24.07.2008 23:25

Skógrækt?



      Það eru fjölbreytilegt land sem lendir innan girðingarinnar. Holt, mýrarsund og fallegar brekkur sem vonandi sleppa við gróðursetningu.


     Dalsmynni sf. er með skógræktarsamning við Vesturlandsskóga og til að fullnusta hann þarf að girða af 20 ha. spildu ofan túns. Þessa dagana standa því yfir miklar girðingaframkvæmdir hjá okkur Höllu Sif. Girðingarstæðið er ekki upp á margar stjörnur, melar og mishæðir svo það verður góður dagur þegar síðasti staurinn verður kominn á sinn stað.
    Í dag byrjuðum við að draga út vírinn en þetta verður rafmagnsgirðing.

Veðrið í kvöld var svo alveg meiriháttar stafalogn og hlýtt. Mín heittelskaða gat ekki stillt sig um að koma og fylgjast með þegar ég var kominn með sláttuorfið í hendurnar að snyrta lautina, þar sem hvolparnir verða hafðir í seli næstu vikurnar. Trúlega hefur hún aldrei séð mig handleika sláttuorf fyrr.

   Nei, getur það annars verið??

22.07.2008 23:35

Glöggt er gests augað.



              Trúlega fyrsti hundurinn í heimi  sem mætti á tímabili í vinnuna með talstöð og vann eftir skipunum í gegnum hana.


 
  Erlendu gestirnir mínir í kvöld urðu nokkuð hugsi á svipinn þegar ég sagði þeim frá því að í sept. væru öll fjöll og hálendi Íslands smöluð til að ná til byggða fé , sem gengi þar sjálfala allt sumarið. Sumir spurðu hvort ekki týndist mikið yfir sumarið, en bestur var sá sem spurði hvort þetta borgaði sig???? . Ég get róað fjárbændurnar með því, að ég svaraði ekki þeirri spurningu.
  Og þeir höfðu mikinn áhuga á að vita hvað væri gert við öll hrossin sem þeir hefðu séð á tíu daga ferðalagi um landið( fengu reyndar hrossabuff í kvöldmatinn)??
  

   Það stendur að sjálfsögðu ekki á svörunum við spurningaflóðinu og jafngott að enginn innfæddur er viðstaddur.
 


21.07.2008 23:09

Jafnt á réttláta og????

     
                                              Beðið mjöltunar.                  

 Já það rigndi eldi og brennisteini yfir okkur líka sem var hið besta mál.

Áburðurinn rétt komst á rýgresið og nýræktina áður en flóðgáttir himinsins opnuðust .  Kýrnar voru svo settar inn eftir hádegið enda orðnar veðurvandar  eftir sumarið. Atli var síðan í skurðgreftri  en ég dúllaði við að koma heim mínum hluta  hrossaheysins  og náði að ljúka því fyrir mjaltir.  
  Ferðahrossin frá því um helgina voru síðan hýst í nótt  því þó ekki sé kalt í veðri báru þau sig ekki vel í úrhellinu.  
 
  Og hvolparnir mínir níu blása út, enda farnir að hakka í sig mat með móðurmjólkinni. Nú þarf að hressa upp á kynningarsíðuna fyrir þessa óseldu og verðleggja gripina í vikunni.

Já vikan fer svo annars að mestu leiti í það að hlakka til bændareiðarinnar
 á laugardaginn..                

 

 

Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere