06.07.2010 21:26

Terrí frá Hrossholti - og beina brautin.

  Fæst okkar eru svo heilög að hafa ekki einhverntímann villst af beinu brautinni.

Flest komumst við þó sem betur fer á hana aftur, þó ferðalagið geti stundum orðið skrykkjótt.

Þegar átti að sýna mér Terrí frá Hrossholti átti ég von á að sjá góða takta enda eðalræktun á bak við hana.

 En einhversstaðar á stuttri ævi hafði hún villst af leið hreinræktaðra Border Colliea og í stað þess að komast fyrir kindurnar og halda þeim saman, rak hún þær burt.

Hún gerði það reyndar afbragðsvel en þar sem hún kunni fáar skipanir rak hún þær bara þangað sem þær vildu fara.

 Ég þekki reyndar skógræktendur sem myndu borga vel fyrir svona hund, sérstaklega ef hann myndu nú reka rollurnar í 1 - 2 daga áður en hann sneri heim aftur.

 Eftir 5 mín. áhorf kvað ég uppúr með það að Terrí skyldi verða eftir í sveitinni, þar sem gerð yrði tilraun til að snúa henni af villu síns vegar.

 Þar sem ég er steinhættur að taka í tamningu yrði þetta undantekningin sem sannaði regluna.


Hér er nemandinn hvattur framfyrir hópinn og séð til þess að hann komist alla leið. Hér er það þriðja kennslustundin og allt að koma.

Eftir fyrstu 15 mín. hafði ég hlaupið meira en samanlagt  síðustu 10 - 15 árin.

Ágætt að vita að ég kynni enn að hlaupa, en vont að vita hvaða afleiðingar það hafði.



 Komin framfyrir og stoppuð af, en stoppskipunina kunni hún vel.



 Og svo kemur hún með hópinn á eftir smalanum. Vaskur kúrir sig niður í baksýn tilbúinn að grípa í taumana við minnsta klúður.



 Þetta gengur vel og pottþétt að genin frá okkur Varsa, sem hún hefur frá föðurnum eru farin að virka.


 Ánægð en þreytt eftir þriðja tímann. Það er mikils virði þegar hægt er að rétta af hlutina, þannig að hundinum finnst þetta rosalega gaman.

 Og það er öruggast fyrir Villa á Hríshól  að hafa í farteskinu Whiskýflösku framleidda á síðustu öld ef hann ætlar að ná tíkinni af mér aftur.emoticon


 

04.07.2010 07:55

Sveitamarkaðurinn á Breiðabliki.

 Það er ljóst að þessi árlegi sveitamarkaður á Breiðabliki er kominn til að vera.

Það er að sjálfsögðu þungaviktarliðið í sveitinni, húsfreyjurnar sem kýldu á þetta í upphafi og keyra þetta áfram.

Fjölbreytnin og vörugæðin aukast ár frá ári og salan líka.


Ferðafólk og frumbyggjar hittast á markaðnum.


Vildís og Valgý seldu múffurnar grimmt.



Inga Dóra og Hafdís Lóa létu ekki sitt eftir liggja í smákökusölunni.



Svava fyrrverandi Langaholtsmatmóðir.er greinilega mjög ánægð með þessa fjárfestingu sem er með verðmerkingu og bæjarnúmeri framleiðandans " 24 SH1 "   en þetta flotta listaverk er eftir Steinunni frá Tröð.

Allar vörurnar eru merktar eftir númerakerfi lögbýlanna sem eiga sitt bæjar og sveitarfélagsnúmer
sem er td. lögskipað að merkja sauðféð með.



Þetta er nú ekki rétti árstíminn fyrir prjónavarninginn en hann seldist samt vel, sérstaklega á yngstu kynslóðirnar.



Garðyrkjustöðin á Lágafelli seldi kryddplönturnar og blómin grimmt.



Og ein af uppáhaldsfrænkunum mínum lét sig ekki vanta. Guðbjartur litli Ísak metur pönnsubaksturinn og virðir mannlífið fyrir sér..

29.06.2010 19:31

Að sjá ljósið, drekka kaffi og heyja með látum.


Sunnudagsmorguninn var erfiður hjá okkur feðgunum.

 Nei, nei, það var ekkert svoleiðis??

 Það var veðurspáin sem var dálítið óljós fyrir næstu dagana. Góður þurrkur á sunnudeginum en svo voru spárnar misvísandi, allar sólarlausar  en mismunandi mörg dropaský og á mismunandi dögum.

 Við drukkum kaffi og skoðuðum spárnar og drukkum meira kaffi.

Það er talsverð áhætta fólgin í því að slá 20 - 30 ha. og ná heyinu ekki ásættanlega þurru í plastið.

 Kl. var orðin hálf ellefu þegar við slógum í borðið og ákváðum að slá.

Eins og öllum sem sjá ljósið létti okkur ákaflega, yfirgáfum hálfa kaffibollana og 15 mín síðar var slátturinn hafinn á fullu.



 Sláttugræjur búsins, aðra sláttuvélina eigum við með hestamiðstöðinni.Til gamans má geta þess að litla græjan er að afkasta nákvæmlega jafnmiklu og hin með meira en helmingi færri hestöfl og minni  olíueyðslu en "aðeins " minni þægindum. Sú stærri er með knosaravél sem er notuð á það þurrkvandara.

 Klukkan fimm var slætti lokið,  kúatúnin í Hrútsholti slegin, ásamt nýræktum hestamiðstöðvarinnar eða um 23 ha.
Mokgras, en þarna er hluti túnanna með blönduðum gróðri sem farinn var að spretta úr sér.

 Eins og fyrri daginn reyndist veðrið talsvert öðrvísi en spárnar,en sem betur fer miklu betra.

Þurrkurinn á mánudeginum var enn betri en sunnudagsþurrkurinn og um kvöldið vorum við langt komnir að rúlla í Hrútsholti og þetta kláraðist síðan í dag. Þurrkstigið mjög fínt.

 Nú er eftir að slá fyrir hrossin og miðsvetrarheyið fyrir rollurnar en það verður að spretta hæfilega úr sér, svo sá búpeningur springi ekki úr ofáti.

 En tveggja daga fríið sem við, mín heittelskaða ætluðum að leggja af stað í um hádegisleyti á sunnudag er algjörlega óframið enn.

 En Árneshreppurinn fer nú ekki langt þó allt sé í heiminum hverfult.emoticon 
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere