Færslur: 2015 Maí

22.05.2015 04:41

Tiltalið og ræktunin.

 Stundum ( mjög sjaldan ) fæ ég tiltal fyrir að vera að tala niður BC ræktunina á skerinu.

 Nema hjá mér náttúrulega emoticon

En þetta er auðvitað alrangt. emoticon

Reyndar impra ég einstaka sinnum á því að töluvert hlutfall BC hérlendis séu kannski ekki að slá í gegn sem fjárhundar. 

Nefni kannski svona  30 - 40 % en tek undantekningarlítið fram að þetta sé nú tilfinning undirritaðs án nokkurrar vísindalegrar rannsóknar. 

Og þetta hefur hvorki verið sannað né afsannað ( mér vitanlega ) emoticon .

Tek gjarnan fram líka að ræktendahópurinn sé nú breiður og notendahópurinn líka.

 Hundur sem er þannig byggður að hann hefur kannski ekki við sæmilegri fjallafálu og er róleg geðprýðisskepna í samræmi við það, hentar efalaust þeim sem er ekki að leggja vinnu í hundatamningu og treystir á fjórhjólið eða nágrannana við það brýnasta í stússinu. 

Ræktun er svo að öðru leyti alltaf söm við sig og niðurstaðan stundum alveg út í Hróa miðað við væntinguna sem vönduð pörun skapaði . 

Stundum bendi ég á hrossaræktina til samanburðar. 

Engin trygging þar fyrir gæðunum þó leiddir séu saman einhverjir fyrstu verðlauna foreldrar. 

Svo verði aldrei litið framhjá því grundvallaratriði að ræktendurnir og ekki síður viðskiptavinir þeirra hafa mjög skiptar skoðanir á því hvað sé góður vinnuhundur.

 Ekki svo sjaldgæft að rekast á slíka, hæstánægða með hundinn sinn, sem ég tæki ekki ótilneyddur með mér í smölun vegna skorts á hæfileikum eða tamningu. 

Á dögunum hringdi einn í mig og kenndi mér um það að hann sæti uppi með rúmlega ársgamlan hvolp sem myndi trúlega aldrei virka sem fjárhundur. 

Hann sagðist hafa  lesið það á bloggi hjá mér að til að tryggja öryggið við hvolpakaup ætti að gæta þess að foreldrarnir væru " góðir vinnuhundar " emoticon .

 Ræktendurnir hefðu aðspurðir fullyrt það að foreldranir stæðu sig bæði vel í harkinu.

  Jaaá sagði ég og hvað er þá að hvolpinum ? 

 Nú, hann er áhugalítill , kjarklaus og vinnur þröngt það sem hann gerir emoticon . 

 Nú , spurðirðu ræktendurna um ákveðnina hjá foreldrunum, vinnu lagið og áhugann  spurði ég, sem ætlaði ekki að sitja uppi sem sökudólgur í málinu. 

 Nú sló þögn á viðmælandann sem pakkaði í vörn. emoticon

 Það var ekkert minnst á svona spurningar í blogginu, svaraði hann svo dræmt.

 Ég var ekkert að segja honum það að ég þekkti til málanna og svarið sem hann hefði fengið væri það að foreldrarnir væru nú  ekki mikið tamdir en "virkuðu ágætlega " emoticon .

 Þetta var reyndar ágætt dæmi um kaupanda sem þekkti og gerði kröfu um góða hunda  og seljendur sem sættu sig við " öðruvísi " vinnudýr. 

Já , ræktunin er alltaf lotterí og þegar ræktunamarkmiðin eru kannski óljós og kaupandinn er síðan ekki alveg viss um hvað hann er að leita eftir, ja þá emoticon .

05.05.2015 21:04

300 desibil - hvísl , nú eða ofbeldi .

  Konan var með alveg sérlega þægilega símarödd og kom vel fyrir.

 En það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvað hún vildi. 

  Hún byrjaði á að segjast vera nýbúin að horfa á tamningarmyndband frá mér.

 Þar hefði ég verið með hund eftir tveggja vikna tamningu. 

 Ég spurði einskis en velti fyrir mér hvar hún hefði grafið það upp, því ég hefði trúlega ekki sett inn slíkt band í ár eða eitthvað. 

 Hún spurði svo hvort ég væri alltaf svona lágraddaður í tamningunum ? 

 Nei , ég færi alveg uppí 300 desibil eða álíka ef á þyrfti að halda, en sleppti því að taka það upp svaraði ég glaðhlakkalega.

  Bætti svo við að hundarnir væru ákaflega misjafnir og ég reyndi að finna útúr því hvað virkaði á hvern. 

Þarftu þá að taka í suma eða refsa þeim var næsta spurning ?

  Ég þverneitaði því, stundum þyrfti að nota ákveðnar leiðréttingar en algjör undantekning ef þyrfti að taka í hund.

  Bætti svo við að hvað sem um ræktunina mætti segja, væru hundarnir upp til hópa orðnir mun hlýðnari og þjálli en fyrir nokkrum árum. 

 Konan sagði mér þá að hún ætti ársgamlan hvolp sem hún hefði trú á að gæti orðið eitthvað. Henni hefði verið bent á að fara með hann til manns sem væri góður í tamningum til að fá leiðbeiningar með uppeldið.

 Sér hefði hinsvegar ekkert litist á  þegar til kom.

 Hann sparkaði bara í hundinn sinn þegar hann var eitthvað að sniglast í kringum okkur , sagði hún andaktug, og þegar ég spurði hvernig ætti að venja hvolpinn af því að liggja í taumnum sagði hann mér að rykkja bara í hann.

  Mér leist ekkert á þetta umræðuefni og spurði konuna hvort hvolpurinn væri kominn með áhuga á kindum ?

 Hún lét ekki slá sig útaf laginu, hélt að áhuginn væri kominn og spurði mig síðan hvort ég notaði þessa aðferð til að laga teyminguna. 

Neei, hún virkaði ekki hjá mér, en það væru til nokkrar aðrar sem virkuðu ágætlega , mistímafrekar samt. 

 Þá spurði hún mig að því hvort menn væru yfirleitt hættir að taka í hunda eða leiðrétta þá harkalega.

  Ég var fljótur til svars, enda vissi ég ekkert um það. Það væru menn að temja hunda hringinn í kringum landið, ég þekkti trúlega fæsta þeirra. 

 Hver hefði sína takta og tiktúrur  við þetta og eflaust allir að ná ágætum árangri.

 Ég gæfi mér það hinsvegar að eftir því sem þekking manna á viðfangsefninu ykist breyttust aðferðirnar. 

 Það ætti jafnt við um kennslu á mannfólkinu og hundunum, að pirringur, hávaði og harka væru ekki fljótlegustu aðferðirnar til að koma kennslunni áfram.

  Nú var ég kominn í hálfgerðan fyrirlestrarham en farinn að skynja það að konan var ekki að leita eftir leiðbeiningum við tamninguna. 

 Til að skipta um gír spurði ég því um ættina á hvolpinum . 

Það ,stóð ekki á því og hún var rakin 3 ættliði aftur. Þarna væru allavega tvö góð nöfn á bakvið sagði ég og bætti svo við að stundum dygðu fínu nöfnin lítið, þegar afkomandinn væri kominn í vinnuna.

  Þetta gæti samt verið áhugavert eintak hjá henni.

 Í framhaldinu fjaraði svo samtalið út.

 En ég fékk engan botn í erindið og ekkert minnst á tamningu. emoticon

Með eða án ofbeldis eða hávaða.emoticon

02.05.2015 08:08

Vorið góða " grænt og hlýtt."

 Vorið góða grænt og hlýtt kemur nú ekki í neinum fluggír þetta árið. 

Þessi frosta og illviðrakafli setur strik í reikninginn með gróðurfarið en hér  á Nesinu góða er það þó allavega stór plús að fá frosna en auða jörð til að koma mykjunni á túnin. Hefði að vísu þurft að vera svona 10 dögum fyrr en ekkert er fullkomið í henni veröld.

Að sama skapi er akuryrkjan í uppnámi, komið fram í maí og ekkert hægt að gera í flögunum vegna klaka serm er að myndast akkúrat þessa dagana. 

 Nú er bara að vona að hlýni um leið og mykjan er komin út. Sauðburðurinn er að komast á skrið , búið að græja tamningaraðstöðuna í sauðburðaraðstöðu. Tamningartrippiin eru að tínast heim til sín. Þau fá tímabært frí sem verður mislangt hjá þeim.  Áburðurinn sem er nú einn af þessum árvissu vorboðum , samt í dýrari kantinum mætti fyrst í gær. einhverntímann hefði maður verið stressaður með þennan seinagang á afgreiðslunni en einhverra hluta vegna var ekkert stress í gangi í þetta sinn. emoticon


     styttist vonandi  í svona mynda´tökur.

Næsta vika verður svo vonandi lögð undir akuryrkjuna ef guð lofar og ekki rignir . Og nú er búið að geirnegla fyrstu hestaferð sumarsins, - Miðfjörður - Söðulsholt um miðjan júní.

Já, já þetta er bara allt að koma held ég .emoticon
  • 1
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151479
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 14:09:13
clockhere