19.04.2011 21:31

Bólusetning og bilanir.

 Féð var sprautað seinni sprautunni við lambablóðsótt,garnapest og bráðapest í dag.

Sumir sleppa þessum sprautum alveg, aðrir láta eina sprautu duga og enn aðrir sprauta tvisvar.

Ég hef prófað þetta allt og sprauta semsagt tvisvar.


 Þetta er fljótlegt, flatgryfjurollunum er rennt gegnum rekstrarganginn en hinar afgreiddar á hefðbundinn hátt. Svona klukkutími + í þessar 150 kindur.

 Fyrsta alvörubilunin i SAC mjaltabásnum frá upphafi varð svo í lok kvöldmjaltanna þegar mjólkur
dælan gaf sig. Í þessum skrifuðu orðum eru trúlega að mætast á miðri leið frá Selfossi, einn með skiptidælu og annar að sækja hana.


  Er þá vonandi lokið öllum óhöppum að sinni og í framhaldinu mun vorið hellast yfir (fátt sem bendir til þess.) Já það mætti alveg fara að þorna um hér um slóðir. ( Þó ekki með frostakafla.)

Það er greinilega algjör skandall að leyfa páskana svona seint. Þarf eitthvað að vinna í því.emoticon


 

17.04.2011 07:44

Fullt af slæmum fréttum.

Ég vitna stundum í Húnvetninginn vin minn sem sagðist vera steinhættur að lesa bloggið mitt.

 Það gengi allt svo vel hjá mér að hann yrði hundóánægður með búskapinn hjá sér.

Þó ég reyndi að sannfæra hann um að bloggið yrði að ganga út á jákvæðni og bjartsýni en ekki eitthvað helv.... eymdarvæl, keypti hann það greinilega ekki.

 Nú er allt fullt af vondum fréttum sagði ég við mína heittelskuðu, þegar ég dróst inn í morgunkaffið fyrir svona 20 mínútum.

 Ég lét hana síðan hafa dálítið fyrir að toga þær uppúr mér, því okkur þessum athyglissjúku( og kannski fleirum)  finnst alltaf slæmu fréttirnar mun áhugaverðari en þær góðu.

 Fyrir það fyrsta hafði hún Líf ( no 78 ) borið tveim kálfum sem hefði náttúrulega verið hið besta mál ef annar þeirra hefði ekki verið naut. Þar með verður ekki sett á kvíga undan henni þetta árið( Helv. focking fock).
 Hin tíðindin voru síðan mun verri, en hún 610 sem átti að bera tveim fallegum sæðislömbum eftir hálfan mánuð (nákvæmlega) hafði látið þeim í nótt. Þau höfðu greinilega drepist fyrir einhverjum dögum .


 Lambakóngarnir í fyrra komu líka á kolvitlausum tíma því þeir höfðu orðið til við frumstæðar en náttúrulegar aðstæður áður en fé var tekið á hús.

Gærdagurinn byrjaði líka alveg rosalega illa því þegar við feðgarnir mættum í fjósið alveg eldsprækir eins og vanalega í morgunsárið var eitthvað óhugnanlegt aukahljóði í mjólkurdælunni sem skilar mjólkinni í tankinn frá mjaltabásnum.

              Þær sem voru fyrstar í básinn urðu að dúsa þar í rúman klukkutíma.

Það var því byrjað á að rífa hana.  Þá kom í ljós að splitti gegnum driföxulinn hafði gefið sig . Það var fúskað einhverju drasli í það en dælan fór síðan vitlaust saman og sundur og saman o.sv.frv. sem þýddi það að morgunverkin stóðu yfir tveim tímum lengur en vanalega.

 Það hafði síðan þær afleiðingar að ég sem er náttúrulega orðinn gamall og vanafastur var kominn með alveg gríðarleg kaffifráhvarfseinkenni þegar ég loksins komst í kaffivélina.

 Og nú sef ég örugglega ekkert í nótt vegna kvíðafullrar skelfingar fyrir því sem mun hugsanlega mæta mér á næsta degi.emoticon

13.04.2011 22:30

Breyttar línur í tækjakaupunum.


 Það var mikil gróska í vélainnflutningnum á veislutímanum og innflutningsfyrirtækin döfnuðu vel.

Hrunið í vélasölunni var mjög harkalegt og meira en sum þeirra þoldu.

Nú er allt að lifna og í stærsta búvélainnflutningsfyrirtæki landsins, Jötunn Vélum á Selfossi er mikið um fyrirspurnir og spámennsku með hækkandi sól.

Til marks um breyttar áherslur í dótakaupunum er verið að afgreiða þar  20 sáðvélar þessa dagana sem eiga að fá að snúast í vor.

                                                                                          Tvær fullkomnustu vélarnar 3 og 4 m. breiðar

 Þetta eru sáðvélar á verðbilinu 600.000 til 10.000.000 sem gefur til kynna mikla breidd í tækni og notagildi. Þrjár eru sérhæfðar í grassáningu en flestar eru fjölnota.

Það er kornræktin sem er á mikilli siglingu vegna gríðarlegra hækkana á erlenda fóðrinu  en stórir svínakjötsframleiðendur ætla sér m.a. stóra hluti í innlendri fóðurframleiðslu.

Allt um hasarinn hjá Jötun Vélum HÉR.

Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere