04.09.2011 09:06

Landnámshænueigendur athugið.

 Nú er Landnámshænan inni sem aldrei fyrr og enginn dreifbýlisbúi maður með mönnum nema það séu nokkrar krafsandi hænur undir húsveggnum nú eða í blómabeðinu.

 Til þess að fá hárrétt bragð af eggjunum þarf að sjálfsögðu að vera hani í hópnum, og það getur líka komið sér betur ef fjölga á í stofninum með eigin framleiðslu.



 Eins og í annarri ræktun verða menn að gæta að skyldleikaræktun og reyndar fjölmargs annars.

En eins og allir ættu að vita er fjölbreytnin í hanastofninum með ólíkindum. Ekki er nóg með að litadýrðin sé óendanleg, heldur eru hanarnir misblíðlyndir, þörfin fyrir að tjá sig á óguðlegum tíma misjöfn og svona mætti lengi telja.



 Nú vill svo heppilega til að yngri húsfreyjan í Dalsmynni er öflugur Landnámshænuræktandi og nú um stundir býr hún ákaflega vel að þrautræktuðum hönum sem er lausir við næstum alla þá ókosti sem þekkjast hjá hönum.



 Það er því rétt að benda þeim á sem glíma við   skyldleikaræktun, geðvonsku, hávaðamengun eða ömurlega liti á hananum, að núna er akkúrat tækifærið til að endurnýja hanann sinn. 



Margir hananna eru svo orðnir prýðilega hundvanir í þokkabót sem er ekki lítils virði.



 Þessi er fiðraður fram á fingurgóma sem er sjaldgæfur og dýrmætur eiginleiki og með rósakamb í þokkabót.



 Þetta einstaka eintak þarf ekki að hafa mörg orð um, meira að segja næstum blíðlegur til augnanna.


 Og það er hún Guðný Linda Gísladóttir sem svarar fyrir ræktunina og afsláttarverðin sem eru í gangi akkúrat núna. s.8956380. eða  
atlisveinn@vortex.is

 Fésbókarar sem kíkja hér inn eru hvattir til að like á þetta hér á blogginu, svo þeir séu nú einu sinni með eitthvað bitastætt á statusnum.

02.09.2011 18:45

Á ferð um Dali og Inndjúp.

 Það var rennt heimundir Skjaldfönn og skaflinn í hlíðinni ofan bæjar var nú snöggtum minni en þegar ég kom þarna fyrir nokkrum árum.
 Efast þó um að hann taki upp þetta sumarið.



 Greinilega renna margir þarna heim að túnhliðinu og þessar upplýsingar til ferðalanga eru tær snilld.



  Ömmustelpunni fannst kjarrið í Langadalnum heldur ógreitt yfirferðar og var ekki ein um það álit.
Afanum þóti það hinsvegar umhugsunarefni að í þessum algróna fallega dal suðurfrá Ísafirðinum sást ekki ein einasta kind. ( Soldill sauður alltaf kallinn.)



Hér er verið að taka smárölt á öllu greiðfærara svæði við Arngerðareyri. Það er mikil marglyttumergð við höfnina þar, og hér var verið að kanna afföllin í fjöruborðinu.



Og þetta fallega gil í Svínadalnum trúlega nærri gangnamörkum þeirra Saurbæinga og Hvammverja í dölum vestur mun samkvæmt mjög trúverðugum upplýsingum heita Drífandagil.



 Farastjóri ferðarinnar  er hér að drepa tímann meðan beðið er kvöldverðar.



 Nú bíður hún næsta sumars með frekari útilegur ásamt tryggum þjónum sínum.

 

29.08.2011 22:53

Rollusmölun , landskeppni, varðeldur eða brenna?

 Þetta árið var Landskeppnin haldin austur á Fljótsdal, að Eyrarlandi.

  Það er keppt í þremur flokkum A fl. fyrir reynsluboltana þ.e. hunda sem hafa keppt áður og hlotið yfir 50 stig í keppni.
  B. fl. er fyrir byrjendurna og reynsluminni hundana og svo er unghundaflokkurinn fyrir hunda undir 3 ára aldri.


 Hér er Calvin dómar ( frá Wales) að brjóta niður keppendurna fyrir lélega frammistöðu.

 Það voru mættir yfir 20 hundar og eigendur þeirra víðsvegar af landinu til að spreyta sig, ræða málin og hafa gaman af tilverunni. Og veðrið lék við okkur þarna í Fljótsdalnum.



 Ég mætti þarna með Tinna og Dáð, Tinna í unghundana og eftir talsverða íhugun ákvað ég að skella Dáð í úlfahópinn í A flokknum þrátt fyrir að hún væri rétt orðin 3 ára og ætti keppnisrétt í b.fl.



 Ég tók hreppstjóra þeirra vina minna á Austurbakkanum með austur, ásamt búrtíkum sínum tveim þó ég treysti þeim austurbakkamönnum illa til þess að vera hreppstjóralausir alla helgina.
 Hér fyrir ofan er hann að segja Fíu sinni að standa sig nú í unghundarennslinu fyrri daginn sem hún gerði.
Því miður gleymdi hann að segja henni það í rennslinu daginn eftir.



 Hér er Jón Geir mættur úr Skaftártungunni í fyrstu keppnina sína og er að segja Snúð hvernig eigi að gera þetta. Eins og þið sjáið er Snúður náttúrulega ekkert að hlusta  hann.


 Hér er hann Krati frá Dýrfinnustöðum sem ég rakst á þarna á röltinu. Hann er undan Asa frá Dalsmynni og þess vegna sérlega sterklega byggður og greindarlegur til augnanna. Og hann verður örugglega aldrei sárfættur.
Hann er svo heppinn að búa í Jökuldalnum sem er tímalaus veröld eftir að jökuldælir uppgötvuðu  að alltaf kæmi nýr tími á eftir þeim sem er að líða.


 Welski dómarinn og formaður íslenskra smalahundaeigenda, Sverrir á Ytra Lóni eru svo örugglega að ræða um hunda og tamningar.



 Á laugardagskvöldinu var grillveisla, " varðeldur" fjöldasöngur og nefndu það bara. Hér er slökkvistjóri þeirra Grundfirðinga að staðfesta það, að þetta sé " varðeldur ", en að vísu í stærra lagi.
 Munurinn á varðeldi og brennu er sá að brennuleyfi kostar fullt af peningum og stimpla frá aragrúa möppudýra ( og náttúrulega slökkvistjóra.) Varðeldur kostar ekkert.



 Tjaldið var þéttsetið og hér eru næst, Miðhúsabændur af ströndum vestur. Guðmundur mætti hundlaus í þetta sinn og það fór honum náttúrulega ekki vel.



 Varsi á Eyrarlandi og hans fólk var búið að leggja mikið á sig til að gera þessi keppnisdaga jafn frábæra og raun bar vitni en það þarf til dæmis 70 - 80 kindur fyrir  20   hunda keppni fyrir utan allt annað umstang í kringum þetta. Glæsilegt hjá þeim í Austurlandsdeildinni.



 Hér erum við Tinni svo að leggja af stað heimleiðis þennan 650 km. spotta sem var tekinn í beit  með 20 mín. áningu og hundapissi efst í Öxnadalnum.



 Dáð var í 5 sætinu af 10 hundum á A fl. með 130 st. sem var fínt og gefur auðvitað sterka vísbendingu um það hvílíkir afbragðshundar voru þarna á ferðinni( þ.e.a.s þessir 4). Tinni minn frá Staðarhúsum marði síðan unghundaflokkinn með 127 stig.
Það stóð tæpt því Alli á Húsatóftum með Kríu sína var með sama stigafjölda.

 Dómarinn ákvað að láta fyrstu 3 þrautirnar í brautinn ráða röðun og fyrst það dugði okkur Tinna til sigurs finnst mér að það hafi verið skynsamleg ákvörðun hjá honum.

 Aldrei að deila við dómarann.

Allt um úrslitin hér.
http://smalahundur.123.is/blog/
Flettingar í dag: 252
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 435887
Samtals gestir: 40229
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 03:09:46
clockhere