23.09.2008 21:15

Aron Sölvi Atlason



  Hlutirnir ganga hratt fyrir sig hjá þessu unga fólki nú til dags. Litli afakúturinn sem raunar átti ekki að fæðast fyrr en eftir svona tvær vikur var skírður í dag .
 
                                              Nýbakaðir ábyrgðarfullir foreldrar.

  Að því loknu var síðan brunað með hann í sveitina og með sama áframhaldi verður hann trúlega kominn í fjósið fljótlega.

  Og Jófríður, önnur aðalfrænkan tók létta æfingu fyrir barnapössun næstu ára.


 Hin aðalfrænkan hún Halla Sif, er þaulvön en fékk líka að prófa.

 Já , pilturinn hlaut nafnið Aron Sölvi og megi honum vel farnast.

 

22.09.2008 19:24

Keyptur hvolpur.


  Það má segja að tvö Border Collie ræktunarkerfi séu í gangi á skerinu í dag.
Annarsvegar  Fjár og Hjarðhundadeildin hjá Hundaræktunarfélagi Íslands.  Kannski rétt að ræða hana ekki frekar í bili, og hinsvegar hin frjálsa og óháða ræktun í sveitinni þar sem breiddin á ræktunarmarkmiðunum er mikil og markmiðin í ræktuninni virðast stundum dálítið óljós. Það er þó talsverður hópur ástríðufullra ræktenda í seinni hópnum sem stefnir markvisst að því að framleiða hinn fullkomna fjárhund, og þó menn hafi mismunandi sýn á útlit, stærð og ef til vill mismunandi áherslur á hina ýmsu hæfileika ber þar kannski ekki mikið á milli.
 Nú eru að gerast stórir hlutir og góðir því menn hafa tekið nokkurskonar heljastökk í innflutningi á tömdum og ótömdun kynbótadýrum. Fluttir hafa verið inn a.m.k. 3 hundar og tvær tíkur  á stuttum tíma og þetta er allt á fullu í framleiðslunni.  Þó ég telji mig allvel hundaðan er erfitt að sitja hjá í svona veislu og þessvegna var fjárfest í lítilli tík sem er undan innfluttum tömdum foreldrum.



 Útlitið er ekki alveg eftir ræktunarmarkmiðunum en innrætið á að bæta það upp. Hárafarið verður svo lagað í afkvæmunum.

  Ég á eftir að velja nafn á litlu dömuna og óska því eftir góðum hugmyndum. Nafnið þarf að vera þjált, óalgengt og þarf að vera ólíkt  " Snilld " í framburði. Þeir sem hafa góða hugmynd en vilja ekki koma fram undir nafni, mega að sjálfsögðu gera það undir dulnefni eða í gegnum mailið.

 Nú stend ég frammi fyrir því vandamáli að hundakvótinn á heimilinu er sprunginn og fækkun framundan . Það er langtímavandamál sem örugglega mun leysast farsællega í fyllingu tímans.

  Svo er bara að láta sig hlakka til kennslunnar, því nú er ætlast til að hérna sé eitthvað efnilegra/skemmtilegra á ferðinni en vitleysingarnir sem maður hefur verið að
baslast með í gegnum tíðina.emoticon

 

21.09.2008 22:13

Þverárrétt

 

 Það var réttað klukkan 1 í dag og mikill fjöldi fjár og manna. (miðað við Þverárrétt)



                                          Safnið í fjallgirðingunni.

  Réttarhaldið gekk vel og var búið að draga upp féð um kl. 4 þó gengi á ýmsu..



 Það eru allskonar myndir í albúmi, í boði Iðunnar. Smá sýnishorn af um 200 myndum. Það var ströng ritskoðun í gildi því ég á ekki of marga vini.emoticon

Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581497
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:08:40
clockhere