06.03.2013 14:54

Margrét í Dalsmynni níræð.



Margrét í Dalsmynni níræð

 

Margrét Guðjónsdóttir í Dalsmynni fagnaði nú á sunnudaginn 3. mars 2013 níutíu ára afmæli sínu ásamt afkomendum sínum. Margrét er landsþekktur hagyrðingur og hefur jafnan vakið athygli hvar sem hún kemur fyrir hispurlausa framkomu. Ævisaga hennar kom út fyrir jólin árið 2010, og var skráð af Önnu Kristine Magnúsdóttir.

Margrét Guðjónsdóttir fæddist á Ytri-Skógum í Kolbeinsstaðahreppi þann 3. mars 1923 og var fyrsta barn Guðjóns Jónssonar og Ágústu Júlíusdóttur. Þau bjuggu lengst af á Kvíslhöfða á Mýrum og þar bjó Margrét fram til 16 ára aldurs. Yngri systkini hennar voru Helga, Haraldur, Svafa og Sigurður, en hún átti einnig eldri hálfsystur, Kristínu.

Sextán ára gömul réði Margrét sig sem vinnukonu á Kolviðarnesi í Eyjahrepp. Bóndinn, Guðmundur Guðmundsson, var tuttugu árum eldri en Margrét og bjó einn með móðir sinni, Margréti Hannesdóttir, sem var að nálgast áttrætt. "Láttu ekki nokkurn lifandi mann heyra það að þú sért bara sextán ára," var eitt af því fyrsta sem húsmóðirin sagði við nýju vinnukonuna - hún þekkti hana úr draumi og þóttist vita að þarna væri framtíðareiginkonan hans Munda hennar loksins komin. Það gekk eftir - þetta var um áramótin 1940, og þau trúlofuðust á
sumardaginn fyrsta.




Um það leyti sem Margrét og Guðmundur trúlofuðust fæddist dóttir Guðmundar úr fyrra sambandi, Eygló. Móðir hennar treysti sér ekki til að sjá fyrir henni og hugðist Guðmundur biðja systir sína að fóstra barnið. En Margrét, þá nýorðin 17 ára, tók það ekki mál, heldur vildi hún ala dótturina upp eins og sitt eigið barn. Hún fór svo ein til Reykjavíkur og sótti Eygló, og þá var þessi mynd tekin.

 

Fyrstu átta árin bjuggu þau í Kolviðarnesi, en fluttu þá á Dalsmynni í Eyjahrepp, og voru þar allan sinn hjúskap.
Margrét og Guðmundur eignuðust saman tíu börn, og átti Guðmundur eina dóttir fyrir sem ólst upp á heimilinu. Börnin fæddust öll í heimahúsi, og Guðmundur hélt í höndina á Margréti meðan hún fæddi. Þau hjónin tóku einnig fjölda barna "í sveit" í gegnum tíðina og voru stundum um og yfir tuttugu manns til heimilis hjá þeim á sumrin.

Þau hjónin þóttu einstaklega barngott fólk. Guðmundur fór með börnin á hestbak og kvað fyrir þau vísur, en Margrét þuldi vísur og sagði sögur. Hún fylgdi einfaldri aðferð í sínu uppeldi: 
  Já þýddi já, nei þýddi nei, hún lofaði aldrei og hótaði aldrei og lagði aldrei hendur á börn. Og þau hjónin komu eins fram við öll börn hvort sem þau voru þeirra eigin eða annarra, en Margrét segist alltaf hafa talað við börn með sama hætti og fullorðið fólk.

Og þegar börnin urðu eldri byrjuðu barnabörnin einnig að koma í sveitina í Dalsmynni: Afkomendur Guðmundar og Margrétar eru nú orðnir 99 talsins, og nutu flestir þeirrar gæfu að staldra við Dalsmynni.


 

Börn Margrétar röðuðu sér upp eftir aldri í afmælisveislunni nú á sunnudaginn. Elsta barnið (Eygló) situr henni á hægri hönd og það næstyngsta (Sigrún) á vinstri. Í efri röð frá vinstri eru Reynir, Ágúst, Ástdís, Svandís, Margrét, Svanur, Kristján, og Tryggvi. Á myndina vantar Skarphéðinn Pálma, sem hefur síðustu 25 ár verið búsettur á Nýja-Sjálandi


   Garðyrkja og skógrækt voru líf og yndi Margrétar. Hennar bestu stundir voru oftar en ekki í garðinum í Dalsmynni. Þar dvaldi hún marga sumarnóttina meðan aðrir á heimilinu sváfu, enda virtist hún lítið þurfa að sofa. Hún tók virkan þátt í starfi Skógræktarfélags Heiðsynninga frá stofnun þess og varð formaður þess árið 1990. Henni tókst að útvega félaginu ræktarsvæði í landi Hrossholts, nærri Laugargerðisskóla, og var því svæði síðar gefið nafnið Margrétarlundur. Ennfremur hafði hún alltaf mikla ánægju af því að sækja aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, en hún varð í fyllingu tímans eins konar hirðskáld félagsins og fór þar iðulega með gamanmál. 



 Margrét og yngsta barnabarnabarnið, sem er 99. afkomandinn.  Svandís Svava fæddist 22. nóvember 2012. Foreldrar hennar eru Iðunn Silja Svansdóttir og Halldór Sigurkarlsson ábúendur í Hrossholti.

Margrét er ekki hvað síst þekkt fyrir vísur sínar, en hún kallaði sig þó alltaf hagyrðing en vildi alls ekki kalla sig skáld. Líklega er þetta hennar þekktasta vísa:

Ef þú reykir eins og hippi
ertu fljótt með tóman haus,

reikar um með tjörutyppi

titrandi og getulaus.

Sjálf var Margrét alla tíð bindindismanneskja á bæði vín og tóbak. Sagðist ekki þurfa að drekka, enda væri hún fædd full.

Árið 1986 fékk Margrét leghálskrabbamein og var vart hugað líf að loknum uppskurði, en ekki tókst að fjarlægja öll meinin. Læknarnir töluðu um þrjá mánuði í mesta lagi. Margrét braggaðist þó furðu fljótt, en taldi sig reyndar verða vara við fleiri lækna á næturnar en menn vildu kannast við að væru á launaskrá hjá Landsspítalanum. Ári síðar voru meinin farin og hefur þeirra ekki orðið vart síðan.

 

Guðmundur í Dalsmynni lést í janúar 1993, þá rúmlega níræður, og höfðu þau þá verið gift í meira en fimmtíu ár. Hann hélt góðri heilsu fram á síðasta dag, sinnti bústörfum, gekk og fór í útreiðartúra. Þeirra hjónaband hafði verið ákaflega farsælt.



Margrét og Guðmundur nýtrúlofuð vorið 1940.

 

Eftir það bjó Margrét ein á efri bænum í Dalsmynni, en á neðri bænum bjó Svanur sonur þeirra með sinni fjölskyldu. Þar bjó hún jafnlengi og hún treysti sér til, en síðustu árin hefur hún verið á Dvalarheimilinu í Borgarnesi og kunnað vel við sig þar.

 Tekið saman af Guðmundi Rúnari Svanssyni.

02.03.2013 22:44

Árshátíð Laugargerðisskóla,söngleikurinn Grease og heilsufæðið..

  Árshátíð skólans var haldin með glæsibrag í dag þar sem nemendur settu upp söngleikinn Grease með miklum tilþrifum. Í framhaldinu sleppti maður sér svo í veislunni sem krakkarnir áttu veg og vanda af ,( hugsanlega með aðkomu mæðranna). Kannski ekki beinlínis heilsufæði en rosalega gott. 
 Þarna mættu um hundrað manns sem er líka rosalega gott.



 Svona leit þetta út í upphafi árshátíðar en allt var orðið alhvítt af snjó um það er lauk.


Inga Dóra Minni-Borg, Guðný Eiðhúsum, Jóna María Mýrdal, Helga Lágafelli, Selma Kaldárbakka og Vildís Hítarnesi, eða Bleiku gellurnar.



Töffararnir: Ragnar Jörfa, Hallbjörn Krossholti, Ársæll Y-Görðum, Þórður Laugargerði og Tumi Mýrdal.



Hafdís M-Borg, Inga Dóra, Guðný, Ragnar, Ársæll, Tumi, Vildís, Steinunn Miðhrauni, Hallbjörn, Þórður, Árbjartur Y-Görðum, Bjarki Hraunholtum, Ayush Miðhrauni. 



                                     Sandra og Danni Sækó ræða málin.

 



Guðný og Ragnar/Sandra og Danni syngja meðan hin tjútta.




 Danskennsla síðustu ára greinilega að skila sér.



Skvísurnar í 6 ára bekk, þær Ingibjörg Hofsstöðum og Kolbrún Katla Hrossholti,  sungu að sjálfsögðu með í "Allir í fjörið" 

Svo verður bara lifað á heilsufæðinu fram að næstu árshátíð.

28.02.2013 22:24

Grunnstigið og öldungadeildin.

 Það er dálítið magnað að vera í hlutastarfi við að temja fjárhunda og greinilega löngu tímabært.

 Vægast sagt fjölbreytilegt og skemmtilegt eins og nemendahópurinn er núna.
Reyndar er ég þeirrar skoðunar og ligg ekkert á henni, að léleg eða skemmd eintök eigi ekki erindi til mín eða annarra sem gefa sig út í tamningu.
Ljótt að segja það, en ákveðið hlutfall af BC' unum geta bara ekki orðið góðir fjárhundar.



 Þessi grind er algjör snilld í þessari vinnu. Mér líkar þó ekki að vera með kindur inni í henni, en að vinna í kringum hana með byrjendurnar er bara algjör bylting miðað við fyrri vinnubrögð.

 Inniaðstaðan gjörbreytti algjörlega þessari vinnu og nú fer ég ekki út með hundana fyrr en þeir eru með stoppskipunina á hreinu og farnir að átta sig á hægri og vinstri skipunum

 Og þetta kemur ótrúlega hratt í þessari aðstöðu.


 Þó myndin beri það ekki með sér er Spaði eins og tifandi tímasprengja vegna gríðarlegs vinnuáhuga.
  En hlýðnigenin hafa nú oftast yfirhöndina og samkomulagið er hávaðalaust hjá okkur.
 

 Ég er með 3 Tinnaafkvæmi í tamningu og það fjórða í fæðingarorlofi. Hér er Spaði í lága gírnum og farinn að læra rekstur eftir tæplega tveggja vikna tamningu. Feikilega áhugasamur og eiginlega frábær í alla staði.- í alvörunni.

 Systir hans hún Díva er fyrst að fá áhugann núna og hefur lægsta spágildið af þeim systkinum.



 Smali  Tinnason frá Miðhrauni er dálítið öðruvísi karakter yfirvegaðri, enn ákveðnari og líkur föðurnum með að þurfa að heyra skipunina 2 - 3 áður en hann hlýðir og tekur alltaf 2.- 3 skref áður en hann hlýðir stoppskipuninn.



 Og Korka alsystir Smala sinnir hvolpunum sínum þessa dagana en hennar tími kemur.

Það verður þeim systkinum sameiginlegt að litlar líkur eru á að  kindur sem þau ná að staðsetja og komast í færi við í framtíðinni, verði skildar eftir.



Þetta himpingimpi hér er bara 8 mán. og  komin með viku tamningu. Hún var talsvert baráttuglöð og vígreif til að byrja með en áttaði sig fljótt á um hvað málið snerist, og hefur fengið að spreyta sig úti tvo síðustu dagana. Mikill áhugi og hlýðnigenin ágætlega virk eftir að búið var að ræsa þau.
 Þetta er svo fyrsta, en ekki síðasta  Taff´s afkvæmið sem ég mun föndra við.



 Þrátt fyrir biðlista á grunnstiginu stóðst ég ekki freistinguna og hér er fyrsti nemandinn í öldungadeildinni.

Djöf, vildi ég vera að byrja með hana núna ef hún væri svona þremur árum yngri.


Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579394
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:27:07
clockhere