13.07.2012 19:56

Í tómri steypu.


  Það var tekið rækilega á því í vikunni og gamlir byggingataktar rifjaðir upp.

 Burðarsökklarnir steyptir á .þriðjudag og fyrri veggjasteypan  á fimmtudag.



 Notuð eru flekamót sem duga ekki nema hálfan hringinn en létta þetta samt helling.
Þó munurinn á aðkeyptri steypu og heimalagaðri sé nú mun minni en í den var samt ákveðið að hræra heima ekki síst vegna þess að um margar smásteypur verður að ræða sem þýðir slæma nýtingu á steypubílnum sem aftur þýðir hærra verð á rúmmetri. 



 Steypustöð Dalsmynnis sf. svínvirkaði og með betra dóti  tíðkast ekki lengur að bjóða sveitungunum  í steypuvinnu heldur erum við 3 að ná því að hræra og koma í mót um 4 rúmmetrum/klst.



 Og Gústi yfirsmiður fékk að svitna í logninu og sólinni í steypumóttökunni. Hann hafði samt bara gott af því.



 Þetta er hinsvegar vinnustaður steypustjórans sem var nú alinn upp við það að handmoka í hálfpokavél búnaðarfélagsins fyrir margt löngu.

 Ekki tókst þó að halda áætlun þessa vikuna svo nú er það spurningin hvað gerist þá næstu ?


En það er á svona viku sem heiti potturinn lengir lífið og gerir það mun auðveldara. 

08.07.2012 22:09

Og nú byrjar ballið fyrir alvöru.

 Síðan í fyrravor hafa staðið til framkvæmdir á bænum. Það hefur verið teiknað og dregið að efni ýmisskonar en ýmissa hluta vegna var hluti þess sem gera átti í fyrra settur í frost í vetur.

 En það hefur verið ljóst lengi að þetta yrði afspyrnu erfitt sumar og ennþá styttra en alltof stuttir forverar þess.

 Iðnaðarmenn hafa svo leikið hefðbunda rullu í dæminu en ekki orð meira um það - í bili.

Annarsvegar er verið að breyta flatgryfju sem hefur verið nýtt undir kindur fyrir kvíguuppeldi.



 Keyptar voru forsteyptar einingar í burðarbitana undir rimlaeiningarnar.



 Til að auðvelda uppsetningu hliða og milligerða voru öxuljárn steypt í þá.

 Jafnframt þessu verður komið upp 200 ferm. stálgrinda/ fjölnotahúsi sem til að byrja með verður nýtt undir kindur og hross.

 Þar er stefnt að því að hægt verði með auðveldum hætti að rýma til, þannig að myndist gott rými til þess að grípa í hundatamningar eða sýningar yfir veturinn.



 Þetta verður unnið eins og í gamla daga. Bændurnir á fullu með smiðunum, steypt heima og svo framv.

 Það er búið að sanka að sér efni ýmiskonar þó betur megi ef duga skal en gömul reynsla og ný hefur kennt mér það, að þá fyrst fara hlutirnir að ganga þegar allt er komið á fullt og magasýrurnar ólga hæfilega.

 Nú mæta smiðirnir í fyrramáli, svona aðeins á eftir áætlun og framundan er stanslaus törn með iðnaðarmönnum þar til málið er búið.

Náttúrulega með ófyrirsjánlegu töfunum.

01.07.2012 22:41

Þurrkasumur og fullir og tómir vatnstankar.

 Það hefur varla mælst úrkoma hér síðustu 5 vikurna. 3- 4 mm eða svo.

 Sól og þurrkur, þurrkur og sól.

  Nú er fyrstu heytörninni lokið eða því af fyrri slætti sem er ætlað kúm, og kindum á fengitíma og sauðburði.



 Þessi mynd lýsir ágætlega veðrinu síðustu vikurnar. Ofurbjart og allt orðið skrælþurrt. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum sem ég sel nákvæmlega jafndýrt og ég keypti þær er þetta sjötta þurrkasumarið í röð og margir halda eflaust að svona eigi þetta að vera.
 Það er trúlega rétt en það eiga samt eftir að mæta rigningasumur á ný hvenær sem það verður.

 Já, uppskeran er góð, vel yfir meðallagi þrátt fyrir þurrkana enda eru samkvæmt mjög áreiðanlegum heimildum ( o.sv.frv.)  mýrartúnin hjá mér og fleirum eins og vatnstankar sem gera rigningar óþarfar vikum saman, ef áburður er á annað borð uppleystur þegar þurrkur brestur á. Þ.e.a.s ef túnin eru vel vatnsmettuð að vori.

 Fari rigningin úr böndunum eins og hún gerir á alvöru rigningarsumri kynnast mýrartúnsbændur aftur á móti því hvernig er að keyra  á vatnstanki með grasrót ofaná í staðinn fyrir lok.



 Og kornið er farið að skríða á ökrunum sem fyrst var sáð í, samt ekki svona hressilega og á þessari mynd sem var tekin í júlílok 2010.
  
 Rigningin sem búið var að spá í dag á víst að koma á morgun ? og þar sem áburður fyrir seinni sláttinn er kominn á tún er eins gott að hún skili sér og það almennilega.

Annars verða ónefndir veðurfræðingar illa haldnir af hiksta á morgun.


Heimild, Jónatan Hermannsson.
 
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere