19.11.2008 20:25

Framboð og eftirspurn.


   Nú er heldur betur að lifna yfir pólitíkinni. Það sýnist  vera orðið morgunljóst, hvort sem mönnum líkar vel eða illa við hann Davíð, að hann verður að fara að grúska í einhverju öðru en peningunum okkar. Það gengur ekki á þessum vandræðatímum, að í hvert skipti sem hann mætir í fjölmenni eða sjónvarp, sé hann kastandi handsprengjum í allar áttir. 

  Það eina sem virðist tefja fyrir komandi kosningum er skortur á samstarfsflokki fyrir hana Sollu að þeim loknum. Varla bjargar anti-Evrópuflokkurinn sem spáð var í fréttunum áðan, því .

  Og ekki þarf mikinn spámann til að sjá, að þeir sem hlóðu bálkestina og réttu síðan vinum og vandamönnum eldspíturnar, eftir að hafa slökkt á reykskynjara og slökkvikerfinu, eru í vondum málum. Þeir munu koma  illa sárir og ákaflega móðir útúr þeim kosningum.


                     Sparnaðurinn logaði vel í höndum brennumanna.

 
Samt verður trúlega kosið í vetur hvað sem svo tekur við. Og ef/þegar til þess kemur í framhaldinu að farið verði að díla við EB, er ekki líklegt að fast verði staðið í ístöðum þegar kemur að samingum vegna ísl. landbúnaðar.

    
Nú furða menn sig á því hvernig nokkur krosseignafélög hafa komist í þús. milljarða skuldsetningu, en hvað átti að gera við sparifé evrópubúanna, þegar að streymdi inn í landið á annan milljarður daglega þegar best lét.

   Það var þó gott hjá Davíð þegar hann sagði að nú væri mikil eftirspurn eftir sökudólgum vegna bankahrunsins.

   En framboðið væri sáralítið.emoticon

17.11.2008 20:27

Sveitateiti 2008.


   Sveitateitið er nokkurskonar uppskeruhátíð bænda á félagssvæði Búnaðarsambands vesturlands.

  Þetta hefur aldrei verið mjög fjölmenn hátíð, um 120 - 140 manns en þarna mætir að sjálfsögðu langskemmtilegasta fólkið.
 Búnaðarfélög svæðisins skiptast á um að halda utanum skemmtunina og í þetta sinn var það B.f. Eyja- og Miklaholtshrepps sem sá um teitið.

   Hundar Í Óskilum sáu um stjórnunina og skemmtiatriðin. Mér fannst þeir kannski ekki alveg nógu ferskir og trúlega hefði þeir ekki dugað vel í keppninni hjá mér fyrr um daginn.

  Það var svo Jóhannes á Gunnarstöðum sem var ræðumaður kvöldsins. Hann sleppti ræðunni og var bara skemmtilegur. Snjallar lausavísur með skemmtilegum aðdraganda svínvirka í svona hóp.



  Og lambið hjá hótelhöldurunum í Borgarnesi var alveg rosalega gott.



 Vestfirðingarnir gerðu sig afspyrnu virðulega á svipinn, eftir að Dóri hafði fullvissað þá um að hann væri í vinnu hjá Skessuhorni. Innrimúlabóndinn sagði bloggara bæjarins, sitja heima að búi sínu. Vonandi er hann að safna kröftum til áframhaldandi bloggskrifa sem hann hefur sinnt hálfletilega undanfarið.

  Vinir mínir á Austurbakkanum létu nægja að senda Kaldárbakkabændur sem fulltrúa sína á teitið.
Þeir stóðu að sjálfsögðu vel undir því eins og öðru sem þau taka sér fyrir hendur.
 Rétt er að taka fram að þegar ég minnist á vini mína á austurbakkanum,( sem ég geri alltof sjaldan) þá á ég við upprunalega austurbakkann. Það er áður en þeir lögðu undir sig Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit með nokkrum blýantsstrikum.



  Snæfellsbæingar mættu vígreifir til leiks enda eiga þeir mun meira í formanni sambandsins en við hin. Þeir eru verkhyggnir mjög, og settust að sjálfsögðu við borðið næst barnum. Þar sem eiginmaður formannsins sést ekki við hlið konu sinnar hér, verður að ætla að hann hafi skotist á barinn enda öll glös tóm.


  En það áttu ekki allir svona ánægjulegt laugardagskvöld og einhverjir framsóknarmenn, (aðrir en þeir sem hér voru staddir) voru vondir við Guðna, svo nú er hann hættur og farinn.emoticon

  Blessuð sé minning hans í pólitíkinni.emoticon

16.11.2008 12:31

Fjárhundakeppnin.


  Fjárhundakeppnirnar eru nokkurskonar próf hjá hundunum sem eru að lenda í allskonar uppákomum í brautinni. Taminn góður hundur á samt að geta lokið rennslinu með 60 stig plús, sama í hverju hann lendir.


  Hér erum við Vaskur búnir að skipta hópnum og eigum eftir að koma honum inn í réttina.



  Og hér sjáum við fyrir endann á því.

Við lukum rennslinu með 82 stigum eða 18 refsistigum. Sterkasta hliðin hjá Vask er úthlaupið og að koma með. Þar náði hann 48 stigum af 50 mögulegum.

 Í unghundakeppninni verður hinsvegar reynsluleysið oft til vandræða þó dýrið sé orðið töluvert tamið.  Nú var Snilld að taka þátt í fyrstu keppninni sinni. Henni gekk vel til að byrja með en svo fór stressið með hana, enda áhuginn alveg gríðarlegur.



   Hún náði 58 stigum af 80 mögulegum og eins og hestamennirnir segja stundum , held ég að hún eigi kannski aðeins inni fyrir framtíðina.

  Það eru skiptar skoðanir um það hjá okkur sem erum að temja hundana okkar hversu fljótt á að setja pressu á unghundana með að vinna hægar og gera erfiðari verkefnin. Ég geymi það til vetrarins að gíra Snilld niður og slípa hana til.






 Fyrir þá sem vilja sjá útá hvað þetta gengur, bendi ég á myndaalbúmið með Vask þar sem myndirnar eru textaðar.

 Síðan eru á fjórða hundrað myndir komnar inn á 123.is/smali.

 
Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere