Færslur: 2012 Júní

28.06.2012 21:38

Stokkönd í kröppum dans.

Raksturinn gekk vel á skárunum sem höfðu legið óhreyfðir í rúman sólarhring í brakandi þurrkinum.

 Ég hafði kvöldsólina í augun þegar alltíeinu flaug önd uppúr flekknum rétt framan við vélina og af einhverri rælni stoppaði ég.

 Um 30 cm. til hliðar við dráttarvélina horfði ég niður á 8 egg sem lágu í skáranum í snotru hreiðri sem var þó nánast án fiðurs.

 Hér 2 dögum seinna og orðin nokkuð örugg með sig eftir stöðugt ónæði.

 Ég nuddaði augun horfði á hreiðrið, svo á öndina sem var sest í 30 m. fjarlægð og virti þetta véladót fyrir sér trúlega með nokkurri skelfingu.

 Eftir að hafa velt þessu fyrir mér fram og til baka komst ég að þeirri niðurstöðu að hún hefði legið á hreiðri sem hefði verið svo lágt í túninu að eggin hefðu sloppið við að brotna þegar sláttuvélin fór yfir þau.. Öndin hefði síðan fært þau upp í heyið og talið sig vera í góðum málum þegar þessi ógæfa helltist yfir hana á ný.

 Ég skildi eftir smá " lóð " fyrir hana þó hún yrði trúlega nokkuð berskjölduð fyrir hrafninum , allavega ef ungar kæmust upp.

 Nú er búið að rúlla, plasta, fara um og hnýta lausu endana með alla hunda heimilsins meðferðis og væntanlega verða svo rúllurnar fjarlægðar á morgun.

Þá verður friður allavega af mannavöldum meðan hreiðurbúskapur varir.

Ég skaust svo í kvöld til að heilsa uppá dömuna því kannski er þetta stokköndin mín af tjörninni sem forðar sér alltaf eitthvað afsíðis til útungunar.

 
 Hún var nú á vappi út á túni að næra sig svo ég kíkti beint á hreiðrið.



 Svona hafði hún gengið frá því eða eins og segir í ljóðinu. " labbað út og lokað á eftir sér."



 Það er nokkuð ljóst að hún ætlar ekki að splæsa meira fiðri í hreiðurgerð þetta árið enda vonandi að  afkvæmin brjótist út fljótlega.

Þá bíður þeirra harður heimur fullur af illfyglum,  byssumönnum og nefndu það bara.

25.06.2012 22:47

Atvinnuumsóknir að Bessastöðum.

 Það er laus staða á Bessastöðum og þó að ekki séu nema 6 umsækjendur er í gangi hin líflegasta umræða í og utan netheima.

 Mér hefur alltaf þótt hundleiðinlegt að þurfa að koma að mannaráðningum en þar sem  staðan í málinu er  áhugaverð hef ég reynt að setja mig inn í það.

 Reynslubolti í málaflokknum hefur reyndar sett upp flokkunarkerfi til að auðvelda mönnum ákvarðanir og eru aðalflokkarnir 3.

Puntudúkkuflokkur, bókabéusarflokkur og leiðandi leiðtogaflokkur.

Þar sem " ruslflokkarnir " vísa til fyrri starfsmanna en  sá síðastnefndi til ýmissa nýjunga og
" betrumbóta" á djobbinu hef ég velt honum dálítið fyrir mér. Sem dæmi hefur verið nefnt að komi á borð Bessastaðabóndans einhver "  stórmál " sem " þjóðin " þurfi að segja  álit sitt á sé í stærstu tilvikunum rétt að hann myndi sér skoðun á því og upplýsi " þjóðina " um hvernig með skuli fara í kjörklefanum. Hans skoðun er náttúrulega sú rétta " enda kosinn af fólkinu í landinu" og því öruggast að nota embættið og aðgang þess að fjölmiðlum til að leiða " þjóðina" rétta leið á freðmýrargöngu sinni.

Sem dæmi hefur verið  tekið að komi til kosninga um inngöngu " þjóðarinnar" í ESB sem gera má ráð fyrir að verði framkvæmd af og til næstu áratugina og bóndinn á Bessastöðum sé algjörlega sannfærður um það að " þjóðinni" sé best borgið með tafarlausri inngöngu beri honum að veita málinu brautargengi eins og vit og þrek leyfi.

 Í litlu málunum eigi bústjórinn hinsvegar að halda sér til hlés og láta þjóðina um gerninginn.
svo sem eins og ef þjóðin vildi segja forseta sínum á miðju kjörtímabili að nú megi hann alveg hætta ef hann vilji. 

Já ég hef því legið yfir málinu vikum saman , skoðað hvort umsækjendur séu nú í heppilegri  sambúð nú eða án sambúðar, hvort börn gætu orðið til vandræða á sveitarsetrinu, kafað djúpt ofaní eldgamlar fjölskylduerjur og nefndu það bara.

 Þá hef ég eytt drjúgum tíma í að lesa blogg ýmiskonar, statusa og komment, mismunandi tilfinningarrík .

 Reyndar hef  ég við þann lestur fyllst áhyggjum af því hversu algengt virðist að fjölmargt fólk hafi gleymt að taka lyfin sín dögum saman áður en það settist við skriftir en kannski er hátt lyfjaverð bara skýringin á því.

 Ég hef velt fyrir mér hvort nokkur hætta sé á því að athyglissýki einhverra í hópnum gæti leitt til óheppilegra yfirlýsinga af einhverju tagi kæmust þeir í bústjórastólinn. Alltaf jafnleiðinlegt að hlusta á pólitíkusana eyðileggja fréttatímana með útúrsnúningum eða lygavæli til að komast frá slíkum egóflippum.
 Ég sá mér til ánægju að einn umsækjandanna er jarðfræðingur sem er plús fyrir embættið ef gefa þarf út spádóma fyrir eldgosum og náttúruhamförum.

 Þar sem einn fótgönguliðinn í borgarstjórn er í mikilli krísu vegna niðurgreidds flugsætis og veisluhalda sem hann lenti í hjá vini sínum fór ég yfir hvort nokkur hætta væri á að einhverjir í hópnum væru í siðferðisblindukasti líklegir til að þiggja far hjá einhverjum hagsmunaaðila  skyldu þeir nú vera á puttanum innanlands eða utan.

 Fyrir óralöngu átti ég öflugan reiðhest sem var ýmislegt til lista lagt. Hann var samt illilega mistækur og þó góðu og reyndar frábæru dagarnir með honum væru margir gat ég aldrei treyst honum.

 Hann átti það til að hlaupa illilega útundan sér og þegar verst lét tók hann ótrúleg gönuhlaup og stundum lá við að illa færi.
 Þó kostirnir væri miklir með þessari alvarlegu veilu var það mikill léttir þegar hann var farinn.

Já skyldu einhverjir atvinnuleitendanna geta búið yfir eiginleikum af þessu tagi?

 Á harða diskinum er ég með forrit sem gengur undir nafninu Farsældarforritið.

Þar raðaði ég nú inn atvinnuumsækjendunum ýmist með plús eða mínus við allskonar atriði sem ég reyndi að meta eftir bestu getu þó upplýsingar og þekkingarleysi á ýmsum í hópnum gerði þetta nú ekki alveg hávísindalegt.

 Sló snöggt á enter og beið niðurstöðunnar í ofvæni.

Og hún skilaði sér afdráttarlaus.

Svo Þóra fær atkvæðið mitt.

En djöfull var nú klárinn minn samt góður í den.

Þegar hann lá.

18.06.2012 15:48

Grenjavinnsla, frumbyggjar og skaðmenntaðir fræðingar.

 Þegar ég les það eða mér er sagt að refurinn sé frumbyggi hér og eigi því sinn tilverurétt á skerinu er ég algjörlega sammála því.

 Ef viðmælandi minn eða höfundur lesefnis fer að halda því fram að í upphafi búsetu hafi allt verið í sómanum og algjörlega ástæðulaust að standa í hernaði við rebbann nú, fer ég að tala um veðrið  eða hætti að lesa. Og álit mitt á viðkomandi fer niður í djúpan dal eða e.h. sem ég vil ekki setja á prent hér í þessum orðprúða netmiðli..

 Ýmissa hluta vegna finnst mér nú einhvernveginn að gamla góða skerið okkar sé eitthvað öðruvísi nú en í árdaga.
 Mér finnst ekki ólíklegt að fyrrum hafi veturnir takmarkað refaflóruna enda búsvæði mófugla með talsvert öðrum og rýmri  hætti þá en nú.
 Ég hef séð refi takast á þegar óðalseigandi kom að aðskotaref  á óðalinu sínu. Þar var tekist á uppá líf og dauða.

 Þar sem refagreni kemst upp í dag er radíusinn kringum það býsna stór þar sem enginn ungi kemst upp nema náttúrulegar aðstæður verji þá. Nema kjóinn virðist geta varið sig.


 Þetta sérstæða greni fannst fyrir 50 -60 árum og var á því tvö fyrstu árin eftir að ég tók við því veiðisvæði
Tvö löng sívöl göng inn í bergið, væntanlega með samgang innst.

 Þegar þéttleiki grenjanna eykst eru það öflugustu dýrin sem fjölga sér og þá er stutt í dýrbítinn.



 Nú sér fyrir endann á grenjavinnslunni í Eyja og Miklaholtshrepp þetta árið.

Við erum 3 sem erum í þessu hér og þrátt fyrir að sjái undir iljar umhverfisráðherra í málaflokknum er enginn bilbugur á sveitarstjórninni að sinna þessu verkefni með líkum hætti og verið hefur.

 Það fór eins og ég hafði spáð að hér er stofninn með minna móti og ekki á nema 3 þekktum grenjum auk eins sem fannst nýtt. Reiknað er með að um 2 óþekkt gren séu í gangi á svæðinu.


 Talsverður hluti láglendisins er algjörlega ósnortið mýrlendi en þar er ljóst að fuglalífið á mjög erfitt uppdráttar þegar refnum fjölgar.

 Öll voru þessi greni neðan þjóðvegar, eða á láglendinu en það hefur gerst nokkrum sinnum að fjallagrenin fá frí.

 Oftast vinnast um 35 - 45 dýr árlega í þessu sveitarfélagi sem nær frá Haffjarðará að austan , vestur fyrir Baulárvallavatn og Lágafell.
 Það eru samt þó nokkur dýr sem eftir eru og munu þreyja hér þorrann og góuna, bæði gelddýr og grendýr á óþekktum grenjum og þó ég ætli ekki að halda því fram ég geti gefið hlutlaust álit á stöðunni er ég mjög sáttur við ástandið í málaflokknum.

  Nú var/ er fuglalífið áberandi meira en oft áður . Þar gæti líka blandast inní að nýafstaðið minkaátak á Nesinu náði yfir stóran hluta hreppsins.

 Þó óupplýstir og óbreyttir kaffi latte lepjendur sem sumir hafa trúlega aldrei migið á græna jörð séu með stóryrtar yfirlýsingar um refastofninn og lífríkið, í eða utan netheima tek ég það ekki nærri mér.

Mér leiðist hinsvegar ákaflega þegar skaðmenntaðir fræðingar setja fram kenningar sem mér finnst glórulaust kjaftæði.

En ég hef náttúrulega ekkert vit á þessu.

 
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere