættinum á. Þetta eru rollutúnin og tún hestamiðstöðvarinnar. Síðan verða nokkrar pælingar þegar kemur að slætti, með að láta þetta spretta hæfilega úr sér eftir því hvenær og hverjum er gefið.


  Í dag voru tittirnir reknir inn, því dýralæknirinn er væntanlegur til að fara höndum um þá, sem búið er að afskrifa í ræktuninni.

Hyrjar gamli sem hefur verið að aga þá í vetur, var gripinn í leiðinni þvi nú þarf að járna og hreyfa hann aðeins fyrir sleppitúrinn og sumarið.



 Fyrstu kindurnar fóru í fjallið í dag. Þetta var nýborið fé sem verið er að sleppa af húsi og tók ekki að setja niðurfyrir, því fljótlega verður farið að sleppa. Um tíunda júní verður væntanlega flestallt féð
komið uppfyrir og fjallið lítur vel út eins og reyndar allt annað hvað grassprettu snertir.

 Og komandi nótt verður  fyrsta nóttin í langan tíma sem ég get sofið án þess að kíkja í fjárhúsin.

 Spurning hvernig það gengur.

 Og vinir mínir í sjálfstæðisflokknum eru menn dagsins.

Þessir gallhörðu talsmenn verðtryggingarinnar afnámu hana í dag.

En bara fyrir sig???

Góðir.

 

30.05.2009 23:19

Erfðabreytt bygg. Leggur það skerið endanlega í eyði??

  Það er búin að vera lífleg umræða um "erfðabreytta " byggið  í tilraunaræktuninni hjá Orf líftækni.

 Þetta snertir marga og umræðan sveiflast allt frá því annarsvegar, að hér fari allt í kalda kol , landbúnaður, náttúran og meira að segja íslenska vatnið muni mengast, og óbúandi verði á klakanum,  sé þetta ekki stoppað hið snarasta. Hinsvegar það álit Jónatans Hermannssonar tiraunastjóra og jarðræktarfræðings að engin hætta sé á að bygg vaxi villt á íslandi (sjá hér ) enda hafi það ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 Það sé útilokað að erfðabreytta byggið ná að dreifa sér eða víxlfrjóvast hér uppi á klakanum.

 Þetta er samt alvarlegt mál með vatnið hvort heldur fyrir okkur frumbyggjana eða hina sem eru að gera 95 ára leigusamning um einhverjar lækjarsitrur til þess að flytja vatnið út.

 Ég verð nú að viðurkenna það, að ég tek nú dálítið mikið mark á honum Jónatan þó honum gangi illa að gefa mér ráð, sem duga til þess að ná 5 t. uppskeru af byggi á ha. en við erum, ekki hættir við þau markmið enn.  Það er jú komin margra áratuga reynsla á byggræktun  hér og afar erfitt að sýna fram á nokkurt dæmi þess að byggið væri að koma sér fyrir í náttúrunni. 


 Lómurinn er alíslenskt sexraða yrki , ákaflega lágvaxið og veðurþolið sem Jónatan hefur náð fram með , Ja kynbótum eða erfðabreytingum, hvar eru mörkin?

 Þó að ég sé ákaflega slakur yfir þessari tilraunaræktun þeirra Orfmanna þá verður að skilyrða  hana rækilega. Það er til dæmis mikilsvert að fræið í tilraunaræktuninni er dökkt eða svart afbrigði
( Dimma) og sker sig því rækilegu úr þeirri hefðbundnu  og síðan er rétt að binda þetta alfarið við afmarkað svæði með frekari takmörkunum.

  Sumir telja það eina af hættunum við þetta, að miklir peningar eru í spilunum. Þeir eru það vissulega og það eykur alltaf hættuna á því að slakað verði á öryggiskröfum.  Mér gengur samt sífellt verr að koma auga á hætturnar við þessa ræktun til lyfjaframleiðslu eftir því sem ég skoða málið meira.
  Stærsta hættan er trúlega sú að blettur komi á hreinleikastuðulinn okkar, í augum þeirra sem óttast tæknilegar kynbótaframfarir.

 Og peningar eru svo ekki ekki alvondir, þó við eigum lítið af þeim í augnablikinu. 
 

27.05.2009 01:14

Ósnortið votlendi. mófuglinn og rebbarnir.

 Við komum á grenið um níuleytið um kvöldið. Það var greinilegur umgangur á því og við komum okkur fyrir og hófum biðina eftir ábúendum sem hvorugur var heimavið.

  Það var tvennt sem gerði þetta dálítið meira spennandi en vanalega. Annarsvegar vorum við þarna á nýju grenjavinnslusvæði, en við höfðum tekið við grenjaleitinni í gamla Miklaholtshreppnum þá um vorið( 2001).
 Hitt var, að þarna vorum við komnir niður á láglendið en til þessa höfðum við einungis kynnst grenjavinnslunni í fjalllendinu í Eyjarhreppnum.


   Þetta er alvöru fjallagreni í um 500m hæð í Hafursfellinu sem ég fann fyrir nokkrum árum, eftir mikla
leit og djúpar vangaveltur. Það stóð undir vetraveiðinni hjá mér í þó nokkur ár, áður en það fannst.

 Miklaholtsgrenið er í einu af klapparholtunum sem standa uppúr miklu flóaflæmi sem liggur milli Laxár og sjávar og síðan austurúr. Þetta er gríðarstórt svæði trúlega á annað þús. ha. og langstærsti hluti þess alveg ósnortinn af mannavöldum, síðan skóginum hefur væntanlega verið eytt í den.

 Þarna eru forblautar mýrar með stöku klapparholtum, með vísir af þurrlendismóum næst sér.
Það er síðan aðeins þurrara næst sjónum og með ánni, en með sjónum liggur að hluta gömul þjóðleið sem nú er mikið notuð af hestamönnum á leið um Löngufjörur.

  Á þessum tíma var einungis vitað um tvö gren á svæðinu. Miklaholtsgrenið sem við lágum á, og annað alveg vestur við Straumfjarðará. Þangað voru nokkrir km. í beinni loftlínu.

 Þetta kvöld var alveg stafalogn, hlýtt í veðri og einstaklega hljóðbært í kyrrðinni.
Við heyrðum og skynjuðum þungan sjávarniðinn við ströndina sitthvoru megin og við Skóganesið.

 Það var þá sem ég áttaði mig allt í einu á, að eitthvað vantaði algjörlega á svæðið.

Það var sama og ekkert fuglalíf í flóanum.

 Ég heyrði öðruhvoru í einum stelk. Síðan voru þarna spóar á stangli, örfáir og virtust ekki vera á hreiðrum eða með unga. Hinsvegar var talsvert af kjóa víðsvegar um. Hann var greinilega á hreiðrunum og hvergi banginn í þeirri óáran sem virtist hafa gengið yfir svæðið, sem er þó algjörlega laust við allt ónæði af mannavöldum, nema kannski á haustin ef einhverjar rolluskjátur skila sér ekki úr holtunum á skikkanlegum tíma.

 Við unnum grenið um kvöldið og það við Straumfjarðarána næstu nótt.

  Um vorið og sumarið fundust 3 greni til viðbótar á svæðinu. Eitt eftir mikla leit, eftir að hafa fylgst með dýrunum nokkrar nætur, hin fyrir algjöra tilviljun. Samtals náðust þarna um vorið og sumarið 10 grendýr og 3 hlaupadýr að ótöldum um 30 yrðlingum.


 Á einu þessarra grenja eru stundum snoðdýr . Það eru uppi ýmsar kenningar  um orsakirnar en mér finnst  alltaf jafn ömurlegt að  lenda í því að vinna  þau greni.

 Næsta vor var síðan búið á öllum þessum grenjum, sem sagði okkur það, að á svæðinu hefði verið slatti ef gelddýrum sem tóku yfir óðulin um leið og þau losnuðu.

 Það er enn dálítið af tófu á þessu svæði og yfirleitt búskapur á tveimur til þremur grenjum á vorin, en nú er fuglalífið blómlegt og síðasta vor sýndist mér vera rjúpnapar á hverju holti.

 Skógarnesbændur eru samt ekki sáttir við vini sína í grenjavinnslunni og láta okkur óspart heyra, að allt sé vaðandi í tófu, sem haldi niðri svartbaksvarpinu og öðrum gamalgrónum hlunnindum.

 Það er ekki legið á því að ein álpaðist undir bíl hjá þeim í fyrra, sem sýni ástandið í hnotskurn. 

En það hefur alltaf fylgt grenjavinnslunni að gert sé dálítið grín að skyttunum.

 Ég er hinsvegar  sáttur við stöðuna enda ekkert eðlilegra en að sjá tófu bregða fyrir, þó hóf sé best á hverjum hlut.

 

 
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581568
Samtals gestir: 52774
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:52:34
clockhere