Færslur: 2014 Ágúst

28.08.2014 20:49

Hestaferð, draumur og veruleiki.

 Ég sagði auðvitað já, þegar ég var beðinn að setja upp 3. - 4. daga hestaferð.


 Spurði bara, fjörur eða fjöll ?


Fjöll, var svarið . 


  Ferðaklárarnir mínir. Stígandi frá S. Skörðugili. Dökkvi frá Dalsmynni. Stígur frá Íbishól og Þrymur frá Dalsmynni. Þessir blesóttu gera kröfu um að vera framarlega í svona ferðum. Dökkvi sem er 5 v. fékk svo bara að hlaupa.

 Ég er forn í háttum með hestaferðir. Reyni að forðast þjóðvegakerfið og ekki að sjá trússbíl fyrr en að kvöldi. En það á nú trúlega við um alla sem leggjast í hestaferðir.

 Síðast þegar ég fór með tamningarfólkinu í Söðulsholti komst ég að því, að við værum óþægilega fá, að vera 4 með yfir 40 hross.  Það var því boðið með  aukaliði og nú vorum við 6 -7 eftir dögum.

Fyrsta dagleiðin var stutt  Söðulsholt - Hallkelsstaðarhlíð.


 Fyrsta áningin að Höfða . Syðri Rauðamelskúla og Kolbeinstaðarfjall í baksýn.

  Þó aðalbændurnir væru ekki heima í Hlíð var veisluhöldunum ekki sleppt hjá Lóu og Svenna.

 Dagur tvö var um Fossaleiðina að Dunk og síðan upp með Skraumu yfir Hólsskarð, að Seljalandi í Hörðudal. 

 Hann hófst að sjálfsögðu með veislu hjá Sigrúnu áður en lagt var á .

 Ekkert okkar  þekkti þessa leið almennilega en greinargóðar lýsingar Sigrúnar reyndust okkur gott veganesti og þó gatan týndist spotta og spotta kom það ekki að sök.

 Komið uppúr Selbrekkunni á leið upp Fossana. Höggið í baksýn. Það var ákveðinn léttir að komast upp í norðangoluna eftir lognið frá Hlíð.

  Þessa tvo daga var farið heim að kvöldi en þriðju nóttina átti að gista í leitarskálanum við Lambafell.

Þriðji dagurinn var eins og hinir fyrri, glaðasól og hægviðri .


 Stígandi tilbúinn í legginn að Dunk. Staðalbúnaður í svona ferð er bursti við hnakkinn og skeifur neðan á ístöðunum.


Nú var farið inn Laugardalinn, Sópandaskarð yfir í Langavatnsdalinn og síðan yfir Langavatnsmúlann að Lambafelli.


 Séð út Laugardalinn. Stóðið varð eftir í þetta sinn en það er alltaf smá kikk í því að hitta á stóð uppi  á fjöllum með hrossarekstur.


 Hér erum við komin niður Sópandaskarðið og áum í mynni Mjóadals. Eftir honum er reiðleið yfir í Hítardal. Óljós að vísu.


Þarna vorum við á ruddum slóða alla leiðina  eftir að lagt var á Sópandaskarðið og niður af múlanum misgrýttum. Minntu mig á línuvegaævintýri sumarsins.


 Lagt upp Langavatnsmúlann. Okkur líkaði það ekki illa þegar hann var að baki. 

Veðrið versnaði um nóttina og okkur leist ekki  á um morguninn , úrhelli og strekkingsvindur.

Brottförinni var þó ekki frestað langt frá ætluðum tíma, enda lengsta dagleiðin eftir, yfir 40 km að Söðulsholti. Það rættist þó fljótt úr veðrinu eftir að komið var af stað og reyndist þetta verða afbragðsgóður dagur. 

 Þar sem var háflóð, var Haffjarðaráin farin á Hábrekknavaðinu sem  var " opið " vegna þess að verið er að endurnýja skógræktargirðingu sem hefur lokað leiðinni í áratugi. Nú verður sett hlið á götuna.


  Hér lesta hrossin sig einstigið milli Tálma og Hítarár . Grettisbælið ofar skýjum framundan. Í sumar var hreinsað grjót úr einstiginu milli Svarfhóls og Hítarár. Þarna var vel að verki staðið af félögum í Birni Hítdælakappai.  en reiðveganefnd Faxa útvegaði pening í framkvæmdina. 

 

  Það fór vel um okkur í skálanum við Lambafell. Grillað þrátt fyrir rigninguna og slegið á létta strengi fram eftir kvöldi.


 Þegar ég var  ungur,( mjög ungur) taldi ég  (eða einhver)  mér trú um að dreymdi mig góða drauma sem ég vildi að rættust, mætti ég ekki segja þá nokkrum manni.  

 Þá færi allt í klessu.


 Drauminn sem mig dreymdi í skálanum segi ég því ekki nokkrum manni.

 Og þó ég viti að hann rætist aldrei  , -  þá á ég hann samt. 

 


Fleiri myndir með skýringum  HÉR .

  

18.08.2014 08:06

Að fá 12 af 10 mögulegum .

 
Ég sá hvernig hvolpurinn lækkaði sig að framan og skottið lagðist niður að jörð.


 Hann sá hvorki mig, eigendurna sem héldu í hann né Smala sem hélt utan um kindurnar um 20 m. frá okkur.

 Einblíndi bara á kindurnar. 

  Ungu hjónin sem höfðu komið um nokkurn veg að sýna mér hann voru greinilega mun stressaðri en hvolpurinn yfir því sem nú myndi gerast. 

  Sleppið honum bara lausum sagði ég og gerði í því að vera slakur og áhyggjulaus með það sem framundan væri.

   Ertu ekki vanur að byrja með hvolpana þarna í hringgerðinu spurði konan óstyrk. Hann hefur aldrei komist í kindur fyrr, bætti hún við . 

 Ég játti því, en núna langaði mig að sjá hvernig þessi hundur myndi bera sig að við kindurnar á æfingabrautinni. 
 Bóndinn losaði ólina með semingi af hvolpinum en ég gaf Smala skipun um að reka kindurnar rólega frá okkur.
  Hvolpurinn sem var rétt 8 mán. horfði á eftir kindunum, svo spratt hann á fætur , tók góðan sveig til hægri og framfyrir hópinn og lagðist. 

 Smali var sendur afsíðis og við hin  virtum fyrir okkur stöðuna smástund.  

  Gamalærin í hópnum ákvað nú að kanna kjarkinn hjá þessu fyrirbrigði sem lá þarna og gekk nokkur skref að hvolpinum með ógnandi tilburðum. Hvolpurinn lá grafkyrr og haggaðist ekki. Ærin hikaði aðeins, stappaði niður framfótum og færði sig nær þar til hún átti eftir  1- 2 m. í hvolpinn. 

Þá var eins og eitthvað brysti í hvolpinum ,.

 Hann spratt á fætur og beint framaní kindina með opinn kjaftinn . 

 Síðan lagðist hann aftur nötrandi af æsingi en ærin kom sér fyrir inn í miðjum hópnum sem var kominn á góða siglingu beint til okkar, sem vorum öruggasta skjólið þegar svona villidýr var á svæðinu.

 Hvolpurinn spratt á fætur og fylgdi kindunum eftir . 

 Hann hélt góðri fjarlægð og þegar við slepptum kindunum framhjá okkur tók hann víðan hring til að komast framfyrir þær og halda þeim að okkur. 

 Þegar það tókst lagðist hann niður á ný.

 Það kom undrunarsvipur á hjónin  þegar ég sagði að þetta væri fínt,

 Ég þyrfti ekkert að sjá meira.

 Hann er bara tilbúinn í tamningu bætti ég við án þess að gefa nokkur komment á það sem á undan var gengið. 
 Heldurðu að hann geti orðið nothæfur fjárhundur spurði konan óviss í röddinni. Ég játti því umsvifalaust, trúlega mjög góður en það væri samt ekki hægt að fullyrða neitt fyrr en búið væri að vinna aðeins með hann. 

 Eru þeir vanir að byrja svona, spurði konan vantrúuð í röddinni.  

 Neeei kannski ekki alveg svona sagði ég. 

Þetta er nú reyndar næstbesta byrjun hjá hvolpi sem ég hef séð á ferlinum bætti ég gætilega við þó eitt af grundvallaratriðunum væri að vekja  ekki of miklar væntingar hjá hvolpaeigendum.  

 Var í lagi að hann skyldi ráðast á kindina spurði konan, enn dálítið vantrúuð í röddinni.
 
  Ég játti því með mikilli sannfæringu.  Það sem hann sýndi þar og hvernig hann hætti um leið og kindin lét undan væri ómetanlegur eiginleiki en vantaði því miður í langstærstan hluta þeirra BC sem ég hefði kynnst. 

 Bóndinn sem hafði verið þögull meðan þetta gekk yfir spurði mig nú hvort ég vildi taka hvolpinn í tamningu. Það hafði reyndar verið rætt áður, enda játti ég því umsvifalaust. Hvað þarftu langan tíma til að gera hann nothæfan í vinnu spurði þá bóndinn.
  Ég sagðist þurfa viku til að koma honum vel af stað þannig að þau gætu haldið áfram með hann ef þau vildu temja hann.

 Miðað við það sem ég teldi mig sjá þarna myndi svo mánaðartamning gera hann vel tilbúinn í vinnu, um leið og þau væru búin að læra á hann og ná tökum á honum.

 Og verður hann góður spurði bóndinn ? 

Ég hikaði smá stund, horfði á 8 mán. hvolpinn sem lá rótlaus hinumegin við kindurnar og sá ekkert nema þær.

Svo svaraði ég dræmt að á skalanum 1 - 10 , jaaa myndi ég halda að hann ætti að fá svona 12 .
 

07.08.2014 21:21

Já,já. Nú er það hundablogg.

  Hundurinn hljóp snuðrandi um gerðið án þess að líta á kindurnar.

 Svo tók hann sig til, reisti skottið og hljóp gjammandi að þeim. Snuðraði síðan aðeins meira og merkti sér eitthvað yst í gerðinu. 

  Hann er ekki hreinræktaður sagði ég. ( Spurði ekki ) .

  Nei nei sagði unga stúlkan , mamma hans er hálfur íslendingur. Samt góður smalahundur sögðu ræktendurnir.

  Pabbinn er svo auðvitað alveg frábær fjárhundur sagði ég.

 Já sagði stúlkan . Hvernig vissirðu það spurði hún svo. 

Nú, foreldrarnir eru alltaf frábærir fjárhundar meðan verið er að selja hvolpana undan þeim sagði ég glaðhlakkalega. 

  Ekki er verið að skrökva um það spurði stúlkan hneyksluð. Ég yppti öxlum. Í sumum tilvikum og síðan er ákaflega misjafnt hvað fólki finnst vera góðir hundar .

   Sumum finnst hundurinn sinn vera afbragðsgóður þegar öðrum finnst að hann eigi ekki að vera með í smalamennskum. 

 Hvernig líst þér á hann spurði stúlkan og leist greinilega ekki alltof vel á þetta umræðuefni. Aðspurð var hún búin að segja mér að hundurinn væri rúmlega tveggja ára.

  Ég horfði spekingslega á hundinn og ákvað að segja henni umbúðarlaust að ég héldi að hann yrði aldrei til nokkurs gagns við kindavinnu, en benti eins og vanalega á að þetta væri nú bara mitt álit. 

 Stúlkan hafði greinilega átt von á einhverju í þessa áttina því hún spurði einskis frekar um hundinn.

   Hún spurði hinsvegar hvort hún væri örugg með gott efni, ef keyptur yrði hreinræktaður Border Collie. 

 Nei, hún væri nú kannski aldrei örugg með gott efni en líkurnar á góðu fjárhundsefni færu ört vaxandi eftir því sem gæði foreldranna væri meiri. 

 Gæti ég kannski lent á einhverjum svona, þó hann væri hreinræktaður spurði stúlkan með vantrúarhreim.
 
 Ég svaraði þessu ekki beint en sagðist vera þeirrar skoðunar að svona u.þ.bil 30 %
 " hreinræktaðra " hunda væri ónothæfir í alvörufjárhunda. 

  Tók síðan fram að á bak við þessa skoðun lægju engar vísindarlegar kannanir. 

 Reyndar hefði ég haldið mig við þessa prósentutölu í fjölda ára og hefði aldrei þorað að hækka hana þó ég væri mun betur inni í " ræktunarstarfinu" nú en áður.

   Ekki dygði að fá alla border collie ræktendur  í  manndrápshug í bakið á mér. emoticon     .

   Nú var stúlkan orðin dálítið ringluð á svipinn sem vonlegt var, enda búið að flækja málið verulega fyrir henni. 

 Ég huggaði hana því með að kannski væru um 60 % + hvolpanna góð eða sæmileg efni og ef hún kynnti sér foreldrana vel eða fyrri got þeirra, þá væru nú líkurnar orðnar nokkuð góðar .

 Og svo óskaði ég henni góðs gengis í hundamálunum. 

 Og nú verður allt vitlaust emoticon .
  • 1
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151417
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 13:25:12
clockhere