07.12.2008 00:16

Aðventukvöld.


   Það var vel mætt á hið árlega Aðventukvöld sem að þessu sinni var haldið í Lindartungu í umsjá  sóknarnefndar Kolbeinstaðarsóknar.
  Og hafi einhverjir borið kvíða í sinni vegna kreppunnar, hvarf hann sem dögg fyrir sólu .þegar séra Guðjón sem er að mæta til starfa eftir löng og erfið veikindi, fullvissaði okkur um að hann og umbjóðandi hans myndu beita sér fyrir því að margumrædd kreppa myndi allavega sneyða framhjá öllum bæjum í hans sóknum.



 Börnin í kór Laugargerðisskóla sungu eins og englar en  þetta eru vonandi eðlileg börn og eru kannski ekki alltaf eins og englar þess á milli.



 Kirkjukórinn okkar söng svo af mikilli innlifun og kom okkur í endanlega jólaskapið.

 Hafi svo vantað uppá réttu stemminguna hjá einhverjum, var Diddú mætt á svæðið og fór á kostum eins og henni einni er lagið.



  Já það var greinilega eitthvað í gangi.



  Og jólasveinninn var mættur og hlustaði líka á Diddú.



  Þegar að söngveislunni lauk tók við mikil kökuveisla sem var mikil og góð æfing fyrir komandi jólavertíð.


  Ég vil svo þakka margar góðar kveðjur til mín og heimasíðunnar minnar.
Þær eiga eftir að hressa við egóið hjá mér þegar ég sit við tölvuna með ljóðlínur snillingsins frá Skáholti í kollinum.

 Ég sit hér einn, með sjálfstraustið mitt veika. o.sv. frv.emoticon




05.12.2008 20:34

Ársgömul heimasíða.



  Nú er heimasíðan mín ársgömul í dag.emoticon 

 Ég hafði gengið með það í maganum nokkurn tíma að koma upp heimasíðu en netsambandið bauð ekki upp á það hér á sunnanverðu nesinu. Þegar svo það átti að verða alvöru samband, var látið vaða á þetta en því miður er sambandið ekki alvöru enn og þessvegna fer verulegur tími í úthaldið sem annars myndi ekki taka langan tíma eins og ég vinn þetta.

  Þegar lagt var upp var stefnan vægast sagt óljós, enda hefur orðið ákveðin þróun á síðunni þennan tíma. Mesta spurningin var hvernig standa ætti að blogginu. Þeirri spurningu er reyndar ekki svarað enn.

  Mér finnst mjög notalegt þegar ég fæ comment og kvittun í gestabók og þakka öll slík á árinu. 
Allt slíkt hleypir ákveðnu lífi í hlutina og gerið lífið skemmtilegra.

  Þeir eru svo orðnir þó nokkrir sem taka mig tali og segjast kíkja hér reglulega inn þó þeir einhverra hluta vegna kvitti ekki hér. 
  
 Og ég hafði gaman af því þegar kunningi minn á malbikinu, hringdi óvænt í mig í fyrradag og spjallaði lengi við mig um landsins gagn og nauðsynjar. Ég var svo farinn að velta því fyrir mér hvern þremilinn hann væri nú að vilja mér, þegar hann sagðist nú bara hafa hringt til að  þakka mér fyrir heimasíðuna sem hann fylgdist reglulega með. Fallega gert af honum.

 Helsta breytingin í farvatninu er sú að ég mun bæta við vefsíðu (vafraðu um listinn.) hér til hliðar sem mun  tilheyra sveitarfélaginu mínu, Eyja- og Miklaholtshrepp. Þar munu verða fréttir af því sem þar er á döfinni , birtar fundargerðir eða útdráttur úr þeim o.sv.frv.  Laugargerðisskóli mun að sjálfsögðu falla undir þann lið með sama hætti enda verður seint skilið þar á milli.

 Þetta mun væntanlega verða  virkt með nýju ári.

  Já, og takk fyrir þetta fyrsta ár. emoticon  


 

 

04.12.2008 08:55

Hollur er heimafenginn baggi.


  Fyrir margt löngu þegar ég var endanlega búinn að setja kúrsinn á búskapinn hafði ég uppi margvísleg áform um framtíðina.

  Eitt af því sem ég ætlaði mér að afleggja snarlega þegar ég yrði einn og óháður var heimaslátrunin sem mér leiddist ákaflega.
 En ekki gengur allt eftir sem áformað er og fljótlega sætti ég mig við að halda dampi í þessu sem öðru. Þegar farandslátrari fór síðan að fara um héruð varð þetta léttara og síðan yfirtók tengdasonurinn fláninguna þegar  hann hætti að þjónusta okkur. Heimavinnslan hefur samt tekið ýmsum breytingum og síðustu árin eru stórmarkaðirnir látnir sjá um hangikjötið og stundum saltkjötið líka.

  Eftir að mín heittelskaða komst yfir bjúgnauppskriftina hjá henni Guggu í Skógarnesi hefur bjúgnagerðin hinsvegar fest sig í sessi enda ekki á færi stórmarkaða að slá þeim Guggu við í þessum efnum.

    Hér eru síðan húsmæðurnar á hlaðinu að leggja lokahönd á bjúgnagerðina.

Þegar kemur að reykingunni verðum við vesturbakkamenn að viðurkenna vanmátt okkar. Þá kemur sér vel að vinir mínir á austurbakkanum eru bóngóðir og vilja allt fyrir vini sína gera.



  Það er alltaf vísir á jólaskap að komast í matarlegan reykkofa og hérna var Áslaug í Mýrdal búin að loka bjúgnaferlinu og bara eftir að drífa bjúgun heim ,  setja upp pott og staðfesta að þetta væri enn einn frábær árgangur í bjúgnaframleiðslunni.

 Á leiðinni upp að Mýrdal sá ég ekki betur en það væri komið nýtt hús í Hrauntúni síðan ég fór hér síðast um í björtu.

  Þarna er byggt hátæknifjós og mér er sagt byggingarframkvæmdirnar hafi tekið fjörkipp í hvert sinn sem banki fór á hliðina í kreppunni.



  Þannig á að taka þetta og bóndinn þarna er fyrsti austurbakkabóndinn sem kemur bygginu sínu í þurrkun hjá okkur á vesturbakkanum. Það segir mér að þetta sé framsýnn snilldarbóndi sem er mei...................................................... já ekki orð um það meira.


Og bráðum koma blessuð jólin.emoticon


Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581497
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:08:40
clockhere