17.09.2010 22:48

Leitir og réttir framundan.

Nú fer allt að gerast í rollustússinu en hér í Eyjarhreppnum verður leitað á morgun og réttað í Þverárrétt á sunnudaginn.

 Og það gengur stundum mikið á í réttunum.

Og blogggestirnir mínir eru komnir í smalastuð því það eru margar heimsóknir í smalaalbúmin frá fyrri árum.

 Það er Rauðamelsfjallið og Svínafellið sem verða smöluð á morgun en það er nú fyrst og fremst vinir mínir á Austurbakkanum sem eiga það fé sem þar er.

 Félagi Arnar er greinilega búinn að taka á því í leitinni , annað ístaðið týnt og kominn með farþega.

 Hér er verið að koma niður í fyrra en nú lítur út fyrir toppveður í bæði leit og rétt.

Ég sem hef verið einn af föstum punktum tilverunnar á öðruhvoru þessara leitarsvæða eins lengi og elstu menn muna verð samt fjarstaddur á morgun.

 Og það er óvanalega mikill spenningur í loftinu því nú fer ég á alveg glænýtt leitarsvæði upp í Norðurárdal.
 Í gamla daga meðan á aðalvillimennskunni stóð, var ég í því að safna nýjum leitarsvæðum en það er nú eiginlega aflagt.

En það er nú enn toppurinn að komast á ferskt svæði.

13.09.2010 22:52

Skógræktin í sveitinni.

 Vegna þess hve lítið er að gera í sveitinni reyna menn að finna sér eitthvað til dundurs.

Mín heittelskaða er því orðinn forfallinn skógræktandi en það er einn af örfáum leyndum göllum sem ég hef uppgötvað gegnum tíðina.

 Reyndar er allt í fínu lagi með skógræktina þar til trén fara að skyggja á fjallasýnina eða annað útsýni.



 Hér eru 3000 plöntur af sitkagreni tilbúnar í að fara að berjast fyrir lífi sínu í Snæfellsku tíðarfari.
Vegna stöðugra þurrkasumra er gróðursett á haustin.




 Þetta hér er nú að vísu verk Margrétar í Dalsmynni og sýnir ákaflega vel hvað hægt er að gera í veðursældinni og ofurjarðveginum á Nesinu. Og Lúpínan klikkar náttúrulega ekki eða þannig.



 Já,já, þetta er allt að koma en nokkur ár í að þessar skyggi á fjöllin.



 Það eru 25 ha, settir í þetta skógræktarverkefni sem er unnið með Vesturlandskógum og bendir margt til þess að nokkur gullfalleg holt og melar verði skóglendinu að bráð.

 Til þess þarf samt að koma á þau gróðurþekju og á morgun verður bóndinn settur í að dreifa úr úrgangsheyrúllum.

Það má svo deila um hvort það gerir hann meðvirkan eða meðsekan.emoticon

12.09.2010 06:44

Bygguppskera í máli og myndum.

 Það er óvanalega gott útlitið í byggræktinni þessa dagana. Mikið af fullþroska ökrum sem er með allra fyrsta móti hér og tíðarfarið er varla hægt að kalla annað en afbrigðilega gott.


Hér er verið á Pilvíakri í Söðulsholti velþroskuðum og með ágætu uppskerumagni, þegar létti til í gær.

 Það er farið nánast á milli skúra og þreskt en gegnum þurrkarann eru að fara um 20 tonn á sólarhring af byggi með þetta þurrefnisstig ( yfir 70 %).


                                                                            Fullþroska Pilvíyrki.

 Þetta er annað árið sem Pilvíið er notað hér. Það reyndist vel í fyrra og er að gefa mikla uppskeru. Nú eru legurnar að ergja okkur en það á reyndar við um allt 6 raða byggið nema auðvitað Lóminn.
Pilví, Judith og Lómur eru aðalsáðtegundirnar.



 Það er akkúrat svona sem þurrkmeistarinn og við hinir viljum hafa þetta. Sést varla grænt korn.



Það er stefnt að því að hirða hálminn hér, annars væri vélin stillt til að saxa hann niður og dreifa honum fyrir aftan sig til niðurplægingar.


Undir gólfinu eru loftstokkar svo hægt er að blása undir stæðuna.  Velþroskuðu þurru  byggi  er hægt að halda köldu dögum saman.

Við erum aðeins farnir að setja inn á gólf þar sem bygginu er haldið köldu. Ef langtímaspáin gengur eftir með nokkra þurra daga í næstu viku má hinsvegar búast við að tekið verði á því og allt þreskt sem er tilbúið.

Já, það væri fínt að fá afkomugott ár, annað árið í röð .emoticon 
Eftir öll mögru árin.emoticon

Flettingar í dag: 471
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436106
Samtals gestir: 40258
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 11:10:30
clockhere