05.10.2011 07:44

Byggið. Endar það í tómu tjóni??

 Eins og þolgóðir lesendur mínir hafa ekki komist hjá að upplifa, var byggið seint til þroska þetta árið.

 Á þessu stigi málsins voru menn hér orðnir nokkuð bjatrtsýnir á ásættanlega uppskeru þetta haustið, þrátt fyrir afleitt árferði.

 Eftir frostnótt snemma i sept. fóru akrarnir samt að fölna og voru að verða tækir í þurrkun um miðjan sept.

 Síðan hefur náttúrulega varla stytt upp.

Nú er ljóst að stór hluti þeirra akra sem eftir standa eru orðnir talsvert tjónaðir og menn orðnir dapureygir af því að horfa á miskunnarlausa langtímaspána með endalausan lægðagang í kortunum.



 Þetta blasti m.a. við okkur í ástandskönnuninni í gær. Júdithin er ekki gerð fyrir margra vikna haustveðrun á sunnanverðu Snæfellsnesi.



 Einar og Atli spekingslegir á svipinn að veita hvor öðrum áfallahjálp í skelfingunum.



 Þessi akur hjá Einari stóð samt sæmileg og var tekinn milli skúra í gær. Nú þýðir ekkert að velta fyrir sér smámunum eins og olíuverðinu í þurrkuninni.



 Akrarnir eru talsvert misjafnir og sumstaður sjást svona legur. Þetta næðist samt mestallt upp ef hægt væri að senda lægðirnar yfir á  bretana í nokkra daga.



 Það eru Skegglan og Lómurinn sem standa nokkuð vel enn en það er á svona haustum sem þau síga framúr innflutta sex raða bygginu í uppskerumagni.

 Já nokkurra daga þurrkur með hæfilegum hraða á logninu myndi bjarga heilmiklu. Það er þó trúlega öruggast að vera ekki að velta fyrir sér hvernig verður að komast um akrana, ef skyldi gefa til þreskingar.

02.10.2011 20:25

Rauðamelsheiðin. Langdregin leiðindasmalasaga með fáum myndum.

 Hestarnir voru komnir á kerruna um hálf átta.

Veðrið var hráslagalegt en tölvuspárnar gáfu undir fótinn með úrkomulitla en vindasama leit. Veðurfræðingarnir voru heldur svartsýnni en veðrið fór síðan langt fram úr svörtustu svartsýnisspám mestu bölsýnismannanna .
 Það var riðið frá bílaplaninu við Rauðamelsölkeldu gömlu þjóðleiðina inn á Flatir.


 Alli og Guðmundur með Sátuna í baksýn. Dáð og Tinni eru enn hin kátustu.

 Við vorum einungis 3 í stað 5 sem fórum á vesturfjallið þar
sem ekki náðist að fullmanna leitina.
 Það var líklegt, sem reyndar kom á daginn að féð væri hátt, dreift og var að stórum hluta erfitt fé, margreynt í að sleppa úr leit.

 

 Hér sést yfir Flatirnar inn Brúnadalinn. Vestan hans (vinstra megin ) er Hestgilið og uppaf því Hesturinn. Þó ég hafi ekki leitað Rauðamelsfjallið síðustu 2 haust hef ég marga fjöruna sopið þar í gegnum tíðina og stundum eitthvað annað.
 Ég hef þó aldrei fyrr séð  á dreif um Brúnadalinn á milli 15 - 20 kindur í fyrri leit hvað þá í þeirri seinni. Vegna beljandans voru þær vestanmegin í dalnum og þær efstu innst í botninum.

 Innst á Flötunum skiptum við okkur, Guðmundur fór í Sátuna en okkar Alla beið smalasvæði sem ekki yrði smalað með 2 mönnum við þessar aðstæður svo lag væri á.

 Ég lagði einn  inn Brúnadalinn fullur efasemda um árangurinn. Til að bæta gráu ofaná svart var sökkvandi aurbleyta í hlíðinni og reyndar í allri leitinni, eftir undangengin vatnsveður.
Aðalhópurinn var um miðjan dalinn og ég var fullviss um að þegar þær kindur kæmu auga á mig myndu þær láta sig hverfa vesturúr og þar norðuraf.
Það var því ákveðið reyna að ná þeim niður án þess að 5 innstu kindurnar yrðu varar við og Tinni var settur í málið. 
   Hann var búinn að staðsetja hópinn og fór umsvifalaust mjög vítt innfyrir og síðan upp fyrir kindurnar sem voru aðeins innar en ég í dalnum en í svipaðri hæð. Nú kom sér vel að Tinni er orðinn góður á flautuna bæði vegna roksins og ekki síður vegna þess að innri hópurinn hafði örugglega aldrei heyrt í smalaflautu fyrr.

  Ég staðsetti hundinn aðeins til baka áður en hann fékk skipun um að koma fénu af stað og þetta gekk allt upp, hópurinn tók skriðið i rétta átt á óskahraðanum.

 Nú var Tinni kallaður inn og haldið áfram þar til restin kom í augsýn. Tinni sem var þarna í sinni sjöttu leit þetta haustið en þeirri fyrstu með mér fór óðara af stað í rétta átt við
skipun og hvarf mér yfir hæð. Hann hafði hinsvegar ekki komið auga á hópinn og birtist hinumegin gilsins talsvert neðan við kindurnar og var greinilega með hugann við fyrri hópinn. Nú dugði skipunarforði flautunnar ekki lengur svo raddböndin voru þanin í rokinu.

 Það dugði bæði til að snúa Tinna af villu síns vegar og til að koma rollunum í skilning um að nú væri friðurinn úti. Það var hinsvegar algjör snilld að sjá viðbrögðin hjá hundinum um leið og hann áttaði sig á stöðunni.

 Hann sneri við aftur niður að gilinu og inn með því á sínum úthlaupshraða sem er ekki sá mesti hraði sem ég haf kynnst en skilar honum þó vel. Mesta hluta leiðarinnar innfyrir hópinn  sem var kominn á nokkra ferð innúr, hlýtur hann að hafa verið í hvarfi frá þeim en innfyrir þær komst hann.

 Þær  voru ekkert á leiðinni suðuraf og reyndu bæði að komast upp og yfir í austurhlíðina áður en þær gáfu sig og brunuðu niður með gilinu í hendur Alla sem beið neðst í dalnum.


  Hér virðir Tinni fyrir sér tvær kindur í litla gilinu beint framundan. Milli okkar og þeirra var hinsvegar Hestgilið ófært öllum nema fuglinum fljúgandi nema fara talsvert uppmeð því.

 Vestan Hestgilsins hafði ég séð þriðja hópinn og enn ofar neðst í Hestinum tvær kindur.
 Til þess að komast að þeim þurfti að klöngrast uppúr Brúnadalnum og komast yfir Hestgilið talsvert innar.
Ég held að það sé martröð hvers smala að rekast á móðurlaus lömb innst á leitarsvæðum og þarna voru tvö móðurlaus hrútlömb. Þau tóku sem betur fer sprettinn í nokkurnveginn rétta átt en ekki tókst þó að stýra þeim að hópnum sem hafði verið þarna nokkuð neðar en var kominná siglingu suður hlíðina.

 Þó ég mætti illa við því að lækka mig þarna, fylgdi ég samt lömbunum talsvert niðurmeð gilinu þar til ég áætlaði að Alli myndi koma auga á þau. Reyndar vissi ég ekki hvernig hann ætti að höndla þessar sendingar mínar einn og hundlaus en nú var hver sjálfum sér næstur.
 Veðrið fór síðan versnandi með miklum rigningarhryðjum sem voru nú reyndar hálfgert hagl í þeirri hæðarlínu sem ég var í.



 Þessi mynd er nú reyndar frá 2008 en hún lýsir hryðjunum mjög vel

 Svona gekk þetta áfram suður fjallið nema nú reyndi ég að halda fénu inná minni göngu því ekki væri á Alla bætandi.
 Svæðið sem við  þrir vorum með þarna er líkleg um 3 km  breitt og miserfitt til smölunur.
 Reyndar sá ég ekki til Alla meira fyrr en komið var niður í safngirðingu. Honum tókst að skrapa saman um 20 kindum, missti þær niður með Flatná en gaf sig ekki og kom þeim til réttar.



 Smástund milli stríða. Hér var Tinni kominn í rólegheitin og Dáð tekin við í vinnunni og við Þrymur farnir að róast töluvert. Hann búinn að labba alla leið og ég einum of mikið fyrir minn smekk vegna bæði aurbleytunnar og þess að halda klárnum réttu megin við þreytustrikið.

 Það  fór ekki hjá því að eitthvað yrði eftir, en við svona aðstæður stendur maður einfaldlega frammi fyrir því að meta hverju eigi að reyna að ná og hvað sé vonlaust að eiga við.

Reyna að hámarka hópinn sem næst til byggða.

 Það er síðan sérstök tilfinning sem fylgir því að fara um fjallið við þessar aðstæður. Finna það algjörlega í alvörunni að nú er sumarið búið og stutt í veturinn.

Drullukaldur og þrælerfiður dagur, en eftirá að hyggja hefði ég ekki viljað verja honum öðruvísi.

28.09.2011 23:10

Landslagið í leitunum.


 Við Stígur vorum hálfstirðir í morgunsárið en vorum fljótir að liðkast.



 Nokkrum klst. eftir þessa myndatöku vorum við í skriðunni uppundir klettum á tindinum í baksýn.



 Ég hef nú reyndar aldrei farið svona hátt í Seljadalinn með hest áður en þetta tókst vel hjá okkur og kindahópurinn sem var þarna dreifður náðist allur niður.



 Hér erum við svo komnir suðurfyrir tindinn/ Núpinn og allt í góðum gír.



 Hér er óðalsbóndinn í Söðulsholti að leggja af stað í gönguna sína hvergi banginn.



 Það smalaðist mjög vel, meira segja fann ég í gili efst í Seljadalnum hrossabein, að öllum líkindum af hryssunni hans Ragnars vinar míns Jörundssonar. Hryssan sú hvarf eitt þrettándakvöldið fyrir nokkrum árum og fannst  ekki þrátt fyrir mikla leit.

Svo er það Selsfjallið og Rauðkollsstaðarafrétturinn á morgun.
Flettingar í dag: 1496
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580189
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:48:55
clockhere