06.01.2009 20:28

Hvítþvottur og pólitík.

 
        Nú eru þeir, háttvirtur forseti vor ásamt honum Bjarna  Á. búnir að lýsa iðrun sinni yfir því að hafa ekki séð í gegnum plottin í tíma. Þeir eru samt sem áður algjörlega saklausir af þessum skelfingum öllum saman og enginn minnist á fjölmiðlalög né viðtölin við Bjarna þegar hann varði þetta allt vasklega, þegar erlenda umræðan var í gangi í fyrravetur.
  Og pólitíkusarnir sem létu allar viðvaranir sem vind um eyru þjóta eru enn saklausari, þó geislabaugarnir  þeirra séu nú úr sama efni og nýju fötin keisarans.
  Seðlabankastjórinn sem vissi þetta auðvita allt fyrir löngu, hefur marglýst því yfir, að enginn hafi tekið mark á honum þegar hann benti á  hvað væri að gerast, situr náttúrulega sem fastast líka, þó nú sem aldrei fyrr þurfi að hafa seðlabankastjóra sem tekið er mark á.
  Það sem er grafalvarlegt í málinu er að þrátt fyrir hvað hefur gerst er ekkert breytt. Sömu pólitíkusar, fjármálaeftirlit o.sv.frv.  Næstum sama fólkið í bönkunum. Topparnir hætta að vísu en næstráðendur eru færðir upp um eitt þrep í stjórnuninni. Nú er bara að afskrifa skuldir og koma þessu síðan í sömu hendur í rólegheitum. 

  Og svo er allt að gerast í pólitíkinni. Ég hef trúað því, að nú hljóti að koma fram framboð sem móðurleysingjar eins og ég, í pólitíkinni geti kosið. ( Ekki e.h. ruglframboð, heldur alvöru.)
 Eina sem gæti komið í veg fyrir það yrði veruleg uppstokkun í gömlu flokkunum.

  Og viti menn . Frammararnir ríða nú á vaðið og þó atburðarrásin sé að vísu nokkuð tilviljunarkennd er greinilega mikið fjör framundan. Framagosarnir hafa greinilega áttað sig á því, að takist að koma gamla flakinu á flot og á nokkra siglingu, gæti verið  til mikils að vinna. Það er nefnilega nokkuð ljóst að moldarkofaflokkurinn verður ekki talinn vænlegur til samstarfs að loknum kosningum, hvenær sem þær verða.


Og þegar að þessu dimmviðri lýkur, munu menn sjá að daginn er loksins tekinn að lengja.emoticon 


 

04.01.2009 20:04

Brennan mikla.


  Það er komin hefð á brennuna í Söðulsholti og þó Einar láti í það skína árlega að nú verði þetta síðasta brennan,  er fyrr en varir kominn mikill spýtuhaugur á holtið hjá honum.

 Gærkvöldið var tekið í brennuna sem er því sambland af áramóta og þrettándabrennu.
Þetta er í leiðinni hálfgert ættarmót hjá Einari og Ingu, því börnin og barnabörnin mæta gjarnan og slútta jólunum í sveitinni.



  Það hefði alveg mátt vera aðeins minni hreyfing á súrefninu en þetta var þó í lagi enda hlýtt í veðri.
Hrossasmalarnir hafa í nógu að snúast því bóndinn splæsti auðvitað í alvöru flugeldasýningu enda á þetta að sjálfsögðu að vera síðasta brennan.
 Hrossunum var því öllum smalað heim í þetta sinn og síðan verður sú smölun endurtekin á þrettándakvöld  vegna reynslunnar frá því í fyrra.



  Flugeldasýningin  var meiriháttar og litlu munaði að við fengjum að sjá kerruna hjá Atla loga til viðbótar við sjóið, þar sem hún var höfð sem skotpallur.




  Þessi unga snót sem var langt að komin í heimsókn hjá afa og ömmu í Söðulsholti, þótti þetta mikil upplifun.




 Já þetta var mjög fínt og kakóið hjá Önnu Margréti á eftir, var enn betra en í fyrra.

Og eftir vandlega íhugun var ákveðið að hafa myndaalbúmið ólæst,emoticon   en þið missið af áhugaverðustu myndunum.emoticon 

02.01.2009 09:11

Flóttadýr sótt í Þverdalinn.


  Bjartsýni er nauðsynleg á þessu síðustu verstu, en kastið sem við Iðunn voru í um miðjan gamlársdaginn,þegar við ákváðum að láta tittina og Hyrjar vera í hólfinu sínu á nýársnótt, það hefur trúlega verið bjartsýniskast ársins.

 Það er rétt að taka fram að þegar dóttirin ýjaði að því, hvort hrossin í fjallinu yrðu líka látin vera , þar sem þau væru nú lengst innfrá, þá sagði gamli maðurinn þvert nei. Rjúpnaplokkararnir sóttu þau því , en sá gamli sat afmælið í Reykjavíkinni hinn rólegasti.

  Það fór hinsvegar að fara um hann þegar djöfulgangurinn byrjað um miðnætti. Það var logn og hljóðbært með afbrigðum og þegar mér fannst ég sjá félaga húsbílaklúbbsins á planinu við Garðskagavita, skjóta útrásarvíkingunum út á hafsauga var mér öllum lokið.

 Eftir órólegan nætursvefn og morgunmjaltir  beið ég ekki birtunnar með að skanna girðinguna sem hestarnir áttu að vera í, á fjórhjólinu.

Þar voru engir tittir og alls enginn Hyrjar..

 Um leið og birti var brunað inn á dal og þar sem mikill reynslubolti var á ferðinni, þegar hrossaleit eftir sprengjuárásir er annarsvegar, var ekki stoppað fyrr en sást um allan dalinn. Þaðan   voru hlíðar skannaðar með Zeissinum upp í neðstu klettabeltin.
Það varð mikið spennufall þegar ég sá hestana ofarlega í Þverdalsbotninum.



  Það kom í hlut sökudólganna að sækja þau. til þess voru gripnir skjóttu klárarnir hans Einars.


  Hér sjást þau ríða heldur framlág inn Núpudalinn. Þau hafa reyndar oft verið betur ríðandi, Einar minn.



  Ég get fullvissað ykkur um að þetta var mikið puð að komast þarna upp. Gönguformið var frekar dapurt eftir hóglífi jólanna. Smalarnir sjást óljóst á miðri mynd dragandi klárana upp.


  Allar myndirnar hér fyrir ofan eru teknar með alvöru myndavél heiman frá Dalsmynni af letingjanum sem nennti ekki að fara.

  Hér fyrir ofan erum við og hestarnir sitthvoru megin við smá gil, til vinstri við miðju á myndinni.



  Svona leit þetta út hjá okkur Iðunni. Já hann er alltaf svo dj. flottur þessi rauði sem ég man ekki hvað heitir.



  Þessi rauði snillingur hafði leitt hópinn á móti okkur og nú tók hann forystunu niður, á eftir Iðunni eins og fullslípaður rekstrarhestur.



 Og það var svo gott að komast í rúlluna sína eftir erilsama nýársnótt.

Nú tekur raunsæið við og engin bjartsýnisköst verða leyfð framar.emoticon
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere