17.02.2009 09:16

Flatgryfja í fjárhús á Brjánslæk.


  Það var fyrir nokkrum árum sem Halldóra  og  Jóhann Pétur útlistuðu fyrir mér fyrirhugaðar breytingar á stórri flatgryfju sem breyta átti í fjárhús.

 Nú var framkvæmdin tekin út.




 Útveggir og milliveggur höfðu verið steypt í um 2.60 m.hæð og stálgrind og járn ofaná í 5 m. vegghæð.
 Til að fá næga lofthæð var milliveggurinn lækkaður um 45 cm. síðan var bætt við burðarbitum sitt hvoru megin við hann. Gólfið er síðan forsteyptar einingar.
 Milligerðirð eru úr nótuðum plastborðum. Þetta er þrælsterkt efni sem þolir vel talsvert bil milli stoða.



  Loftið er einangrað með einangrun frá Jötun Vélum. Sama efni og þeir bjóða upp á með stálgrindahúsunum sem fyrirtækið flytur inn.
  Það á eftir að opna mæninn og setja loftræstiop á hliðarveggi með vindneti.



 Þilplöturnar eru einnig frá Jötun Vélum. Þetta er þrælsterkt plastefni og hér er búið að skipta plötunni í tvennt.



  En það voru gjafagrindurnar sem ég hafði mestan áhuga á. Þær eru smíðaðar af  þeim nöfnunum á Brjánslæk og Laxárdal í Bæjarhr. og eru algjör snilld.
   Hér er rúllan hálfnuð og búið að færa upp efra jötubandið.



  Hér sést einföld og góð lausn á stillingunni á jötubandinu og frágangurinn á brautinni fyrir hliðargrindina.



 Það eru göngudyr inn í gjafagrindina og hér sýnir félagi Ágúst, hvernig þetta virkar.
Það er allt rafsoðið í göflunum sem hægt er, og þetta var ótrúlega stabílt.



  Einfalt þægilegt og öruggt.



  Hér bíða burðarstíurnar vorsins óþreyjufullar. Brynningin er í röri með veggnum.



  Þessi græja sér um að skila rúllunum á sinn stað.


 Fjöllin vestra eru stundum fastheldin á fé og þessir bræður eru tiltölulega nýkomnir á hús eftir fjarveru síðan vorið 2006 ( 2007, sjá athugasemd), þegar þeim var sleppt nokkurra vikna gömlum.



  Þetta hörku smalagengi samanstendur af Fiðlu frá Eyrarlandi, Skrám frá Dalsmynni og Jóhanni Pétri frá Borgarnesi. Það vantar Halldóru á myndina en hún stjórnar þessu öllu saman.



 Eftir mikla leit fannst svo ein með handföng í húsunum.

 Já,ekki er  hægt að segja annað en þetta hafi tekist býsna vel hjá þeim Brjánslækjarbændum.

  Það eru svo fleiri myndir inni á albúmi.

15.02.2009 21:47

Blótið og Barðaströndin.



  Mér var allavega bent þrisvar á það í gær að " Barðaströndin" næði nú hreint ekki yfir Barðastrandasýslurnar.

   Hún næði nú ekki svo mikið austurfyrir Brjánslæk og væri t.d.Flókalundur austan hennar.
Mér hefur trúlega orðið það á einhverntímann, gegn betri vitund að nefna ströndina og eitthvað í austursýslunni í sömu andránni og það hefur geymst en ekki gleymst.


                              Seftjörn nær. Brjánslækur fjær. Séð frá höfninni.

  Gestrisnin á " Læk " fer síst minnkandi og þorrablótið á Birkimel var alveg meirháttar.
Það var kominn hópur að húsinu áður en það var opnað kl. 8 og  flest sæti skipuð, vel fyrir 1/2 níu
þó blótið byrjaði ekki fyrr en níu.

  Þetta litla og skemmtilega hús var troðfullt.  Það var nýmæli fyrir mig og mína að þarna voru matartrog á öllum borðum og engar biðraðir eða troðningar til að ná sér í næringuna.

 Það var ekki leiðinlegt fyrir okkur Jóhann Pétur að sitja með hrokað trogið fyrir framan okkur stútfullt af kræsingum.
  Reyndar átti ég stundum erfitt, með mína heittelskuðu á vinstri hlið og Jóa við þá hægri. Þau hökkuðu nefnilega í sig hákarlinn eins og þeim væri borgað fyrir það, og varð mér stundum erfitt um andardráttinn sérstaklega þegar þau ræddu málin, fyrir framan nefið á mér.

  Skemmtiatriðin voru ýmist frábær, eða algjörlega frábær. Sum voru kannski ljósblá, já eða dökkblá en þegar salurinn emjaði úr hlátri var ekki leiðinlegt.
  Ef ég var að skilja hlutina rétt, er ströndinni skipt upp í þrjú svæði og sér hvert svæði um blótið þriðja hvert ár. Mér sýndist koma skemmtiatriði frá öllum þeim bæjum sem sáu um þetta núna. Óþarft er að taka fram að atriðið þar sem bæði nafnið mitt kom fram og mynd úr heimasíðunni minni var eitt af þeim betri. Þrátt fyrir groddavatnsmerki á öllum myndum hér  og ströngum viðurlögum hótað við notkun síðuefnis  var þarna mynd sem tekist hafði að fjarlægja vatnsmerkið af. Þetta sýnir náttúrulega afar öflugan og einbeittan brotavilja, enda fannst mér eins og ég væri á heimaslóðum, vellíðanin margfaldaðist og helv. hákarlinn gleymdist ( næstum) alveg. Skemmtilegt þetta þorrablótaáreiti við mig óverðugan.

  Brjánslækjarbændur höfðu að sjálfsögðu gætt þess að leiða gesti sína að borði sem ekki var fjarlægt að loknum skemmtiatriðum. Ekki var nóg með það, heldur varð trogið okkar Jóa ekki frá okkur tekið og þegar líða tók á nóttina jukust vinsældir borðsins í samræmi við endurheimt magamál  blótsgesta.

  Flóabáturinn Baldur lá síðan við festar í Brjánslækjarhöfn um nóttina því flestir í áhöfninni sóttu blótið. Þetta þýddi hinsvegar eina og hálfa ferð fyrir þá í dag og það, að við komumst heim um miðjan dag í stað þessi að lenda í Hólminum um níuleytið í kvöld.


Meiriháttar.emoticon

r

 

13.02.2009 09:38

Að þreyja þorrann.

 

   Þorrinn fer oft mjúkum höndum um undirritaðan.  Þetta er tími rólegheitanna eftir erilsamt sumar og haust. Hækkandi sólin fer ákaflega vel í mann, stillurnar undanfarið líka. Á þessum tíma leggur maður mat á kalhættuna í túnunum og ef engin svellalög eru á þessum tíma verður kalhættan lítil eða engin þetta árið. Nú er útlitið mjög gott hvað þetta varðar og jörðin klakalítil til að kæta mann enn frekar.

   Einhverra hluta vegna hef ég oft undir höndum fjárhundsefni sem þarfnast kennslu og er svo nú.



   Þessar verða í námi í vetur. Snilld frá Dýrfinnustöðum( eins og hálfs árs) nær og Dáð frá Móskógum
 ( 8 mán ) fjær. Byrjendum í tamningum er bent á upplýsingarsafnið hægra megin á forsíðunni hér. Þar er síða  " Hundatamningar," þar sem hægt er að fylgjast með tamningunni á Dáð, í máli og myndum.


 Ef veður leyfir er gjarnan tekinn tími í það á þessum tíma og frameftir apríl. Síðan er frí í hundatamningum fram í júlí.
 
  Langþráður gripabíll kom svo hér í gær og tók með sér 6 fullorðna gripi og 8 smákálfa.
Það er SKVH sem sér um þessa hlið rekstrarins og hafa þessi viðskipti gengið ákaflega vel, þar  til í vetur að allt í einu var gamla biðlistakerfið komið á, undirrituðum til mikillar skelfingar.
  Nú eru þeir farnir að úrbeina og vinna þetta sjálfir að hluta. Það er síðan að skila sér í aukinni afsetningu og jákvæðari bændum.



  Já, svo verður þorrinn blótaður hraustlega á laugardagskvöldið. emoticon





 

Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere