10.12.2008 08:53

Útigangur og olíuþefarar.


 Helgin og það sem af er vikunni hefur snúist um hrossin.  Mánudagurinn fór í að keyra út úr stíunum  í Hestamiðstöðinni sem voru orðnar vel fullar. Hálmurinn/skíturinn er keyrður í safnhaug sem er látinn brjóta sig í 1-2 ár svo er honum ekið í akrana og plægður niður. Reyndar er hefð fyrir því víða í sveitum að slíkir haugar verða að hólum í landinu.

 Í gær var stóðið síðan rekið heim og skipt niður í gjafahólfin. Reyndar á eftir að taka tryppin úr merarhópnum. Nú er semsagt allt komið á gjöf.
       Bakkus, Funi, Hrímfaxi og Háfeti voru   orðnir langeygir eftir þjónustunni.

 Tittirnir sem eru hér upp frá, fengu fyrstu rúlluna sína í gær. Þessir skrautlegu, eru hugsanlega falir ef menn, sem vanta gott reiðhestefni eða e.h. skrautlegt í ræktunina, hitta Einar í prúttstuði.



   Það er svo ekkert vandamál að láta Funa sýna réttu hollninguna ef því er að skipta.

Og rollurnar sem hafa haldið sig uppí klettum í haust og verið látnar óáreittar að mestu ákváðu allt í einu að nú væri nóg komið, og  fyrst Þorleifur sótti þær ekki væri best að koma sér sjálfar til byggða.
.


  Skýringin gæti þó legið í því að lambið sem var talið vera með kúlur reyndist kúlulaust og til lítils gagns að sinna þörfum ánna á þessum árstíma.

 Á mánudeginu mættu svo í Dalsmynni opinberir embættismenn til að kanna hvort bændurnir ækju hér um allar sveitir á litaðri olíu. Ekki hefur liðið átt von á góðu því þau komu 4  á tveimur bílum sem sýnir að það er ekki kreppusparnaður í þessum málaflokki.

  Sem betur fer fyrir þau, var eldri bóndinn í skítakstri á næsta bæ, en hann getur átt það til að vera afspyrnuleiðinlegur við svona fólk, sem er nú bara að vinna vinnuna sína.
 Þau sluppu því við að vera rukkuð um húsleitarheimildir og dómsúrskurði fyrir því, að vaða í annarra manna bíla, enda yngri bóndinn annálað prúðmenni með engilhreina samvisku, allavega hvað litaða olíu varðar.

 Já, við munum því ganga lausir enn um sinn,  Dalsmynnisbændur.emoticon

 

08.12.2008 23:38

Hrossaræktin í sveitinni.

 Það voru folöld frá 10 bæjum í Eyja og Miklaholtshrepp á sýningunni sem er ykkur að segja alveg gríðarlega gott. Fólk er ekki að mæta til að hampa bikurum, heldur að sýna sitt og sjá hjá öðrum.

  Af þessum 75 folöldum á sýningunni var verulega hátt hlutfall af virkilega áhugaverðum gripum. Meira að segja ég sem hef ekkert vit á þessu sá það.


                     Taktur stóð undir nafni eins og sést á fótaburðinum hjá þeim félögunum.

 Taktur Hágangsson frá Dalsmynni ( sá glófexti) komst ekki í 5 fola úrslitin þrátt fyrir að svífa um gólf á brokki og tölti.Hinir voru einfaldlega betri. Til marks um hvað stór hluti folaldanna var  jafn, fékk hann  48 stig. Sá sem stóð efstur í folaflokknum var með 56 stig. Mér kæmi ekki á óvart að mjög stór hluti hópsins hefði verið með 45- 50 stig í einkunn.



  Hjörtur Hágangsson og Ábóti Álfsson frá Söðulsholti fundu sig ekki alveg enda Ábóti síðkastaður.
Nú er ræktunin í Söðulsholti komin á nokkurt skrið þó ung sé að árum enda verið keyptar inn nokkrar 1. vl. hryssur.
 


  Dís Tindsdóttir frá Hömluholti, sú ljósa fór á kostum en í Hömluholti er gamalgróin hrossarækt
stunduð af krafti.



 Fáskrúðarbakkabúið mætti þarna með 7 folöld og flest til sölu . Þar er gamall og góður ræktunarstofn sem leynir á sér og þeir seldu grimmt á sýningunni.
 Þarna fara þeir Hvinur og Ljómi mikinn en þeir eru undan Guðfinni Glymssyni frá  Skeljabrekku.
 






  Á Stakkhamri hafa verið ræktuð úrvals reiðhross eins lengi og elstu menn ( ég) muna og sú blesótta, Blika Sólonsdóttir á örugglega eftir að verða tekin til kostanna á fjörunum.



 Það er mikill  gangur í hrossaræktinni í Hrísdal og hér fara þeir Demantur Bjarmason ( skjóttur) og Eimur Aronsson hringinn sinn fyrir áhorfendur.


 Blesa  Flugarsdóttir frá Hjarðarfelli og Spóla Sólonsdóttir frá  Stakkhamri á góðri siglingu. Harpa á Hjarðarfelli passar upp á hafa litaúrvalið í lagi með hæfileikunum.



 Ólafur á Miðhrauni er líka að hasla sér völl í ræktuninni og hér fara þeir Hylur Álfsson og Straumur Gaumsson frá Miðhrauni.



 Á Miðhrauni 2 eru Sigurður og Bryndís að skella sér í ræktunina og sá mósótti Töfrandi frá Miðhrauni 2 er undan Lokk frá Fellskoti.



Á Minni Borg eru bæði hrossin og húsfreyjan af mikilli eðalræktun frá Hofstöðum í Hálsasveit.
 Hér fara þeir Mökkur frá Hofstöðum undan Korg f. Hofstöðum. (mós.) og Fagri Blakkur Frá M. Borg (f. Þrymur frá Þúfum) .

 Já, það voru margi glæsigripir sýndir þarna og ég sem er nú alltaf á útkikkinu eftir reiðhestsefni sem þarf að vera öflugri en allt sem öflugt er og allt hitt í góðu lagi hefði sett þennan fola efst á listann yfir þá sem ég hefði vilja hafa eftir.



   Hann heitir Bráður frá Miðgarði undan Sólon f. Skáney  og Brá f. Stafholtsveggjum  og lenti í þriðja sæti í folaflokknum.


Flottur.emoticon

Ef einhver rekur svo augun í einhverjar staðreyndarvillur hér fyrir ofan, fyrir alla muni látið mig vita.

07.12.2008 23:23

Mannlíf á folaldasýningu.




  Það var talsvert á annað hundrað manns á sýningunni á hestasmiðstöðinni í dag og 72 folöld skráð.

Þetta er nú bara í þriðja sinn sem ég mæti á svona sýningu og mér er minnistæð sú fyrsta. Folöldin voru fín en tvennt fór í pirrurnar á mér . Annað var hve þetta gekk seint því alltaf var bið milli sýningahollanna. Hitt var mismununin sem sýnendurnir virtust sæta , því meðan það voru kannski 3 folöld í holli voru sum folöldin sýnd  eitt í einu , sem var heldur ekki til að stytta sýningatímann.

  Hestamiðstöðvarliðið sem var einnig þarna leit þetta sömu augum og þegar folaldasýningin var í hestamiðstöðinni í fyrra var þetta tekið föstum tökum, alltaf tvö folöld í sýningu í einu og sýningin gekk viðstöðulaust eða einungis nokkrar sekundur milli holla. Svona gekk þetta líka í dag en það var Hrossaræktarsamband Vesturlands sem sá um keppnina.



   Meðan bóndinn afgreiddi áríðandi símtal fylgdust betri helmingurinn og tengdadóttirin áhugasamar með sýningunni.



  Og það var verslað. Fáskrúðarbakkabóndinn( t.h.) kom með 7 st. þar af 5 skjótt undan Guðfinni Glymssyni og seldi a.m.k. 3.  Ég held nú samt að hann eigi það besta eftir óselt og þarf að skreppa í kaffi til hans. Þessi í jakkanum er orðinn áskrifandi því hann keypti líka í fyrra.


 Það komu til sýningar folöld frá 11 bæjum í Eyja- og Miklaholtshrepp og Hrísdalsbóndinn lék á alls oddi  frá upphafi til enda, mættur með 7 st. hvert öðru álitlegra.



  Afastelpunni leist alveg rosalega vel á verðlaunin- en hún átti ekkert folald.(Skil ekkert í mömmu hennar.)


 Þá er bara að bjarga sér sem best maður getur.



 Þessi lagði á sig lengsta ferðalagið og hlýtur að hafa verið nokkuð sáttur við úrslitin um það er lauk.

  Þar sem ég er í fréttabanni( harður heimur bloggheimurinn) bíða flottu folaldamyndirnar betri tíma.
En kíkið á Söðulsholtssíðuna, þau sem hafa áhuga á hinni hlið sýningarinnar.

Svo tek ég þetta næsta haust.emoticon








Flettingar í dag: 1551
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580244
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:34:00
clockhere