08.02.2017 21:09

Blue og söluvísindin .


 Það eru vísindi útaf fyrir sig að velja saman Border Collie sem er taminn til sölu og kaupanda sem passar honum. 

   Þó ég sé að verða pínu glúrinn við það, ganga hlutirnir samt ekki alltaf upp.
  Þessvegna er það regla  að láta líða ákveðinn reynslutíma hjá hundi og kaupanda áður en málinu er lokað. 

  Sá tími hefur reyndar farið mest uppí 2 ár. emoticon . 

  Gerði reyndar ekkert í að loka því máli því ég trúði aldrei að það gengi upp,- sem það gerði ekki.
  Þetta var nú reyndar í upphafi söluferilsins og í dag hefði ég aldrei reynt þetta dæmi.emoticon  

  Ég hef þrisvar tekið til baka hund úr sölu tvisvar úr reynslutíma og einu sinni úr frágengnu máli. 

Mér finnst það reyndar ekkert mál, því mér líkar ekki að vita af tömdum hundi frá mér hjá eiganda sem er ósáttur við hann. 

   Síðasta dæmið er síðan í haust en þá komu upp vandamál sem voru að hluta mér að kenna. 
 Eitt af vandamálunum sem fylgja sölum á mismikið  tömdu  er ef ég fer að rembast við að kenna hundinum eitthvað sem nýtist komandi eiganda strax , enda í flestum tilvikum haustamstrið framundan. 

  Og í þessu síðasta dæmi fór ég framúr mér og tíkinni í hefðbundnu tamningarferli með ákveðna vinnu . 

  Þetta hefði getað gengið ef styttra hefði verið á milli mín og kaupanda svo ég hefði getað gripið inní ferilinn .

 Það var ekki í boði. 

 Nú er ég búinn að dúlla í endurhæfingunni og er kominn með söludýr sem ég held að sé tilbúin að takast á við flest það helsta sem  B C þarf að glíma við meðan hann er að slípast með nýjum eiganda. 

  Þar sem  engum dyrum var lokað þegar ég tók hana til baka verður trúlega reynt á ný hvernig til tekst.  




   Blue er ársgömul síðan í maí , kom seint til en hefur jafnt og þétt aukist í áliti. 
 Fyrir mér er hún draumadýr til sölu, sérlega róleg og þó áhuginn sé alveg bullandi fer hún einstaklega vel með hann. 
 
  Þrátt fyrir forsöguna myndi hún henta flestum þeirra sem ég veit um og eru að spá í tamið.  
  Margir eru eflaust forvitnir um verðið á henni en það er ekki gefið upp, - ja nema til skatts náttúrulega emoticon.. 

  Ég get þó sagt að hún fer ekki í dýrasta flokkinn sem er 400 + . 

  Hún er í verðfl. 2 sem er á bilinu 3 - 400 .000 kr + vsk. 

   Ef hún væri hinsvegar með ákveðnina hennar Bonnie systur sinnar, færi hún  vel uppí fl. 1. 
 Ákveðnin/ kjarkurinn er nefnilega mjög dýrmætur eiginleiki þegar vinnustandardinn er eins og hjá þeim systrum.

Reyndar alltaf emoticon
   Að vísu  met ég Blue þannig, ef vel tekst til hjá henni og nýjum eiganda, að kjarkurinn eigi eftir að bæta sig verulega. 
 Til þess að sannreyna það sjálfur þyrfti ég trúlega að hafa hana í svona ár í viðbót. 
 Kannski verður það raunin  ef brasið tekur sig upp aftur.emoticon 

Hér eru svo  skjáskot sem lýsa  Blue nokkuð vel í dag.  Smella hér.

06.02.2017 21:16

Fjárhundaframleiðslan.

 Ég hef skipt BC vinnuhundaræktuninni gróflega í tvo flokka þegar spáð er í stofninn. 

Þann hluta sem er skráður í ættbók SFÍ og hina sem eru utan skráningar. 

Engir fordómar  sko, en svona skoða ég þetta. 

 Held mig svo við ættbókarfært í mínum ræktunarlínum. 

 Gefur  mér aðeins meiri öryggistilfinningu að geta skoðað bakgrunninn.

 Nú er þriðji flokkurinn að bætast við, ISDS skráða ræktunin sem gefur aðeins meira öryggi gagnvart augnsjúkdómum. 

HRFí er svo til líka en vegur enn lítið hjá okkur sveitaliðinu emoticon

 Og eins og allar vita er breiddin í þessari ræktun nánast óendanleg og það á við um alla flokkana. 

 Sama á við um hvolpaverðið sem speglar vel þessa miklu breidd í gæðum og markmiðum ræktenda. 

 Verðin spanna bilið frá 0 kr. uppí um 200.000 .

  Sífellt fjölgar þó þeim ræktendum sem hafa metnað til að afhenda hvolpana skráða , örmerkta, ormahreinsaða og með fyrstu Pavró sprautuna. 
 Þar eru algengustu verðin um  75 - 100.000 + . 

 Þetta eru ákaflega lág verð fyrir velættaða hvolpa ( í alvöru emoticon  ) sem sýnir að mikið framboð og lágu verðin eru að hafa áhrif . 

Og  því miður trúlega óheppileg áhrif á metnaðarfulla ræktun.  

 Ekkert sem bendir til þess að stórar breytingar séu í augsýn einfaldlega vegna þess að kaupendahópurinn er kannski af svipaðri breidd og framleiðslan, skráð og óskráð emoticon . 

Já .  ég var nú hættur að taka þátt í þessu en suma hluti ræður maður illa við .  


      Þessir eru að komast á skemmtilega aldurinn.

  Fyrsta gotið á nýrri vegferð blæs út þessa dagana. Þetta got  sem verður afhent handvöldum kaupendum eftir 6 - 10 vikur . kemur svo til mín í frumtamningu síðla hausts og næsta vetur.

Þ.e.a.s þau þeirra sem lenda ekki hjá  fólki sem er fært um að temja sjálft. 
  
Eitt - tvö  þeirra verða að vísu ekki afhent fyrr en fulltamin.  

  Semsagt öllu ráðstafað og kominn af stað biðlisti fyrir næsta got  sem gæti orðið í júní. 
 Það verður enn meira spennandi en þetta, afhent með sömu skilmálum, mánaðartamningu, leiðbeiningum og dagsnámskeiði ásamt  skilarétti til ársaldurs.

 Spennandi að vita hvernig þetta gengur upp emoticon .

 

29.01.2017 20:05

Tamningaaðstaðan ??

  Breytileiki unghunda í upphafi tamningar á sér lítil takmörk. 

Engir tveir eins.

  Spanna bilið frá því að ráðast á hópinn og sprengja allt í loft upp og í að   hringfara kindurnar í góðri vinnufjarlægð og leggjast svo þegar hópurinn er milli þeirra og smalans. 

  Sumir sjá að vísu ekki kindurnar en það er önnur saga. 

  Það þýðingamesta í upphafi finnst mér að hafa í vinnu þjálar / tamdar kindur, tvær til þrjár duga þessvegna fyrstu tímana. 

  Það flýtir alveg ótrúlega fyrir og auðveldar allt.

   Ef nemandinn er kjarkaður og ákveðinn minnkar þörfin fyrir tamdar kindur  en mér finnst samt alltaf gott að sleppa við átök milli hvolps og kinda til að byrja með. 

  No. 2 er síðan gerði eða hólf sem heldur utanum það sem verið er að gera ef eitthvað kemur uppá . 
 Þá er verulegur kostur ef aðstaðan er hringlaga eða hornin tekin af með einhverjum hætti. 
 

   Rúmgott gerði með rúnnuðum hornum nýtist vel fyrstu vikuna .

  Aðstaða í líkingu við þetta er því þýðingameiri sem vandamálin eru fleiri í upphafi. 

   Um leið og komin er festa í tamninguna, unghundurinn  hringfer hópinn og heldur honum að smalanum, finnst mér alltaf best að komast út með framhaldið. 

  Helst þar sem er nóg rými, engar girðingar, skurðir eða hús að trufla vinnuna.  Þar er ágætt að koma upp litlu hólfi sem nýtist þegar tekin er kaffipása eða til að kenna að reka inn í á síðari stigum.


  Fjölnota grindur sem nýtast í allskonar fjárragi, á sauðburði, að koma fé á kerru  o.sv.frv.

  Tamningin snýst um það að kenna hvolpinum að bregðast við skipunum . 
  Í flestum tilvikum þarf svo að kenna honum ýmis  vinnubrögð. 
 Ýmist hvernig hann á að gera hlutina  eða hvað hann á alls ekki að gera.

Því betri sem aðstaðan er verður þetta fljótlegra og auðveldara.

 Þar sem ég er orðinn gamall og enn latari en áður, hef ég reynt að bæta inn í aðstöðuna hjá mér einhverju sem flýtir ferlinu  svo tamningin geti liðið áfram sem fyrirhafnaminnst og hljóðlegast. 
( Leti er stórlega vanmetin til margskonar hagræðingar ) emoticon


  
 Þessi litli hringur var upphaflega til þess að setja kindur inn í og láta hundinn vinna fyrir utan. 
 
Ég setti nú ekki kindur nema einu sinni þarna inn. 

   Hinsvegar nota ég hringinn mikið í einstökum tilvikum. T.d. ef mér gengur illa að fá hvolpinn til að fara framfyrir, af stað hringinn í hliðarskipunum, eða skæruliðaáráttan er í miklum hæðum. 


      Eina skiptið sem kindur voru settar í hringinn.

  Inniaðstaðan er ekki mjög rúmgóð og þar finnst mér skipta verulegu máli að hafa hringinn til að vinna í kringum.


 En þegar stórbokki eins og þessi snilli var taminn, var samt eins gott að hafa hátt til lofts og vítt til veggja.emoticon

  

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere