26.06.2008 00:33

Þurrkurinn,landvættir og sauðfjárrækt.


  Það var þessi fíni þurrkur í allan dag. Það tók hinsvegar verulega á taugarnar að það voru hellidembur bæði fyrir sunnan mig og vestan. Ég hafði mun meiri áhyggjur af skúrunum fyrir sunnan mig enda nálguðust þeir stundum ískyggilega Vesturbakkann.
  Landvættir okkar vesturbakkamanna hafa trúlega haldið hlífiskildi yfir okkur Jóni í Kolviðarnesi sem átti mun meira undir en ég. Spurning hvort hægt væri að fá þá
( landvættina) til að verja Vesturbakkann fyrir rollum þeirra Austurbakkamanna sem eru hér til óþurftar á ökrum og túnum . Þessar rollur eru örugglega sér ræktunarlína  með mjög öflugan þrjóskuglampa í augum og þær sem best hefur tekist til með, koma alls ekki til byggða í hefðbundnum leitum heldur  er verið að tína þær  niður fram eftir vetri. Já þeir eru ótrúlega lunknir í fjárræktinni vinir mínir á Austurbakkanum .
 Við Halla Sif fórum síðan í verslunarleiðangur í Borgó því Aðalstjórinn hér er farin í fimm daga gönguferð um Lónsöræfi og geri aðrir/ar betur .Þetta er trúlega hennar sleppitúr. Enda var verslað vel inn því nú er dekurvika framundan .

  Og er svo ekki einhversstaðar landsmót í framhaldinu??
 

24.06.2008 23:22

Sláttur og stóðhestar.

                         Funi Parkersson er tveggja vetra.


  Sláttuvélarnar voru teknar fram í dag og rifnir niður 12 ha. sem er næstum því restin af fyrri slætti fyrir kýrnar.  Það hefði ekki mátt dragast lengur að slá það. Restin er 7 ha. vallarfoxtún sem er ekki komið að skriði enn. Það verður ekki slegið aftur og fær því að bíða í lengstu lög.
    Það stóðst á endum þegar slætti lauk um tvö leitið gerði þvílíkt skýfall/haglél  að annað eins hefur ekki sést hér í óratíma. Gamli veðurspámaðurinn stóð bara og gapti í forundran. Látum vera að veðurfræðingar spái tómu rugli en að ég sæi þetta ekki fyrir er ófyrirgefanlegt. Það var hinsvegar betra að fá ofaní nýslegið en fullþurrt og rúllunin á fimmtudag stendur óhögguð.
 Það var síðan farið með Funa í girðingu að Minni Borg þar sem hann verður í sumar.
Hann er orðinn eins og fjögurra v. hestur að stærð og var alveg rosalegur þegar hann óð í kringum merarnar,  alveg með réttu taktana.
 
  Nú þegar mesta stressinu er að ljúka, verður hægt að fara að sinna hestum og hundum af einhverju viti.

Eins og ágætur granni minn segir," skipuleggja nú hlutina Svanur minn".
 

23.06.2008 21:07

Grenjavinnslan.

 
      Halla Sif enn lítil og saklaus og gamli Remingtoninn enn í notkun. Maður hitti nú oftast  í öðruhverju skoti. Já mikið er langt síðan.
 Þegar ég byrjaði í grenjavinnslunni var vetrarveiðin stunduð grimmt. Þá var veiðin fín og uppí 4 st. lágu eftir nóttina. Nú er maður góður að hafa eitt dýr eftir 4 nætur.


Við reyndum að fara eins hljóðlega og mögulegt var síðustu metrana upp brekkuna að hraundranginum en þaðan sást á grenið sem var í 200 m. fjarlægð. Ég bölvaði fuglunum í huganum sem sveimuðu yfir okkur með aðvörunarhljóðum rétt eins og þeir væru í liði með rebbunum. Það er gott að hafa þá í eftirlitinu þegar legið er á greni en þær eru orðnar þó nokkrar tófurnar sem hafa sloppið  vegnaþessara aðvarana þeirra um að eitthvað varhugavert sé á ferðinni. Grenið var aðeins inni í hraunkantinum og sást raunar ekki í munnana sjálfa. Þarna er læðan og hún veit af okkur hvíslaði sá yngri, og eitthvað af hvolpum líka. Hún hafði greinilega tekið mark á fuglunum og hvarf öðru hvoru en kom alltaf aftur í ljós og leit ákveðið í áttina til okkar. 200 m færi er langt fyrir sveitamennina sem eru aðeins að skjóta nokkrum tugum skota á ári.  40 metrum nær greninu var hæð sem ég leiðsagaði Atla  að, þegar lágfóta lét sig hverfa. Og færið slapp til.
 Við skiptum okkur og hófum svo biðina eftir rebba. Reyndar höfðu fallið í valinn 2 refir af þessu svæði snemma í vor en beðið skyldi samt. Um miðnætti kom demba og í framhaldin dropaði á okkur til kl 3.Og okkur varð kalt að liggja rótlausir í vikrinum þar sem minnsta hreyfing  framkallaði það sem okkur fannst yfirþyrmandi hávaði. Það er á slíkum nóttum sem maður veltir því fyrir sér hvern djö. maður sé eiginlega að gera í þessu djobbi? Uppúr kl  3 færði ég mig til  Atla og við íhuguðum hversu lengi skyldi liggja þarna. Það var ákveðið að þrauka sem lengst og um fjögurleitið sáum við útundan okkur hvar Móri kom með hraunkantinum undan vindi aftan/ til hliðar við okkur og skellti sér inní hraunsprungu sem lá að greninu. Þar kom hann í ljós og þaut þar fram og aftur í sporunum okkar frá því fyrr um kvöldið svo krókloppnir bændurnir áttu fullt í fangi með að ná honum í kíkinn á rifflunum. Það tókst samt. Og fimm hvolparnir náðust næstu tvær næturnar.

  Í Eyja - og Miklaholtshreppnum eru þekkt um 70 gren. Í vor var einungis ábúð á þremur og hefur ekki verið svo slakt ástandið svo lengi sem elstu menn muna. Það er síðan a.m.k. eitt óþekkt gren í gangi núna ,kannski fleiri. Níu " hlaupadýr " hafa fallið í valinn í vetur og vor sem mér er kunnugt um(og eitt hross) . Og vitað er um nokkur dýr, trúlega gelddýr sem hugsanlega eru í hættu í bjartri sumarnóttinni.

   Þeir eru til sem ætla alveg að ærast ef tófa sést á hlaupum en ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að markmiðið sé það að halda fjöldanum hæfilegum svo ekki sjái verulega á mófuglinum. Meira um það síðar.
Flettingar í dag: 730
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579423
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:48:38
clockhere