06.06.2010 00:44

Fyrsta hestaferð sumarsins um Löngufjörur.

 Það var ánægjulegt að sjá fyrsta hestahóp sumarsins lesta sig vestur fjörurnar í fyrradag.



 Það var Siggi á Kálfalæk í fyrstu ferð sumarsins en ekki þeirri síðustu en hann er verktaki hjá Íshestum.



Þessar ferðir í þessu umhverfi hljóta að sitja vel í  harða diskinum hjá þeim sem þeirra njóta.



Rétt að vera ekki að skemma góðar myndir frá Iðunni, með einhverju kjaftæði.emoticon




Já svo er nú kannski rétt að taka fram að þessar myndir tengjast ekki hestaferðum þeirra Kálfalækjabænda heldur fjöruferðum okkar Eyhreppinga..

04.06.2010 21:07

Kvöldblíðan lognværa.... - og móðurlausu lömbin.

Blíðan í sveitinni er algjörlega ótrúleg þessa dagana og þegar maður kemst út í náttúruna fyllist maður tilfinningu sem mig skortir hugarflug til að lýsa. (Segi nú svona).



 Svona var útsýnið í vestur úr Laxárbakkaflóanum í stafalogni gærkveldi. Jökullinn kúrði vestast á fjallgarðinum í blámóðunni, umlukinn Snæfellsbæingum sem eru að vonum stoltir yfir því að hafa hann inni í miðju sveitarfélaginu.
 Vonandi verður þessi eldstöð róleg á næstunni og ég er allavega rólegur meðan eldgosasérfræðingurinn á Bessastöðum fer ekki að vara okkur við. Það er svo náttúrulega ótrúlega langt frá síðasta fjölmiðlagosi á þeim bæ.


Hafursfellið stendur nú líka fyrir sínu og grenjaskyttan sem er að skanna flóann fellur vel inn í umhverfið. Það gerir fjórhjólaslóðinn okkar nú reyndar líka. (Finnst mér).

Það var töluvert fuglalíf þarna þrátt fyrir óþarflega stóran rebbastofn á svæðinu og mikil ró yfir öllu á þessum hluta flóavíðáttunnar sem sagði okkur að rebbarnir væru ekki á stjái akkúrat núna.

 Mig grunaði þó að eftir því sem austar kæmi myndi daprast rækilega yfir fuglaflórunni og því miður gekk það eftir.

 Klukkan var komin vel yfir miðnætti þegar ég gekk fram á þessi móðurlausu lömb en þá var ég nú kominn yfir í Eyjarhreppinn í annað flóaflæmi sem kennt er við Rauðamel.



 Það var orðin napurt í næturgolunni og sló illilega á stemminguna að ganga fram á þau köld og svöng og engin kind sjáanleg nokkursstaðar í grenndinni. Það var bara smellt af mynd og svo lét maður sig hverfa án þess að raska ró þeirra frekar.

 Þau munu ekki rétta af afkomuna hjá henni Þóru vinkonu minni í haust.

Og mórauða læðan sem er á því svæði, komst ekki í neina hættu þetta kvöldið.

02.06.2010 20:26

Þurrkar, tiltektir, rebbarúntar og krassandi kosningarblogg.

Já, það er allt að skrælna úr þurrki og styttist í að byggakranir fari að gulna á þurrustu mýrarökrunum.

 Þannig að ósk no. 1, 2 og 3 er að rigni hressilega á öskusvæðunum - og allavega smá hér.

Dagurinn í dag fór í tiltekt  en flest kvöld fara í rebbarúnta um svæðið. Verið er að skima eftir gelddýrunum og hvort grendýr sjáist á vappi á svæðin. Ef svo er  þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé nú af þekktu greni eða óþekktu.

Gelddýrunum hefur fækkað um 3 og nú á að kíkja á fyrsta grenið í kvöld. Ekki hægt að sofa þetta allt af sér í svona blíðu.

 Farið verður á greni sem hefur tvívegis verið flutt af þegar við mættum á svæðið.



 Svona leit það út síðastliðið vor og við feðgarnir urðum daprir fyrir okkar hönd,en þar sem ég er orðinn gamall og meyr gladdist ég pínu fyrir hönd rebbanna þó ég vissi að þeirra tími myndi koma áður en lyki.

 Staðalbúnaður grenjaskyttunnar í dag og hér er horft inn Sátudalinn úr Urðunum frá greninu hans Svenna á Hlíð.

Nú er þó ekki hellt uppá kaffi og teknar með sólarhrings matarbirgðir eins og í gamla daga þegar ég var einn og símalaus og kvaddi mína heittelskuðu með því að hún skyldi láta fara að leita að mér eftir tvær nætur eða svo.

 Og þeir sem eru að rukka mig um krassandi kosningablogg verða að bíða framyfir helgi.

Þá kemur kannski blogg sem fær blóðið til að renna í einhverjum.emoticon

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere