07.02.2011 22:32

Snjór á Nesinu. Loksins.

 Meðan kuldamassinn yfir Grænlandi stýrir hverri lægðinni á fætur annarri yfir okkur fer ekki hjá því að snjói á Nesinu. Þetta er svona snjór sem sest að í einhvern ótiltekinn tíma en fýkur ekki út á hafsauga jafnóðum eins og í norðanáttinni.

  Í gærmorgun var snjósleðaflotinn í Eyjarhreppnum því gerður klár eftir a.m.k 2 ára hvíldartíma. 

Það gekk bara nokkuð vel.

Í dag var svo algjört óskaveður fyrir fjallaferð en þó það sé algjörlega ófyrirgefanlegt verð ég þó að viðurkenna að dagurinn hjá mér fór í skít/hálmakstur í hestamiðstöðinn.

 Þar sem það er ákaflega sjaldgæft að ég geri eitthvað ófyrirgefanlegt er nokkuð auðvelt fyrir mig að lifa við það.

 En þetta var dýrðin sem ég missti af.



Og Svörtufjöllin engilhrein eins og samviska Dalsmynnisbóndans.



 Hafursfellið stendur svo alltaf fyrir sínu.



 Heimasætan kom í sveitina um helgina og með aðstoð afastelpunnar var skellt upp einum Snæfinni.


 Skessa gamla sagði þeim til við þetta, enda með um hundrað ára mannsaldur að baki.

 Tinni og Vaskur voru hinsvegar ekkart að taka þátt í svona fíflagangi, langþreyttir á að fá ekki almennilegt tíðarfar til smalaæfinga.


Svo er bara að vona að komandi rigningar verði snjókoma í fjallinu, því ekki veitir af að bæta jarðvatnsstöðuna eftir liðna snjóleysisvetur og hvert þurrkasumarið á fætur öðru.

 Kannski kemst maður svo í fjallaferð áður en lýkur??

04.02.2011 23:42

Aðalgot ársins. Byrjaði illa en endaði vel.

 Ég leit hugsandi á Dáð þar sem hún hikaði í dyrunum og vildi greinilega ekki út. Samkvæmt vísindalegum útreikningum voru 2 - 4 dagar í got og til að venja hana við komandi innilegum var ég hættur að taka hana með í gegningarnar. Nú var ég að koma inn um 7 leytið og ætlaði aðeins að hleypa henni út.

Ok, hugsaði ég, hún fer bara út seinna í kvöld.  Kannski er rétt að fylgjast með henni í nótt hugsaði ég svo, því mér fannst hún eitthvað skrítin.

 Um níuleytið kíkti ég svo fram og þá kom sjokkið. Þrír hvolpar komnir.  Dáð var greinilega ekki að höndla þetta fyrsta got sitt, ráðvillt á svipinn og hvolparnir litlir, einn dauður og hinir kaldir og slapplegir.

 Það var farið að þurrka þá og reyna að fá tíkina til að sinna þeim betur. Til að auka stressið fannst mér ekki vera komin mjólk í hana og hvolparnir sérlega aulalegir ef reynt var að koma þeim á spena.
 Loks vaknaði móðureðlið og Dáð fór að sleikja þá á fullu og þegar 4. hvolpurinn bættist við, komst hún endanlega í gang og hefur staðið sig frábærlega síðan.


 Og hvolparnir bættust jafnt og þétt við, með góðu millibili samt og uppúr miðnætti voru komnir 5 lifandi og örugglega einn eftir.

 Það var búið spá 7 hvolpum og ljóst að  sú tala næðist . Hitt var umhugsunarverðara að þetta voru allt tíkur. Það lá því fyrir að þessi þrír sem voru búnir að biðja um hunda úr gotinu yrðu ekki kátir.

 Ég var orðinn slakur á nýjan leik og dreypti á eðal koníaki á milli þess sem ég stjanaði við tíkina og dáðist að verðandi kynbótadýrum.

Móðirin Dáð frá Móskógum er undan tömdum innfluttum hundum , Mac á Eyrarlandi og Dot í Móskógum.
 Hún er hlýðnasti hundur sem ég hef tamið, kjarkmikil og á allan hátt skemmtilegur fjárhundur.



 Faðirinn er Glókollur frá Dalsmynni, nú til heimilis að Syðri Löngumýri. Glókollur sem er undan Skessu og Tígli frá Eyrarlandi er heimsfrægur í  A. Hún og þó víðar væri leitað fyrir notkunargildi sitt í smalamennskum.
 Hann er einstakur karakter á heimili og hefur m.a. lengi haft það hlutverk að fylgja börnunum á bænum í skólabílinn á morgnana og taka síðan á móti þeim seinnipartinn.



 Hér er hann áhyggjulaus í uppvextinum í Dalsmynni, grunlaus um vinsældir sínar og frægðarferil í Blöndudalnum.

  Það var hellingur eftir af Koníakinu þegar 8. hvolpurinn og 7. lifandi tíkin var komin í heiminn og ég ákvað þetta gott.



 Spáið aðeins í uppstillinguna á þeim.



 Það er svo fylgst nákvæmlega með þyngingunni og þessi ljóska þyngdist um 28 gr. síðasta sólarhring.

 Tvær óskyldar ræktunarlínur í Dalsmynni.



Og Halldór á Súluvöllum sem staðfesti pöntunina sína með eftirfarandi er vonandi í góðu máli.

Ekki verður einfalt mál að velja
einhver stjórna verður því af festu.
En auðvitað þá ætlar þú að selja
okkur þessa fallegustu og bestu.
                           
 Og úr Öxnadalnum barst pöntun.

Þar sem þú ert maður vanur,
langar mig að biðja þig.
Ef velja máski vildir Svanur,
vandlega eina fyrir mig.   

                         A.H.H. 
 

03.02.2011 10:06

Skrautlegir hvolpar.


 Já. það var vakað aðeins inn í nóttina.emoticon









emoticon   emoticon 

Myndir. Hér. 

 

Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere