16.01.2011 22:10

Dalamenn á fjárhundanámskeiði.

 Vikunni var að hluta til varið í að rifja upp gamla punkta og nýja í fjárhundatamningum.

Nú fer að koma sá tími að tekið verði á því í tamningunum en aðalástæðan var samt sú að Mýrdalsbóndinn var með yfirbókað námskeið í dag. Ég var því ráðinn fyrsti aðstoðarmaður, ásamt því að redda reiðhöll undir námskeiðið.

 Það var Félag Sauðfjárbænda í Dölum sem stóð fyrir þessu þarfa framtaki og greinilega talsverður áhugi þar, á því að koma sér upp góðum hundum.



 Fyrra hollið mætti um tíuleytið en restin um eittleytið ásamt nokkrum sem rákust þarna inn.



 Hér fylgjast þau áhugasöm með djúpthugsuðum kenningum um, hvernig á að byggja upp samskiptin og leiðréttingar í uppeldinu og þjálfuninni.

 Aðstaðan í reiðhöllinni er algjörlega frábær til svona byrjendaleiðbeininga en lengra komnu hundarnir þyrftu aðeins meira rými til að njóta sín.



 Hér er rolluleiðtogi Dalamanna ásamt Gísla að dáðst að Títu sem er á réttum hraða á beinu
brautinni.


Og Christina og Blesa fylgjast hinar ánægðustu með.



 Lubbi á Sauðafelli sýndi ýmsa góða þætti úr Garrýgenunum sem búa í honum. Því miður leyndust nokkur alvöru Garrýgen í pakkanum líka, sem þarf að vinna úr.



 Rebekka á Hólum og Lísa frá Valþúfu sýndu báðar góða takta í náminu.

 Mér fannst óvanalega hátt hlutfall af þessum 13 hundum sem mættu þarna vera dýr sem ég gæti vel hugsað mér að temja og nota .
 Það staðfestir kannski  það álit mitt að B C ræktunin sé dálítið á beinu brautinni þessi árin og var kominn tími til.

Myndir frá hestamiðstöðvarnámskeiðum.  námskeið 2010/2011

11.01.2011 10:03

Búskaparbaslið og " velgengnin".

 Ég fer ekki oft inná heimasíðuna hjá þér sagði vinur minn úr Húnaþingi.

Hvers vegna, spurði ég hneykslaður yfir þessu tómlæti gagnvart svona frábærri síðu?

 Það gengur allt svo vel hjá þér, engin vandamál svo manni fer að líða illa með sjálfan sig, svaraði vinur minn glottandi.

 Ég játti því að ef hann gæti ekki lesið milli línanna á blogginu hjá mér og dregið hæfilega frá því sem þar komi fram, væri trúlega best fyrir hann að lágmarka heimsókirnar.

 Nú er búið að ganga á ýmsu í búskapnum síðustu vikurnar.

Um jólin fór vökvarör í flórsköfukerfinu  sem hefur nú reyndar aldrei virkað fullkomlega síðan það var sett upp  2004.
 Býsna langt síðan maður hefur komist í að moka flór og trúlega í fyrsta sinn á ævinni sem yngri bóndinn kynnist þessu þroskandi starfi.

  Í kuldahvellinum í síðustu viku fraus svo allt sem frosið gat í gamla fjósinu þar sem kvíguuppeldið er til húsa:  Það hefur ekki gerst svona verklega síðan kýrnar fluttu út.
 Það slapp nú samt allt til án þess að rörin tjónuðust.

 Snigillinn úr fóðursílóinu sveik okkur svo á dögunum og mun fyrst komast í lag í dag.
Það er að vísu ágætt að fá svona líkamsræktandi bilanir samhliða og uppúr  jóladekrinu.

 Og nú er norðanbelgingurinn að byrja að taka á taugarnar en ég þoli hann nú ekki með góðu móti nema svona í rúma viku.
 Ég hefði svo gjarnan viljað hafa eitthvað af snjónum sem norðlendingum er boðið uppá þessa dagana því þessi frostakafli á auða jörð gæti sett strik í reikninginn við akuryrkjuna í vor.



 Ég og mín heittelskaða brugðum okkur svo í borg óttans á föstudaginn. Viðvaranir útvarpsins um
 " ekkert "  ferðaveður höfðu mjög góð áhrif á umferðarþungann til og frá höfuðstaðnum og hafa væntanlega sett mark sitt á útsölurnar , en á röltinu gegnum Kringluna fannst mér traffíkin vera minni en á venjulegum  degi.

En nú lengir daginn hratt og allt að komast á fullt hjá mér í ýmsum málaflokkum.


08.01.2011 22:04

Smalasaga, glæný- ( Myndasaga)

 Það kom bráðaútkall úr Snæfellsbæ um tvöleytið dag.

 Beðið um 1 - 2 hunda og ágætt að fá 1 smala með.



 Þetta var smalasvæðið en kindurnar voru ofarlega í hlíðinni fyrir miðri mynd.
Þarna var stærsti hlutinn af fjárstofninum á bænum sem hafði lent í afleitum félagsskap
 "aðkomukinda" snemma í des. og látið sig hverfa uppfyrir brúnir. Síðan hafði ekkert til þeirra spurst fyrr en þær birtust í hlíðinni í dag, Trúlega ekki líkað við veðrið síðustu dagana.



 Þarna voru þær á beit hinar rólegustu.  Myndirnar hér eru teknar heiman frá bænum og dálítið hraustlega súmmaðar.



 Það átti að reyna að laumast að þeim með því að keyra upp fyrir túnið talsvert fyrir vestan þær en þarna voru með lífsreyndar ær sem voru snöggar að koma sér af stað.



 Vaskur var því sendur af stað í flýti og þó hann sæi nú engar rollur til að byrja með  sá hann þær að lokum, þurfti þá að vísu að hækka sig talsvert til að komast upp fyrir þær en þarna er allt komið í kontrol.



 Hér er Dáð komin honum til fulltyngis og skipun gefin um að koma hópnum af stað.


Þær styggu tóku sprettinn í vestur en hinar vildu í austur en tveir hundar vinna létt verk.


 Hér er allt sameinað á ný og rollurnar að átta sig á að nú er ekki við Staðsveitunga að eiga.( Eða þannig).


 Best að koma sér bara í hús og láta sig svo dreyma um næsta sumar.



 Og þessi svarti hér, hefur væntanlega séð til þess að hér byrjar sauðburður uppúr miðjum apríl.

Bara þokkaleg byrjun á árinu svona smalalega séð.
 
Flettingar í dag: 309
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 434991
Samtals gestir: 40169
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 08:16:08
clockhere