28.06.2008 21:26

Fyrsta sláttuáfanga lokið.



   Það tókst að koma öllu í plast í gærkvöld og nú verður smá pása( stutt) í heyskap þegar verður búið að koma rúllunum heim. Það er ekki hlaupið að því,  vegna umferðarþungans sem er hér um helgar. Þessvegna verður að sæta lagi fyrripart dags, sérstaklega með það sem flutt er hér neðan af túnunum því annars getur orðið löng bið eftir lagi að komast þvert yfir þjóðveginn. Kýrnar þurfa líka að þvera þjóðveginn á leið í daglega beit . Stundum hvarflaði að manni að halda þeim heima um helgarnar en nú er augunum bara lokað og hliðið opnað, svo er bílstjórunum bara veifað kankvíslega þegar sú síðasta er sloppin yfir. Það tekur nefnilega smástund fyrir 45 kýr að lesta sig yfir og ég get fullvissað ykkur um það, að þær eru ekkert að flýta sér blessaðar.
  Og blessaðir hundarnir eru að sjálfsögðu í stöðugri lífshættu en hér gerir enginn neitt nema með aðstoð þeirra.
  Það má segja þessum taugaveikluðu og stressuðu ökumönnum til hróss að 99 % þeirra láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust og smáfólkið fær þarna kærkominn bónus á helgarferðina. Bónusinn sem bílstjórarnir fá getur hinsvegar orðið öllu verri , því ef þeir ætla að bæta sér upp töfina, er nokkur hætta á að eftir nokkra km. fái þeir á sig blá ljós og misháa sekt eftir því hvað þeir ætluðu sér að ná töfinni hratt til baka.

 Já, það er vandlifað í henni veröld.

27.06.2008 23:16

Bjarndýrabúrið góða..


  Þó ég sé afdráttarlaus talsmaður þess að smitvarnir séu í heiðri hafðar til varnar þessum viðkvæmu landsnámsstofnum okkar hér á skerinu, (sérstaklega kúnum) fannst mér broslegt hversu ríkulegur afsláttur var veittur í sóttvörnunum þegar "Búrið góða" var flutt inn. Það hefur komið fram að engin sótthreinsun var framkvæmd á því fyrir innflutninginn heldur var það tekið beint úr geymslunni í dýragarðinum þar sem það stóð " sótthreinsað " eftir síðustu notkun og flutt beint að Hrauni á Skaga. Engin sótthreinsivottorð fylgdu því heldur voru orð yfirdýralæknis  dýragarðsins látin duga um ástand þess og sótthreinsun.Kannski var það sá sami og stjórnaði hinum vel grunduðu og velheppnuðu aðgerðum á Hrauni?.  Búrið er síðan úr timbri en það er afdráttarlaust í lögum að sótthreinsun á timburbúrum dugi ekki , þeim skuli eytt. Sama á við um öll timburverk í innfluttum tækjum eða búnaði  sem notuð hafa verið erlendis. Og möppudýrin og kerfiskallarnir bíta svo höfuðið af skömminni með því að upplýsa að nú sé búið að sótthreinsa græjuna og kerruna sem flutti hana enda sé það síðan geymt á " traustum " stað.

  Það allra skemmtilegasta í málinu er þó að tveir banghagir menn reka saman svona kassa á örfáum klukkutímum.

 Og svo vildi ég gjarnan að Bangsi no. 3 fari nú að birtast svo góða fólkið hafi eitthvað að hugsa um og nefndin fari að klára aðgerðaáætlunina sína sem mun verða mjög djúpt hugsuð og skynsamleg..
( Bara að löggan verði nú ekki til vandræða í nefndinni.?)

27.06.2008 00:44

Meiri þurrkur og meindýrin.

    Það var rúllað í Hrútsholti og Söðulsholti samkvæmt áætlun í eins góðum þurrki og hægt er að hugsa sér.
Við rúllum með fastkjarnavél og höfum rúllurþvermálið 140 cm. Þetta þýðir um 40 % meira heymagn en í hefðbundnu rúllunum.(120 cm.) Hagkvæmnin sem næst með þessu í plöstun og allri meðferð er dálítil og veitir ekki af . Þessir þurrkar eru farnir að verða til vandræða sérstaklega fyrir þá sem búa við þurrlendari tún. Vinur minn á Barðaströndinni sem talaði við mig í dag sagði að stefndi í vandræði þar,  tún væru farin að brenna, enda ekki komið dropi úr lofti í 3 vikur + .

 Kvöldið var síðan tekið í að slá restina af Vallarfoxinu sem var farið að leggjast þó aðeins væri eftir í skrið.  Það á að rúllast seinnipartinn á morgun. Er þá lokið fyrri slætti fyrir kýrnar en hross og rollur geta étið það sem úti frýs eða þannig.
 Yngri bóndinn fór hinsvegar að glíma við yrðlinga á greni sem hann vann á mettíma í gærkveldi. En eins og fyrri daginn er lágfóta óútreiknanleg og grenið hátt í Hafursfellinu sem við vorum búnir að bóka autt, reyndist í fullri ábúð( reyndar nýflutt á það) þegar kíkt var á það til öryggis í gærkveldi.

   Því betur sem maður telur sig þekkja tófuna því meira kemur hún manni á óvart.

  
 
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere