02.04.2008 00:33

Í góðum gír.

 Það var lokið við rúninginn í dag. Nú liggur næst fyrir bólusetningar og ormalyfsgjöf á fénu. Þar sem allt er spólvitlaust að gera frestast það framyfir helgi. Nýheimta gimbrin er strax búin að læra átið en það hefur greinilega verið erfitt hjá henni í vetur. Engin hornahlaup og holdafarið slakt. Fóðurbreytingin og væntanlegur bati hjá henni er ekki góður svona á síðasta mánuði meðgöngunnar en erfitt að vinna úr því.  Nú er norðanþræsingurinn sem hefur ríkt síðan fyrir helgi að ganga niður og vor í lofti. Ég óttast um kalskemmdir í nokkrum nýræktanna en vona þó  það besta þar til annað sannast. Nú stendur yfir uppfærsla á 123.is  og öll umgengni um heimasíðuna ákaflega erfið og svifasein. Þetta á hinsvegar allt að verða alveg rosalega gott um það er líkur.

31.03.2008 21:46

Stóri Langidalur og víkingasveitin.

  Þar kom að því að austurbakkamenn brettu upp ermarnar og gerðu áhlaup í/á Langadalinn.  Það var enginn annar en refaskyttan og snillingurinn hann Sveinbjörn á Hlíð sem skipulagði verkið og stjórnaði aðgerðum. Hann hefur eins og ég, haft pínulítinn grun um að kannski væri dalurinn ekki alveg fjárlaus, enda vandaði hann valið þegar kom að liðsaflanum. Fjórhjóladeildina skipuðu þeir Ásberg í Hraunholtum og Jakob í Mýrdal. Síðan tók hann í liðið Albert á Heggstöðum til að gulltryggja að skynsemin myndi nú ráða við endanlega skipulagningu og ekkert klúður yrði í leitinni.
 Engum sögum fer af hundakosti þeirra félaga enda greinilega valið í fjórhjóladeildina með það í huga að ef yfirgefa þyrfti hjólin vegna brattlendis myndu smalarnir léttilega hafa í öllu tré við fálurnar ef einhverjar fyndust. Vandamálið við framhaldið er það, að þegar skipulagningin er í lagi og vel að verki staðið er ekkert skemmtilegt til að segja frá, nema þarna náðust 14 kindur og ekki seinna vænna því nú fer að grænka þarna í hlíðunum hvað líður.Ein þessar kinda var að ljúka sínum öðrum vetri í útilegu.
 Og gimbrin sem ég heimti þarna mun væntanlega eiga eftir ca. mánuð í burð.

   Að öllum líkindum verður Stóri Langidalur nú fjárlaus í alvöru í nokkrar vikur svo byrjar nýr rolluhringur með tilheyrandi vetrarsmalamennskum.
 

30.03.2008 22:00

Vestmannaeyjaferð.

 Það var verið að ferma Eyjaprinsessuna hana Guðrúnu Svanlaugu í gær og allir sem vettlingi gátu valdið af Dalsmynnisliðinu mættu á staðinn. Atli var skilinn eftir heima til að halda búrekstrinum gangandi ásamt hundum og köttum. Sá hluti þjóðvegakerfisins sem tilheyrði Herjólfi var seinfarinn en afslappandi og allir við hestaheilsu í ferðalok.
  Í Vestmannaeyjum fara fermingar fram á laugardegi enda eyjaskeggar (reyndar kalla þeir sig meginlandsbúa en við hin búum á eyju) á undan sinni samtíð.  Og veislan var meiriháttar og stóð linnulítið frá hálf tvö og fram yfir miðnætti. Alla vega fyrir okkur sveitapakkið og nokkra aðra.  Ég tók svo fyrri ferðina heim ásamt Munda(kl.átta) en hitt kom svo með fjögur ferjunni. Það var stafalogn og sól allan laugardaginn og reyndar í dag líka og þóttu okkur þetta firn mikil. Þegar við héldum því fram að það hlytu að vera tugir ára síðan hefði verið logn í Eyjum vorum við minnt á veðráttuna á Nesinu og var málið þar með dautt. Nú er svo bara að bíða eftir fermingunni hans Víðis, fótboltakappa og skáksnillings. Hún verðu væntanlega haldin eftir 5 ár og eins gott að hann gleymi ekki að bjóða okkur.
Flettingar í dag: 636
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579329
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 09:43:02
clockhere