19.10.2009 22:59

Kúablogg októbermánaðar.

 Nú fer í hönd aðalburðarhrinan í Dalsmynnisfjósinu.

 Hún Rúrý Fontsdóttir sem opnaði á þessa lotu í síðustu viku var að eiga fyrsta kálfinn sinn. Þetta var afturfótafæðing og kálfurinn andvana fæddur. Sem betur fer eru dauðfæddir kálfar undantekningar hér.

 Randalín frá Álftavatni kom svo með kvígu ( Kappadóttur ) í þetta sinn, til mikillar ánægju fyrir aðalfjósafólkið.


 Júgrið á Randalín er svona týpískt íslenskt, en úr því eru samt að flæða um 9000 l. á mjaltaskeiði.

 Vanja Vöndu/Hræsingsdóttir bar í nótt stóru skjöldóttu nauti sem er hennar fyrsti kálfur og það var ennfremur fyrsti kálfurinn sem hún Tina hin sænska tekur á móti, og svo rekur hver aðra þar til 15 til viðbótar eiga að vera bornar fyrir áttunda nóv. Það eru 6 fyrsta kálfs kvígur í þeim hóp.




 Nú eru til nægar birgðir af hálmi til að láta kálfum og kindum líða vel í vetur. Það er að segja ef Söðulsholtsbóndinn  verður ekki búinn að breyta honum í gull og gersemar fyrr en varir. Hann hefur mjög einbeittan brotavilja í þeim efnum.

 Ófengnar og fengnar kvígur sem enn eru úti, verða teknar inn um leið og þær hafa lokið við síðustu rúlluna sem gæti orðið á morgun.

 Annars er bara allt á góðu róli í fjósinu og árlegt júgurbólgufár sem brast yfirleitt  á um það leiti sem kýrnar voru teknar inn kom ekki við þetta haustið.

 Einangrun og klæðning utan á veggina hefur síðan ótvírætt góð áhrif á andrúmsloftið sem var nú reyndar ágætt fyrir.



 Alla jafna er þetta svo ákaflega stresslaus vinnustaður og bændurnir löngu búnir að gefast uppá því að kenna kúnum að sýna af sér röskleika við að koma sér í og úr mjaltabásnum.

 Enda hárrétt hjá þeim að flas er ekki til fagnaðar.emoticon 

  



 

17.10.2009 21:59

Tvöföld veisla.

  Það var tvöföld veisla hjá Jóni Bjarna og Önnu Dóru á Bergi í dag.

 Annars vegar vel útilátin matarveisla. og hinsvegar algjör hrútaveisla með héraðsýningu á lambhrútum vestan girðingar.




 Þarna var boðið uppá alvöru sveitakaffihlaðborð og svo kjötsúpu. Allt að hætti Jóns Bjarna. (Að hans sögn.)

 Það verður síðan að viðurkennast að ræktunin er bara í góðu lagi vestan girðingar og óþarfi að keyra norður á Raufahöfn til að kaupa góðan lambhrút.


 
Hér er verið að raða upp hyrndu hrútunum og eru þeir hæst metnu næstir.
 
 Það var erfitt fyrir dómarana að lenda dómunum og neyddist ég til að yfirgefa svæðið áður en úrslitin lágu fyrir.
 Svo missti ég líka af lambauppboðinu. en þarna átti að bjóða upp bæði gimbrar og hrúta að lokinni sýningu.


 Aðstaðan í reiðhöllinni á Bergi var virkilega fín fyrir þetta og létt yfir mannskapnum.



 Hér er svo verið að raða upp mislitu hrútunum sem voru hver öðrum álitlegri.



 Hér er svo formaður Sauðfjárræktarfélagins Búa með viðeigandi höfuðfat í tilefni dagsins.
 Mér skildist að til stæði að bjóða það svo upp að lokum til fjáröflunar fyrir félagið.

 Nú er búið að opna fyrir sölu á sauðfé suðurfyrir girðingu svo það er bara að sækja um leyfi til hrútakaupa í tíma næsta sumar.


 Kannski verður girðingin bara opin aftur næsta sumar, svo rollurnar geti séð um milliferðirnar sjálfar.

 Allt nánar um sýninguna með því að smella hér. Suðfjárræktarfélag Helgafellsveitar og nágrennis  eða hér. Búi fjárræktarfélag




16.10.2009 21:59

Að sofa eins og ungabarn, í kreppunni.

 Já, kreppan hefur margvísleg áhrif á hann sagði mín heittelskaða við afgreiðslumanninn í Húsasmiðjunni.
 Hann sefur meira að segja eins og ungabarn, bætti hún við.

 Þegar afgreiðslumaðurinn leit á hana spurnaraugum sagði hún með útskýringartón í röddinni.

 Hann sefur dálítið óreglulega, hrekkur upp, grætur pínulítið og sofnar svo aftur.

 Umræðuefnið sem stóð við hliðina á þeim og hafði það eitt til saka unnið að hafa tuðað lítilsháttar um eitthvað smálegt eins og uppstillingar á jólaskrauti, blandaði sér ekkert í þessa umræðu.

 Þó dagurinn hefði ekki verið alslæmur varð samt sitthvað til að ergja mig.

 Sölumaðurinn hjá BM Vallá hafði hringt í mig um morguninn og sagt mér að plöturnar og vindhlífarnar væru tilbúnar. Þetta voru góðar fréttir með vindhlífarnar en verri með litaða bárujárnið.

 Daginn áður þegar bráðvantaði 2 litaðar bárujárnsplötur til að ljúka fjósklæðningunni var mér sagt að þær væru ekki til og ekki væntanlegar næstu dagana/vikurnar. Sölumaðurinn sagði mér þó, að kannski væri til afgangur á rúllu og þá yrði hægt að bjarga þessu. Ég skal gá að þessu og láta þig vita bætti hann við.

 Þegar kom fram á daginn og ekkert heyrðist úr Borgó var farið í að redda þessu með öðrum hætti sem tókst.

 Þegar ég hafði svo sótt vindhlífarnar leist mér ekkert á það sem ég sá, en hafði engin orð um það, þar sem ég gat engum kennt um nema sjálfum mér að hafa ekki ígrundað þá smíði aðeins betur.

 Plöturnar tók ég hinsvegar ekki og á eftir að leysa það mál við sölumanninn.



   Smiðirnir sem höfðu laumast til mín úr öðru verki, svo klæðningin kæmist á fyrir veturinn, eru svo hættir í bili, enda skortur á efni til að ljúka við þakkantana.

Ég var búinn að gleyma amstrinu og vandamálunum sem fylgja framkvæmdum, hversu litlar sem þær eru. emoticon

En eins og allir með góða samvisku sef ég eins og steinn, (ekki eins og ungabarn).emoticon

 

Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere