21.05.2012 05:02

Sjaldséðir hvítir og aðrir fuglar.( Himinsins.)

 Það má segja að yfir um mig og allt í kring, heyrðist í Hrossagauknum þegar ég laumaðist inn í kaffi og bloggpásu núna í morgunsárið.
Lóan kom líka sterk inn fuglasinfóníunni, sem var var óvanalega fjölbreytileg í glampandi morgunsólinni og logninu.



Nú var Stokkandarsteggurinn mættur makalaus á tjörnina og skvaldraði mikið við sjálfan sig.
Eða kannski mig?
. Trúlega hefur frúin verið að gæta bús og væntanlegra barna. Þeim líst  ekki sambýlið við hunda og ketti friðvænlegt, gera sér hreiður einhversstaðar í nágrenninu og mæta ekki með ungana á tjörnina fyrr en þeir fara að stálpast.



 Í Söðulsholti er hvíti stelkurinn mættur fjórða sumarið í röð. Þessar myndir hennar Iðunnar af honum eru í fullu gildi þó þær séu nú ekki síðan í vor.



 Hér var hann að sýna tamningartrippunum hvernig ætti að bera fæturnar.



 Og hérna hefur hann trúlega verið að leika engil.



 Hér er hann svo farinn að átta sig á hvað er í gangi og stillti sér upp rétt eins og hann væri að skella sér í forsetaframboð.



 Ég sá nú reyndar engan svona á leiðinni inn áðan, enda passa þeir illa í morgunkórinn hér, þó þeir séu" fjarska " myndarlegir á flugi.



Ekki nærri eins gæfulegir jarðfastir og augnaráðið alltaf jafn djö. kalt og illilegt.



 Síðast en ekki síst blönduðu þessir fuglar sér sterkir inn í morgunkórinn.

17.05.2012 23:52

Flas er ekki til fagnaðar.

Já. Það vorar hægt og örugglega þessa dagana.

 Ef eitthvað er svo að marka málshættina, sígandi lukka er best, góðir hlutir gerast hægt og flas er ekki til fagnaðar, þá lítur þetta alveg meiriháttar vel út.( Eða þannig).

 Það passaði nákvæmlega að þegar vistarverur sauðkindanna voru farnar að bólgna út vegna þrengsla var hægt að fara að setja út lambfé í gær ( 16 Maí) með góðri samvisku.



 Þetta var fyrsta lambærin í Dalsmynni út þetta vorið. Smá saga á bakvið hana sem ekki verður færð til bókar núna.



   Slatti af gemlingum yfirgáfu dekrið sitt í dag. Þeir fengu sérmeðferð og fá gæðatún í nokkra daga.



 Hún Korka " litla"  aðstoðar mig ásamt Dáð í þessu stússi  og þó hún komist trúlega aldrei með tærnar þar sem Tinni faðir hennar hafði skottendann er henni nú ekki alls varnað.



 Og svona litu tún og fjöll út í þessum sælureit í dag og mesta furða hvað túngrösin læðast upp þrátt fyrir ríkjandi næturfrost síðustu vikuna.



  Hvort sem það er svo nauðsynlegt eða bara fullkomnun fáránleikans að brenna sinu líta " brunarústirnar " svona út í dag og bjóða féð velkomið til snæðings. Sinuflóarnir verða hinsvegar heldur óárennilegir til beitar frameftir sumri.



 Hér skutla svo Dáð og Korka nokkrum á eftir mér yfir þjóðveginn þegar kom lag  fyrir umferðinni.




 Mjór er mikils vísir hugsaði ég svo, þegar kíkt var á byggakurinn sem fyrst var sáð í þetta vorið.
Samkvæmt félaga Jónatatan eiga þessar frostnætur ekki að hafa áhrif á uppskeruna á þessum akri þar sem ekki er lengra liðið frá sáningu en það að plantan er enn að taka næringu úr sáðfræinu.



 Nú verður bóndinn á flækingi á morgun, en svo verður haldið áfram að róta út lambfénu þar til stóra lægðin kemur askvaðandi með úrhellið sem annaðhvort verður í föstu eða fljótandi  og allt fer í klessu.

Jahá , tóm gleði framundan.


13.05.2012 09:11

Sauðburður, samstillingar og sitthvað.


 Ærin hnusaði af lambinu, rak tunguna tvisvar í það og ýtti því svo verklega frá sér með snoppunni.

Hún leit á mig með augnaráði sem mér sýndist þýða, heldurðu að ég sé asni  helvítis fíflið þitt.

 Hún hafði átt eitt lamb nokkrum mínútum áður og ég hafði því umsvifalaust sótt þrílembing sem fyrstur var á biðlistanum, til að að venja undir hana.

  Byrjað á að baða það nýfædda uppúr volgu vatni betrumbættu með legvatnssulli. síðan var þrílembingurinn baðaður  uppúr gúmmelaðinu og þess vandlega gætt að hvergi væri á honum þurr þráður í orðsins fyllstu merkingu.



 Viðbrögðin voru óvenjuleg því oftast taka þær aukalambið umsvifalaust og málið er dautt.

 Nú bætti ekki úr skák að það nýfædda fór að láta í sér heyra, greinilega frekar óhresst yfir meðferðinni. Ærin virtist strax átta sig á því að þarna væri það eðalborna, þó hún sæi það hvergi og fór nú heldur að ókyrrast.
  Þó sá eigi að vægja sem vitið hefur meira lét ég mig ekki í þetta sinn, mjólkaði smávegis yfir lambið úr ánni og yfirgaf síðan vettvanginn smástund.

 Þegar ég kom til baka hafði móðureðlið yfirtekið tortryggnina og verið að kara lambið hátt og lágt.
Nokkrum mínútum seinna fékk hún  sitt eigið lamb til meðhöndlunar en ég hafði mig í langþráða kaffipásu enda klukkan farin að síga í 6 og tekið að styttast í morgunmjaltir.

Sæðingar og samstillingar.

 Gegnum tíðina hefur oft verið reynt að stytta sér leið í kynbótunum með því að samstilla gangmál bestu ánna og sæða þær með úrvalshrútum.

 Þetta hefur gengið upp og ofan, aðallega ofan og var eiginlega búið að gefa þessa aðferð upp á bátinn.
 Bæði var fangprósentan mun minni en með hefðbundnum sæðingum og frjósemin mun slakari.

 Nú var ákveðið að samstilla 25 kinda hóp tveim gangmálum fyrir sæðingu og sjá hvort það breytti einhverju.  



 Valdar voru úrvalsær eftir afurðastigi og gerð lamba. Þær voru svampaðar 12 nóv. og fóðraðar á heyi eingöngu .
 Fyrstu 4 ærnar voru sæddar 13. des.  17 ær þ. 14 des. og hinar 15 og 16 .

Af þessum 25 eru 17 bornar. Tvær einlemdar, tvær þrílemdar og 13 með tveimur.

Ágætlega ásættanleg útkoma nema hrútahlutfallið er alltof hátt. Það er örugglega Lárusi Birgis. að kenna.
Spurning hvernig hægt er að vinna úr því fyrir næsta haust.

 Nú eru aðrar sæðisær allflestar bornar , meiripartur gemlinganna og restin að komast á fulla ferð.

Gróður að verða nothæfur til að taka við lambfénu en veðurfræðingarnir standa sig ekki og sleppa ýmist óþarfa hæðum eða lægðum í einhverja vitleysu.

En hvað sem öllum fræðingum líður er stefnan sett á að setja fyrstu lambærnar út uppúr miðri næstur viku.

Já, er ekki kúrsinn bara áfram og upp hjá öllum, nema náttúrulega LÍÚ sem eru að setja sig á hausinn með auglýsingakostnaði.

 
Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579394
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:27:07
clockhere