Færslur: 2014 Júlí

30.07.2014 20:36

Slæmt, vont og verra.

 Sumarið 1983 var frekar önugt til heyskapar, stöðugir óþurrkar og vandræði. 

Þó ég hefði þá  heyjaði mestallt í vothey átti það að vera  aðeins forþurrkað sem reyndist ekki í boði. 
  Ég gerðist spámannlegur um haustið og huggaði mig og aðra með því að þetta árferði gæti ekki versnað. 
  Þó ég hafi verið enn spámannlegar vaxinn þá en nú reyndist næsta sumar þó verða mun verra, kaldara og rigningarskýin mun öflugri

.Algjört vibbasumar .

 Á þessum tíma var ekki sturtuvagn  í dótasafni bændanna frekar en svo margt annað og það var ekki nóg með að mýrartúnin væru eins og gljúpur svampur heldur þurfti gjarna tvær dráttarvélar til að koma vagninum heim með einhverja hungurlús af heyi í gryfjuna. 

   Já þetta voru virkilega vond sumur. Þó tækni, túnavegir og tún hafi gjörbreyst frá þessum tíma eru menn alls ekki að ráða við svona sumur.

    Góðu vanir gera menn kröfur um fyrsta flokks grasfóður en það verður ekki í boði næsta vetur í langflestum tilvikum, sérstaklega sunnan og vestanlands. 


 Hér er verið að slá síðustu spildu fyrri sláttar. Gríðarleg uppskera með afar lágu fóðurgildi

  Nú er loksins brostinn á nokkurra daga  þurrkur og stefnir í lokasprettinn hjá mörgum með fyrrislátt.
   Reyndar er blásturinn í kröftugra lagi hér og ekki óliklegt að einhverstaðar fjúki hey. Það lækkar þá plastkostnaðinn sem verður óhóflegur utan um allt þetta heymagn með allt of fáum fóðureiningum.  

   Já það er ljóst að menn eru með lakara fóður en sést hefur í langan tíma. Misjafnlega úr sér sprottið og með lægri þurrefnisprósentu en flestir kjósa. Magnið verður samt trúlega vel umfram meðaltal og þar sem lystugleikinn verður slakur munu menn búa vel með fyrningar næsta  vor. ( Halda plúsunum til haga ) 

 Sem betur fer ná menn vel að halda haus vegna veðráttunnar en afkoman verður þó slakari næsta árið vegna minna afurða og meiri kaupa á aðfengnu kjarnfóðri.  Það er svo dýrmæt reynsla fyrir þá bændur sem ekki hafa kynnst alvöru rigningarsumri að spreyta sig á einu slíku. Það var plægt upp lélegt tún sem er innan sauðfjárhólfsins á bænum og verður  sáð í það blönduðu grasfræi næstu einhvern næstu daga . Aðeins að hressa uppá vor og haustbeit. Svo er verið að safna saman hrossum til að beita mýrlendið í hólfinu því sinubruni er ekki inni lengur.

 Já , grasið er ýmist of eða van rétt eins og rigningin.emoticon

08.07.2014 20:56

Hæðarleysið yfir Grænlandi og ???


 Í árdaga meðan ég var enn blautur á bakvið eyrun í búskapnum upplifði maður reglulega óþurrkasumur. 

   Stundum sumar eftir sumar. 
 
Þá dugði ekki sólarglæta í 1 - 2 daga til að bjarga málunum . Það tók langar tíma að slá , þurrka og hirða og nefndu það bara. Og að sjálfsögðu var ekki í boði að setjast við tölvuna og skoða veðurspár hjá nokkrum spámiðlum og kannski nokkrar vikur fram í tímann.

 Reyndar kannski ekki svo mikils virði á þessum síðustu og verstu að liggja yfir misónákvæmum spádómum. 

Eitt það fyrsta sem ég lærði í spádómsfræðunum var að hæð yfir Grænlandi var bjargvætturinn í óþurrkinum. Hæð yfir Grænlandi var ávísun á norðanátt og þurrk. Hún var málið. 
 
  Henni fylgdi að vísu lotteríið um hraðann á norðanáttinni. Ef hún var mikið að flýta sér gat tilvonandi heyforði endað í nærliggjandi skurðum og girðingum., en þá eins og nú er lítið gaman að lífinu ef engin er áhættan.

  Þó allt fari í hring er heyskaparbasl þessa tíma að baki og nú er málunum reddað á örfáum dögum , næstum milli skúra.
 Ungu bændurnir sem ekki hafa kynnst alvöru óþurrkasumri  ná ekki upp í það að allt í einu er grasið farið að spretta úr sér .  Og enginn þurrkur í kortunum. Túnin orðin undarlega mjúk yfirferðar  og annað eftir því.
Og  litlu hægt að ráða þurrkstiginu á heyinu við rúllunina, í plast skal það með góðu eða illu ef gefur þurran dag.  Allt er jú hey í harðindum eða þannig . 

Hér á bæ er nú verið að ljúka þriðju heytörninni.  Nú voru nærri 3 þurrir dagar í boði og gærdagurinn bara mjög fínn til síns brúks.
Þar sem féð er á taði verður að gera talsverðar kröfur um þurrefnisprósentuna í heyi fyrir það.
 Þá dugar ekki annað en knosaravélin við sláttinn og  það lá við að ég væri bara nokkuð sáttur við þurrkstigið þegar það small í plast áðan. 
 
 Og þó heyforðinn sé kannski aðeins ofþroskaður og í rakara lagi þá sleppur þetta vonandi til og er kannski bara mjög gott ef miða á við hæðarleysið yfir Grænlandi og helv. lægðarganginn sem er að læðast að okkur aftanfrá eða úr austri. 

  Svo ekkert misskiljist þá var vorið náttúrulega með eindæmum gott. Grasspretta alveg með fádæmum, en byggspá ársins sem byggist á sólarlitlu rigningarsumri, - segist ekki. Enda  byggið engin votlendisjurt og ljóst að frábært vor mun ekki duga til að tryggja góða uppskeru emoticon

  • 1
Flettingar í dag: 90
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151353
Samtals gestir: 7040
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 12:20:14
clockhere