14.07.2011 23:04

Og kýrnar leika við kvurn sinn fingur.

 Þegar farið var í fjósbreytingarnar var legið yfir því hvernig ganga mætti frá flórum og stéttum til að lágmarka hálkuna því blessaðar kýrnar eru nú engar fimleikastjörnur í lausagöngunni.

 Skemmst er frá því að segja að það fannst engin  alvörulausn sem maður keypti svo þetta endaði í hefðbundnu fúski sem gerðist því hálla sem það eltist.

 Þegar Guðmundur Hallgríms. var svo kominn með lausnina sem maður var kannski að leita að var ekki beðið boðanna.



 Hér er hann svo mættur með fræsingagræjuna og er óvanalega virðulegur á svipinn.

Þetta er u.þ.b. 2 - 3 mm djúpar rákir og engum blöðum um það að fletta að þetta er að svínvirka.



 Hann fræsti hjá okkur flórana og steyptu gólfbitana við brynningarkerin.



 Mjaltabásinn sem í var lagt efni með sandkvarsi var ágætlega stamur lengi vel. Nú er hann að verða leiðinlega háll og spurning hvenær Guðmundur verður klár í að redda því?

 En það er ljóst að kýrnar verða að fara að æfa sig í einhverju öðru en skautadansinum.

13.07.2011 21:17

Brakandi þurrkur og glottandi danir.

 Það er búið að ríkja hér brakandi þurrkur í óratíma: Grasið er slegið og þeir sem vilja halda nokkru rakastigi mega hafa hraðar hendur að rúlla því. Hinir sem vilja hafa velþurr hey í boði gátu látið heyið liggja í 1 - 2 sólarhringa , rakað upp og rúllað, án þess að snúa.

  Sprettan er misjöfn en sendnu túnin fara mjög illa í þessu tíðarfari. Mýrartúnin sem fengu áburðargjöfina tímalega virðast ætla að skila sínu og eftir að hafa rúllað megnið af fyrri slættinum er ljóst að hér er að nást meðaluppskera. Allt vallarfoxið var slegið um skrið svo þrátt fyrir að vera um 1/2 mán seinni  að slá eru gæðin fín.

 Hér er einungis notaður  N áburður með mykjunni og það sást vel hvar hún var ofmetin eða réttara sagt ekki borið nægilega mikið á af henni. 


 Það stóðst svo á endum að rúlluvélin klikkaði á síðustu hekturunum á 4. bænum sem hún þjónustaði í þessari törninni.
 Þó þarna hafi bara farið rafsuða, tók greiningin langan tíma og erfitt að komast að til viðgerðar.
Það er því órúllað á nokkrum ha. og þó mikil rigning sé eitthvað sem sárvantar, kom það sér vel fyrir viðkomandi að ekki ætlar að blotna að ráði í múgunum hjá honum.

  Nú er svo verið að bera á fyrir seinni sláttinn þó seint sé, svo aftur komist skikk á rúllulagerinn.


 Danirnir í hundasjói dagsins, hlógu að mér þegar ég reyndi að fullvissa þá um að hér væri alltaf logn og blíða eins og í dag. Trúlega hefur annar gædinn þeirra, sem er fyrrverandi sveitungi verið búinn að segja þeim einhverja vitleysu.

05.07.2011 21:28

Umpólun á veðri. Allt á fullu í heyskapnum.


 Það er ekki nóg með að norðanáttin sé farin að fara á skikkanlegum hraða um Nesið sunnanvert, heldur er hitastigið allajafna komið í tveggja stafa tölu. Og það rigndi svo dálítið um helgina.

 Þeir sem eru byrjaðir heyskap eru oftast að bjarga því sem bjargað verður af túnum sem eru farin að brenna vegna þurrkanna. Sumir eru að prófa græjurnar og sem betur fer var svo komið (smá) gras hjá sumum.
 Við þessi umskipti í veðrinu hafa túnin tekið rækilega við sér og býsna margir hafa eflaust farið af stað með sláttugræjurnar í dag því nú lítur út fyrir góðan þurrk frameftir vikunni.


            Knosaravélin á fullu og síðan eigum við helming í annarri án knosara, með Hestamiðstöðinni.

 Hér voru slegnir rúmir 20 ha. í dag og sprettan var nú orðin ágæt og betri en ég hafði reiknað með. Vallarfoxið á sumum spildunum var þó tjónað eftir kuldana, blöðin gulnuð í endana og bláleit. Gamla túnið var farið að hvítna í rót þó manni fyndist það ekki fullsprottið o.sv.frv.

 Það er þó ljóst að það verða engin uppskerumet slegin í ár og seinni slættinum verður örugglega sinnt betur en undanfarin grasár þegar mönnum fannst háin vera til algjörra vandræða.



Já, það var nú ekki svona hávaxið á þessari spildu í ár og á þessari tæplega ársgömlu mynd.



  Þessar öndvegisgræjur er að afkasta jafn miklu í slættinum þó munurinn á stærðar og tæknibúnaði sé mikill á dráttarvélunum enda  25 ára aldursmunur.
Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere