01.12.2011 23:37

Svona 2008 snjór og ???

 Hér á sunnanverðu Nesinu er snjórinn sjaldan langvarandi vandamál.

 Varla sést alvöru snjór síðan 2008 þegar allir áttu nóg af öllu.


                                Svona leit þetta út í skammdegisbirtunni í dag.

 Sá snjór fauk/ rann svo í burt í fyllingu tímans ásamt allsnægtunum hjá flestum, bæði ímynduðum og raunverulegum.

 Nú er semsagt komið fullt af snjó og alvöruvetur í kortunum svo langt sem séð verður. Reyndar ekkert að marka þá spámennsku en samt.

 Það  er hinsvegar fátítt  að hér fari allt á kaf í snjó á frostlausa jörð eins og núna.

Bóndinn veltir því fyrir sér svona með öðrum vangaveltum hvort það þýði minni eða meiri kalhættu ef það á nú eftir að blota og frysta í þennan snjó frameftir vetri.

 Það hefur nefnilega ekki kalið tún hér óralangt aftur í timann og ekki spurning um hvort það muni gerast á ný, heldur hvenær.

 Sem betur fer verður auðveldara að taka á því núna heldur en í den með alla þessa jarðyrkjugræjur í hringrásinni.

 

 Hér er horft norður Stóra Langadalinn í mars 2008. Það eru ekki margir staðir vélsleðafærir ofan í hann þó færið sé gott .


Hér er bakhliðin á Svörtufjöllum og rétt grillir í toppinn á Skyrtunnu  milli þeirra. Ekki mjög svört þarna.

 Já svona var þetta 2008 og kannski verður hægt að taka á stöðunni þarna í vetur.


              Dáð fékk nú lítið að gera enda komin í hvolpeignarfrí þó nokkrar vikur séu í got. Hún var samt höfð með til öryggis.

 Þessi dilkær var sest að á sólpallinum í Hrossholti í dag og þar sem ekki var hægt að bjóða henni nema inní forstofuna eða bílskúrinn á þeim bæ, var henni boðið að Dalsmynni.

 Hún var langt að komin lengst sunnan úr Hraunhrepp.

 Snjósleðarnir sem hafa verið í fríi síðustu vetur voru gangsettir í gær og gerðir klárir fyrir komandi átök.

 Síðustu ærnar verða rúnar á morgun og svo.........................................

28.11.2011 23:59

Snjóplæging, fuglar og flugsýningar.

Fyrst komu nokkrir fuglar og ekki er ólíklegt að þeir hafi sent einhverja út til að bjóða í veisluna því þeim fjölgaði ört.

 
                        Svörtu deplarnir  beint framundan yfir óplægða hlutanum er hluti af veislugestunum.

 Það var um 30 - 40- sm. jafnfallinn snjór þegar ég lét lét vaða í að plægja síðasta akurinn sem bylta átti í haust. Snjótittlingarnir sem voru eflaust í vondum málum í lausamjöllinni þyrptust að í plógstrengina og skiptu hundruðum áður en lauk.

 Mér fannst skemmtilegt að fylgjast með þeim því allur flotinn hélt sig alltaf aðeins framan við vélina.
 Sátu þar til ég var að komast að þeim,  síðan flugu þeir 30 - 50 m. áfram og settust og tíndu eitthvað í sig af miklu kappi þar til ég nálgaðist og þeir endurtóku þetta.



 Svörtu deplarnir aðeins til hægri eru sko ekki óhreinindi á rúðunni.

 Eftir því sem leið á plæginguna urðu þeir bíræfnari og flugu ekki fyrr en trakorinn var kominn samhliða þeim. En alltaf flugu þeir upp og héldu sig framan við plægingarmeistarann.



 Þeir léku svo ótal listir fyrir mig. Stundum var eins og skýstrókur myndaðist en furðulegast fannst mér þegar allur flotinn tók stóran sveig framfyrir, sneri við og stefndi beint á vélina.

 Þegar þeir nálguðust lækkaði flotinn flugið rétt eins og árás væri fyrirhuguð.  Allt í einu skipti breiðfylkingin sér , klofnaði fyrir framan vélina, sameinaðist aftur fyrir aftan hana, tóku svo sveig framfyrir og settust á akurinn. 
 
 Þetta gerðist þrisvar.

 Þá hafa þeir verið búnir að átta sig á því hvaða öðlingur var þarna á ferðinni, að eyða sunnudegi í að snúa öllu við fyrir þá.

Og nú er komið að ykkur að gefa þeim eða frændum þeirra í ótíðinni.

25.11.2011 22:47

Í tómu tjóni ? Ja, eða ?

   Ég er enn blautur á bakvið eyrun í byggræktinni hafandi ekki stundað hana nema í nokkur ár.

 Þessi ár hafa þó verið býsna lærdómsrík og staðfest rækilega þá skoðun mína að lífið sé lotterí og sérílagi byggræktin. Ræktun olíujurtanna mun að sjálfsögðu falla undir þann flokk líka og reyndar öll akuryrkja yfirhöfuð.

 Að sjálfsögðu á þessi skoðun mín við þennan unaðsreit hér, þar sem ég hef kosið að þreyja þorrann og góuna enda læt ég mér í léttu rúmi liggja annarra manna lotterí.

 Síðasta ár (2010) var metár í bygginu þar sem saman fór gott vor, sumar (fyrir mýrarakrana). og haust.



Mikil úrvalsuppskera náðist í hús m.a. gott sáðkorn  sem nýttist vel í vor,  enda spírunin yfir 90 %.

  Þó uppskera vel yfir 4 t/ha þyki kannski ekki mikil í góðhéruðunum brosum við á Nesinu hringinn þegar það næst.

 Ég hef gefið mér það í bygginu að slæmu árin muni verði fleiri en þau góðu og fyrrnefnd þroskasaga mín hefur staðfest það rækilega.

 Árið 2011 var svo akkúrat í hina áttina, slæmt vor og fyrripartur sumars og haustið skelfilegt.

 Uppskeran var eftir því ákaflega mögur bæði að magni og gæðum.



 Þessi akur sem var þresktur 23 sept. var að skila um 3.5 t/ha en það vantaði töluvert á að úrvalsflokkurinn næðist.



 Þessi akur sem meistari Jónatan er að kryfja til mergjar, lenti í einhverjum ótilgreindum hremmingum og þrátt fyrir að verða mikill að vöxtum þegar fór að líða á sumar reyndist í honum mikið af geldfræjum sem er nýlunda hér. Hann skilaði um 1 t/ha. af nýtanlegu korni um það er lauk.



 Og þessir 21 ha. sem Dalsmynni sf. sáði til í vor skilaði um 55 t. ( um 2.5 t/ha.) sem er kannski svipað og verið er að gefa á búinu yfir árið.

  Það gerir tilveruna samt léttbærari að  nú var ekkert innflutt sáðbygg notað og búfjáráburður notaður að hluta á akrana.

 Fyrstu árin í ræktuninn var þetta ekki eins  áhættusamt  því bæði sáðbygg og áburður var margfalt ódýrara að maður tali nú ekki um olíuna.

 Og þó hagnaðarvonin  ef vel gengur, sé talsverð  í dag vegna hærra fóðurverðs er áhættan orðin umtalsverð og ekki þýðir að sökkva sér ofan í of nákvæma útreikninga, ef koma á meðaltalinu af góðu og slæmu árununum  réttu megin við strikið.

 Já, en það styttist í vorið og nú er rigningin sem er búin að gera akuryrkjuna alveg hundleiðinlega þetta haustið að breytast í fastara form.



 Plógurinn var því loksins settur við í gær og nú er plægt og plægt.

 Já,já, spennandi að vita hvoru megin striks tölurnar lenda næsta árið.

 

Flettingar í dag: 368
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 436003
Samtals gestir: 40239
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 07:38:35
clockhere