08.05.2010 22:54

Afastelpan og hann Billi Boy.

  Það er ekki til vandræða mislita féð í Dalsmynni. Fyrstu árin mín sem alvöru bóndi var ég með mikið mislitt eða um helming fjárins.  Svo ákvað ég að loka á það og það tók tiltölulegan stuttan tíma að skipta yfir í hvíta litinn.

 Nú fara ræktunaráhrifin hjá mér ört minnkandi og trúlega verða ekki mörg ár í það að slatti af mislitu vafri hér um hús og fjallendi.



 Hér er afastelpan að skoða hluta af fjáreigninni sinni og náist samningar við hana fyrir haustið er trúlegt að hann Billi Boy sem hún er að kanna bakvöðvana á hér, verði næsti drottnari í gemlingum næsta vetrar.



 Reyndar á hann eftir að fara í gegnum nálarauga vöðvaómsjárinnar og sérfræðingsþuklið en einhvernveginn hef ég hugboð um það, að þeir öryggisventlar muni litlu máli skipta í þeirri ákvörðun.



 Reyndar er strax búið að benda mér á að það sé ekki nóg með að hann Billi sé úr sæðingunum, undan honum At, heldur er mamma hans úr sæðingum líka.

 Þó mér finnist þessar athugasemdir ekki sýna mikla trú á áratuga öruggu ræktunarstarfi undirritaðs hef ég vit á því að segja ekki neitt.


Langt síðan ég lærði það, að betra er að þegja en segja.emoticon
 

06.05.2010 02:40

Vökuvakt á sauðburði.- Myndir.

 Það er logn og niðaþoka þegar ég dóla mér í húsin á fimmta tímanum.

Þó ég leggi við hlustir heyri ég ekki þungu dimmu dynkina sem heyrðust í gærmorgun.
Þeir höfðu minnt mig á skot úr stórum riffli með hljóðdeyfi og mér létti nokkuð þegar ég heyrði í hádegisfréttunum að drunurnar í gosinu hefðu heyrst vestur á Mýrar.

 Þá lá semsagt  fyrir að dynkir úr gosi í Eyjafjallajökli hefðu heyrst alla leið yfir á Vesturbakkann.

Og ég varð dapur inni í mér þegar mér varð hugsað til kolleka minna í sauðburði á öskusvæðinu með allt lambfé á húsi og framtíðina vægast sagt í óvissu.

 Guðný var enn á vaktinni þegar ég kom út og var að enda við að setja verðandi tvílembu í aðra fínu hestastíuna sína.  Ég hefði nú ekki þorað því sjálfur enda langagaður í samskiptum við húsfreyjur staðarins.


 Eitt var komið og hitt á leiðinni.



 Kindurnar eru hættar að taka eftir því þegar mætt er á vaktina, þó allt sprytti á fætur þegar komið var í húsin í upphafi sauðburðar.



 Hér hefur hún" Ömmu Hefu Grána", afastelpunnar gert sig heimakomna í rúllugrindinni en hún hafði ásamt  þremur öðrum geldum gemlingum verið sett í rolluhópinn þegar fór að þrengja að í gömlu fjóshlöðunni.


 Stallsystur hennar 3 sváfu svefni hinnar réttlátu við hliðina og hafa ekki hugmynd um að kannski verður þetta síðasta nóttin þeirra inni þetta vorið.



 Já, svona sofa þær blessaðar saddar og sælar og er slétt sama þó bóndalufsan sé eitthvað að þvælast þarna um hánótt.

 Sauðburðurinn gengur bara vel, hægt en örugglega og enn eru það einungis sæðisær og gemlingar sem fjölga sér.

 Eitt lamb kom löngu dautt og tvö hafa drepist í fæðingu með ótrúlega slysalegum hætti.

Tvær fullorðnar hafa svo borið einu lambi.

Það þýðir að " einungis" 3 þrílembur eru í umferð og tveir gemlingar eru með tveimur lömbum í augnablikinu.  En allar þessar fullorðnu ganga með tveimur lömbum, enn sem komið er.

Það verður trúlega ekki reynt að venja undan þrílembunum héðanaf, enda blása lömbin út á ógnarhraða í þrílembustíunni og mæðurnar á extra dekurfæði með ómældri bygggjöf.

Já þetta gengur bara vel og þó orðaforðinn sé í góðu lagi hjá mér, skortir mig lýsingarorðin yfir það hvernig vorkoman leikur við mann þessa dagana.emoticon

03.05.2010 19:53

Byggsáning á útopnu. - Dótamyndir.

  Það var tekið alveg rosalega á því um helgina.

Öllu akuryrkjudótinu var komið á fullan sving í fádæma blíðu enda akrarnir í einstaklega skemmtilegu vinnsluformi.


Atli Sveinn sér alveg um sáninguna einn,ef séð er um að nóg sé af fræi og áburði við hendina.

 Þar sem þeir voru flestallir plægðir í haust var það tætarinn sem fór fremstur í dótaröðinni.
Þetta er 4 m. Pöttinger sem hefur reynst alveg frábærlega, þrátt fyrir óblíða meðhöndlun gegnum árin.
Fantameðferðin var toppuð þegar einn félaginn tætti með honum afleggjarann hjá sér til að brjóta upp holurnar.  Fyrst hnífarnir í honum þoldu það mun fátt verða þeim að fjörtjóni nema slitið.



 Jonni hafði mætt úr borg óttans til að vera á reiðnámskeiði um helgina. Þar sem hrossapestin var mætt, var talið rétt að blása námskeiðið af, því ekki væri gott að námskeiðast á hrossum sem væru hóstandi og skyrpandi.

 Jonni var því settur á tætarann. Einar sem er ákaflega lunkinn samningamaður gerði við hann starfssamninginn. Hann átti að tæta frá 8 - 24 og fá hálftíma í mat tvisvar á dag. Ekki var gert ráð fyrir launum í samningnum enda verið að vinna lögskipaða frídaga og 1. maí í þokkabót.


 Hér fær hann hálftíma í mat með ferðum inniföldum. Reyndar var honum sleppt um kl 22 á sunnudagskvöldið enda akrana að þrjóta.

 Atli Sveinn sá um sáninguna. Hann yfirgaf búreksturinn á föstudagsmorgni og lauk sáningu í þessari lotu um hádegi í dag (mánudag).  Væntanlega margbrotið hvíldarlöggjöfina með einbeittum brotavilja.



 Og Einar var að valta og hljóp svo í að sjá um að ekki vantaði fræ og áburð hjá sáðmeistarnum.

Ég sjálfur sinnti búi mínu af kostgæfni en var svo í afleysingum á tætara og í áburðar og fræreddingum þegar þurfti.
 Þar sem ég var stressaðastur í hópnum notaði ég símann óspart til að skamma þrælana og skapa allskonar leiðindi eins og mér einum er lagið.

 Það var sáð í tæpa 50 ha. í þessari törninni og nú er búið að flóðrigna í dag .


                        
  Það er langt í að akrarnir líti svona út.- Og þó.  Hér var sáðmeistarinn að uppskera Judithakur. sl. haust


Þetta er langþráð rigning og að hún skyldi  koma akkúrat núna bendir ótvírætt til þess að þetta byggbjástur okkar félaganna sé guði þóknanlegt.

 Nú verða teknir 2-3 dagar í að fínisera akrana sem eftir eru, ná vopnum okkar á ný og ljúka svo við að sá seinnipart vikunnar.

 Þetta er lífið. emoticon
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere