28.05.2008 23:36

Varnarlína. Dagur tvö.






  Það eru alltaf hálfgerð ónot í manni þegar þar er komið í viðhaldinu á varnarlínunni á sunnanverðu nesinu að kíkt er á girðinguna yfir Laxána. Þó þetta sem sést hér að ofan sé ekki glæsilegt er þetta þó með skárra móti. Í gær var farið með girðingunni frá þjóðvegi að Skógarnesvegi og í dag frá þvóðvegi að Laxá. Fyrst þegar ég byrjaði í þessu bölvaði ég gaddavírnum mikið. Ég er löngu hættur því og ekki ólíklegt að gaddavírsgirðingar muni sjást í Dalsmynni þar sem alvöru girðing á að setjast upp.
  Ég hef hinsvegar lært það að girðingahanskar og girðingahanskar geta verið tveir gjörólikir hlutir. Og þegar ég býð út efni í girðingu læt ég alla bjóða , öll merki, .þó ég viti nákvæmlega hvaða gaddavírstegund og vírlykkjutegund verði keypt. Sem betur fer vita sölumennirnir það ekki og samkeppnin er hörð. Og ríkið græðir. Þó þetta sé þræladjobb er eitthvað sem heldur í mann . 
Kannski svona dagur ,þar sem allt er að lifna í fjallinu og skyrtuveður inn með hlíðinni. Ástandið á girðingunni var nokkuð gott á þessu svæði og notalegt að dóla á fjórhjólinu meðfram þessum köflum sem girtir hafa verið upp síðustu árin, hinir voru  ekki svo slæmir þó þar sé einn ,nokkur hundruð metra kafli sem þyrfti að girðast upp í sumar.

  Já það er kominn gróður og nú geta Kata og Siggi farið að reka úr túninu.

27.05.2008 22:52

Grænkandi Akrar.




          
      Hér er sáningargræjan í öllu sínu veldi fullbúin, með tætara undir sáðvélinni og Atla Svein undir stýri.. Svona útbúin er hún keyrð á plógstrengina, tætt, sáð fræi og felldur niður áburður í sömu yfirferðinni. Vegna tímaskorts var tætarinn settur við aðra vél en með því jukust afköstin við sáninguna um nærri helming en hagkvæmnin minnkaði verulega. Sáð á 7.5 km hraða í stað sirk. 4 km.  Vinnslubreiddin er 4 m og er fræi og áburði komið út á akurinn og síðan sér sáningarmaðurinn um þetta einn. Óþarft er að taka fram að græjupakkinn er frá Jötun Vélum á Selfossi og svínvirkar náttúrulega...

    Þó vorið hafi verið önugt við okkur byggræktendur til að byrja með er hugsanlegt að þessi gósentíð frá sáningu bæti upp hversu seint var sáð. Nú grænka akrarnir hver á fætur öðrum og þetta lítur vel út . Undanfarin ár höfum við fengið kaldan þurrviðriskafla í maí sem hefur trúlega ekki virkað mjög vel á byggbúskapinn. Hann er ókominn enn.

    Já lífið er oft lotterí en akuryrkjan alltaf.

25.05.2008 23:07

Smala, ferða eða keppnishestar??



           Stígandi frá  S. Skörðugili  F. Prins  M. Gríma ,bæði frá Syðra Skörðugili.

  Það voru teknir tveir tímar í að taka út tilvonandi ferðahross í dag . Fjörureiðinni var hinsvegar sleppt sem betur fer, því eitt hrossið veiktist og það setur strik í móralinn í svona ferð. Ég byrjaði á honum Stíganda mínum sem hefur verið í sér meðferð hjá dótturinni. Þetta er enginn smalaklár staðhæfir dóttirin, hann er fínn fyrir mig í fjórgangskeppnir. Ég gef hinsvegar ekkert fyrir fjórgangskeppnir. Ég vil bara mína fjalla og ferðaklára sem komast svo með ásættanlegu móti um fjöruna á hátíðar og tyllidögum. Þeir verða að vera rúmir á tölti og brokki og ég vil alls ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að passa uppá písk í reiðtúrum. Það verður að viðurkennast að Stígandi hefur haft mjög gott af því að vera laus við mig í vetur. Dótturinni hefur tekist að létta taumhaldið og töltið er alltaf að rýmkast og hægatöltið er líka að koma. Það fór því ágætlega á með okkur félögunum, en ég sá það í hendi mér að þó taumhaldið væri fínt hjá okkur einum í heiminum yrði annað uppi á teningnum í samreið því Stígandi er með sömu genin og Auðun félagi minn, að vilja vera fyrstur í hópnum. Hann töltir hinsvega miklu , miklu betur og er meðfærilegri þrátt fyrir mikinn vilja, enda Auðun eins og hann er.

  Síðan lagði ég á Dögg frá Kjarnholtum í fyrsta skipti. Hún kom skemmtilega á óvart og var umsvifalaust munstruð í túrinn. Allur gangur ,ágætur vilji og rúmt og einstaklega mjúkt brokk sem hægt væri að sitja allan daginn. Fimmti gangurinn sem ég ætla ekki að nefna til að æsa ekki upp tengdasoninn, mætti hinsvegar vera betur falinn eða yfirhöfuð ekki fyrir hendi.

  Aðalhesturinn, Oturssonurinn Hyrjar frá Dalsmynni er hinsvegar útigenginn og ekki kominn á járn. Þó hann sé kominn á aldur stendur hann fyrir sínu og ég hef aldrei beðið um meira rými í brokki og tölti ,eða meiri vilja en hann hefur boðið upp á í gegnum tíðina.

  Já þetta lítur bara ágætlega út með sleppitúrinn.
   


Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere