Færslur: 2008 September

29.09.2008 21:35

Tíðarfarið, byggið( og bankinn)!!


  Þó tíðarfarið sé óstöðugt er samt hægt að treysta því, hversu langur sem þurrkakaflinn er, að það mun rigna á ný. Sama lögmálið gildir um rigninguna og nú er stytt upp í bili a.m.k.
  Þreskivélin fékk að snúast í dag. Reyndar er allt forblautt og þó mýrarakrarnir hefðu virkað vel í þurrkunum í sumar eru þeir dálítið erfiðir yfirferðar í augnablikinu. Þurrustu akrarnir hafa forgang og það er þegar komin hrúga á kæligólfið sem tekur við þegar þurrkarinn hefur ekki undan.


                    Þessi mynd af olsokakri er síðan snemma í ágúst.
 Það af Olsokinu sem ekki var tekið snemma í sept. hefur tjónast töluvert en ef legurnar nást upp á hinum ökrunum lítur þetta enn vel út ef ekki hvessir illa eða snjóar, og uppstyttan helst.


                    Lómurinn er lágvaxinn ,sexraða en skilar engum hálmi.

  Við tókum sénsinn á að sá miklu af Lómnum og hann stendur enn mjög vel og er að skila drýgri uppskeru en virðist við fyrstu sýn.


    Og hjartanlegar hamingjuóskir til okkar allra,  að vera orðin bankaeigendur á nýjan leik.emoticon

28.09.2008 19:55

Laufskálarétt.

Um leið og við félagarnir sveifluðum okkur í hnakkana við Laufskálarétt braust sólin í gegnum skýin og kíkti á okkur af og til allan daginn..

                                 Búið að staðsetja vagninn við réttina og klárarnir klárir í slaginn.

 Hitastigið um morguninn var um 3 gr. og snjóað hafði niður í miðjar hlíðar í vatnsveðrinu daginn áður svo þetta leit út fyrir að verða nokkuð napurt. En þetta varð síðan fínn dagur og ágætlega hlýr.

                  Horft inn Kolbeinsdalinn með snjó niður í miðjar hlíðar.


  Það var síðan riðið yfir ásinn í Kolbeinsdalinn þar sem stóðið beið okkar. Þetta var svona 3 tíma reiðtúr með hæfilegu slugsi og virkilega gaman að þessu.



  Smábrot af reiðfólkinu sem var ótrúlega margt og sumir langt að komnir. Fyrstu sem við hittum við réttina komu með hesta frá Fáskrúðsfirði.

          Það var gaman að sjá stóðið sprautast yfir ána og  hvernig teygðist úr rekstrinum upp og yfir ásinn.

      Réttin var kapítali útaf fyrir sig og ég hélt mig í fjörinu í almenningnum á meðan félagarnir og konurnar héldu uppi almannatengslunum á svæðinu.


  Þeir sem fengu byltu við sundurdráttinn fengu óhjákvæmilega lit á sig. Þeir urðu nokkrir áður en lauk.

  Deginum hjá okkur Snæfellingunum lauk með því, að reka stóðið heim með þeim í Hofstaðaseli og þar beið okkar mikil veisla í vélageymslunni.

    Okkur fannst þetta alveg frábær dagur og okkar betri helmingar voru meir að segja nokkuð sáttar með ferðina. emoticon

25.09.2008 19:54

Byggþurrkun í óþurrki!!

Ég er löngu hættur að grínast með stressið á félögum mínum yfir ótíðinni og nögum við nú neglurnar hver í kapp við annan. Allt orðið forblautt um, stöðug rigningartíð (ótíð) og 100 ha. í ökrum bíða þess að stóra rokið feyki bygginu út á hafsauga eða allavega niður á akurinn. Gríðarlegur fjöldi álfta og gæsa hafa síðan sagt okkur stríð á hendur og sækja hart að ökrunum. Kemur sér nú vel að eiga mikið dótaúrval og er engin skömm að vélasýningunum sem sjá má þar sem loftflotar þessir leggja til atlögu inná akrana.

  Þegar sá til sólar í morgun var þreskivélin óðara sett í flotgírinn og náðist í einn þurrkara áður en flóðgáttir himinsins opnuðust á ný

  Þar sem legurnar þorna seint og illa, var tekinn akur með Lómyrkinu sem stendur af sér haustveðráttuna með mikilli prýði.




  Það var komin ákveðin mýkt í annars glerharða eyrina eftir undangengnar stórrigningar og sterka tógin þreytti frumraunina þetta haustið.


 Og aðalkallarnir héldu síðan neyðarfund og var algjör samstaða um niðurstöðu fundarins .

 Sem sé að fara norður í Skagafjörð um helgina, taka rækilega á  því og hætta að naga
 neglurnar.emoticon

Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere