19.01.2010 12:32

Landbúnaðarframleiðslan og tvennskonar styrkjakerfi.

 Það er áhugavert að velta fyrir sér mismuninum á niðurgreiðslunni eða framleiðslustyrkjunum í sauðfjárframleiðslunni annarsvegar og mjólkinni hinsvegar.

 Ekki er síður umhugsunarefni að velta fyrir sér muninum á afurðarsölufyrirtækjum þessarra búgreina.

 Í sauðfjárframleiðslunni er óheft framleiðsla óháð styrkjagreiðslum og bústærðir einstakra bænda þróast eftir aðstöðu þeirra og framleiðslumöguleikum óháð styrkjagreiðslum.

 Þó afkoman án styrkjanna sé skelfilega döpur eiga þeir þó þetta val og það getur reyndar verið ágætlega hagkvæmt að auka framleiðsluna utan við styrkjakerfið við ákveðnar aðstæður.

Ég sé fyrir mér að þróun styrkja í sauðfjárframleiðslunni þróist í styrk á kjötframleiðslu upp að ákveðnu marki.

Þetta verði búsetu eða byggðastyrkur hugsanlega að einhverju leiti bundinn við ákveðin héruð umfram önnur.

 Síðan býr sauðfjárframleiðslan við nokkur afurðarsölufyrirtæki.

Það verður til þess að smá samkeppni er um að standa sig í verðum og afsetningu þó reksturinn sé þungur.

Það er kristaltært í mínum huga að til lengri tíma litið er það mun árangursríkara, enda voru sum  þessara  fyrirtækja snögg að átta sig á þeim möguleikum sem fólust í falli krónunnar og eru í miklum og ánægjulegum útrásarhug sem er að skila sér í hagstæðum sölum á allskonar afurðum og aukaafurðum.

Og minnkandi sala innanlands skiptir ekki máli því útflutningurinn er að skila ásættanlegu verði og það finnast markaðir fyrir þessari auknu útflutningsþörf.

 Í mjólkinni er framleiðslan algjörlega njörfuð við styrkjakerfið og styrkjakerfið við framleiðsluna.

Frumkvöðullinn sem setur upp ísgerð í fjósinu eða framleiðir þar osta verður að gera það í gegnum KERFIÐ með mjólk sem er framleiðsluréttur fyrir.

 Þetta kerfi gengur út á það að mjólkurframleiðslan á skerinu sé nokkurn veginn nákvæmlega það sem hægt er með góðu móti að afsetja hér innanlands.

  Allar breytingar á framleiðslu milli framleiðenda fara í gegnum kaup og sölu á styrkjunum eða framleiðsluréttinum og er eftirspurnin alltaf verulega meiri en framboðið.

Það eru gríðarlegar upphæðir sem hafa horfið útúr landbúnaðinum gegnum þetta kerfi.

Þetta þýðir það á mannamáli að seljandi slíks réttar fer oft útúr búgreininni með  fyrirframgreiddan 10 ára framleiðslustyrk.

Kaupandi réttarins er hinsvegar næstu tíu árin a.m.k. að berjast við  við að framleiða mjólk þar sem bankinn hirðir  verulega hluta af tekjum hans af framleiðslunni upp í lánið fyrir kvótakaupunum.

Þeir sem tóku lán á allra síðustu árum til að fjárfesta í kvóta munu reyndar taka drjúgum lengri tíma í að gera upp við bankann sinn og skiptir þá litlu hvort lánið hafi verið innlent eða erlent.

 Rétt eins og í sauðfjárframleiðslunni er ljóst að margir mjólkurframleiðendur geta með hagkvæmum hætti aukið framleiðsluna þó slík umframframleiðsla yrði styrkjalaus.

 Framleiðsla umfram innanlandsneyslu yrði að flytjast úr landi og það mætti vel hugsa sér lagasetningu sem tryggði að slíkur útflutningur yrði jafnað niður á framleiðendur .

 Nokkur hluti félaga minna í framleiðslunni myndu trúlega láta dálítið illa meðan slík breyting færi í gegn en þeir myndu jafna sig og huggast áður en lyki.

En framleiðslurétturinn myndi komast á vitrænt verðplan.

Ég ætla svo ekkert að ræða í bili hvernig MS stendur sig í útrásinni.emoticon

17.01.2010 09:20

Fjölnotabygging rís að Snorrastöðum.

 Nú um stundir eru Snorrastaðir best þekktir fyrir öfluga ferðaþjónustu.

 Þarna er þó líka rekinn hefðbundinn búrekstur og sl. ár var byggt þarna af miklum myndarskap yfir sauðfé, kálfa og geldneyti.

 Svo er blessaðri kreppunni fyrir að þakka að nú eru engin vandamál  að fá iðnaðarmenn til að mæta í sveitina.

 Það var BM Vallá sem bauð best í alútboði í framkvæmdina,  byrjuðu í maímánuði og í byrjun sept. gengu þeir útúr fullbyggðu húsinu og lokuðu á eftir sér.

 Það var síðan bændanna að koma fyrir gólfefnum og innréttingum.

 Þetta er 550 ferm. bygging og kostaði fermeterinn um 82.000 kr í fullkláruðu húsinu.
 Inni í þeim kostnaði  er haughús undir öllu húsinu 2.70 m á dýpt.
Reiknað er með að nýtt fjós tengist þessu haughúsrými í framtíðinni.


Sauðfjárhlutinn, en þarna var ákveðið að halda sig við hefðbundna gjafaðferð.



 Naugripaaðstaðan en þar eru stíur beggja vegna vélgengs fóðurgangs.



Þessum glæsilegu velræktuðu nautkálfum  sem voru að flytja lögheimilið, leist illa á steyptu rimlana vanir mjúkum og hlýjum hálminum í Dalsmynni.
Ég held mér hafi tekist að sannfæra bóndann um að setja hálm undir þá þarna, svo kannski eru þeir búnir að taka gleði sína á ný.


Það voru notaðir hefðbundnir svínastútar í brynninguna en þessi nýja gerð sem hérna sést er talsvert frábrugðin þeim og var alveg að svínvirka í þetta. Eitthvað sem hún Margrét í Kaupfélaginu er að koma með í sölu.


 Það er hægt að reka féð hringinn í kringum krærnar. Rekstrarganguinn hinu megin er þrengri svo enginn viðsnúningur er inni í myndinni þar.


Við fóðrun kindanna er notaður afrúllari og gjafavagn.


Loftræstiglugginn er frá Vélaval. Hann er handvirkur en stendur undantekningarlítið fullopinn enda sama veðurblíðan á Snorrastöðum og annarsstaðar á sunnanverðu Nesinu. ( Snorrastaðir eru ekki á Mýrunum.)




Mér og þessum höfðingja leist ekkert alltof vel hvorum á annan. Það var þó bara hann sem rak útúr sér tunguna í lítilsvirðingarskyni.

Til hamingju með þetta Snorrastaðarbændur.emoticon

16.01.2010 09:25

Bréf í sveitina. Fjárfesting í boði.

Frá dóttur til foreldra.


Góðan daginn.

Hér ríkti góðærið, og útrásarvíkingar fjárfestu í fyrirtækjum, verslunum og stofnunum  í framandi löndum auk þess sem þeir lögðu peninga sína í kaup  á bújörðum. Nú má deila um hvort þessar fjárfestingar og lántökur vegna þeirra hafi í raun staðið undir sínu.

En nú býð ég ykkur fjárfestingu sem ekki er hægt að neita, með því að festa kaup á vörunni hér fyrir neðan á litlar 11.590 krónur gleðjið þið litla sál. Litla sál sem mun eyða öllum sínum pening (sem hún aflaði sjálf) til utanlandsferða. Vegna þess sjálfstæðis sem litla sálin sýnir er sjálfsagður hlutur að fjárfesta í þessum kostagrip og gleðja þessa sál sem þarf að híma við erfið skilyrði í órafjarlægð frá fjölskyldu sinni og heimili.

Fjárfesting í hamingju er fjárfesting til frambúðar.

Kkv.

Halla Sif Svansdóttir

http://www.topshop.com/webapp/wcs/stores/servlet/ProductDisplay?beginIndex=20&viewAllFlag=false&catalogId=19551&storeId=12556&categoryId=151405&parent_category_rn=42344&productId=1526448&langId=-1

Ef þessi fjárfesting hentar ykkur ekki einhverra hluta vegna, ber ég mikla virðingu fyrir því en bendi ykkur þá á þennan hér valmöguleika.

http://www.topshop.com/webapp/wcs/stores/servlet/ProductDisplay?beginIndex=60&viewAllFlag=false&catalogId=19551&storeId=12556&categoryId=175028&parent_category_rn=175012&productId=1485156&langId=-1



 Bréfritari ásamt Þrym frá Dalsmynni að sýna spænska sporið.

Þar fyrir utan stundar hún nám í M H við afbragðs orðstír. Nema hvað?emoticon
Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579743
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:05:34
clockhere