Færslur: 2008 Febrúar

29.02.2008 21:13

Afadagur.

 Það var hrollur í manni í morgunsárið á leiðinni í fjósið í skafrenningi og þæfingi og  þá er alltaf gott koma í róleg- og notalegheitin í fjósinu . Að morgunverkunum gengnum var rennt í hestamiðstöðina og þar settust niður hrossaræktendurnir í Dalsmynni ,Hrossholti og Söðulsholti og gengu frá lokaplönum að vali á stóðhestum á hryssurnar. Þetta voru miklar pælingar sem reyndar hafa staðið yfir í langan tíma um hvað hentaði hverju og að niðurstöðu fenginni var Einari falið að kanna hvort væri laust undir þá hesta sem átti eftir að panta undir. Hryssurnar sem verið er að temja og áætlað er að sýna í ár voru settar í biðstöðu hvað þetta varðar. Að þessu loknu greip ég dótturdóttirina með mér heim því nú er afadagur í dag. Eftir að hafa komið henni fyrir í dótahrúgunni sinni fór ég með kaffibollann að renna yfir fréttirna í tölvunni. Fyrr en varði var sú stutta komin ákveðin til augnanna, tók í mig og teymdi mig að sófanum , sló hendinni ákveðið í sætið og sagði "dedu" sem útleggst sestu. Þetta var sami tónninn og ég nota við hundana mína en henni lá nú samt töluvert lægra rómur. Að þessu loknu sótti hún bókina" víst kann Lotta að hjóla" og rétti mér hana . Þetta er sama bókin og ég las fyrir tvíburana,  móður hennar og móðubróðirr fyrir svo sem eins og 25 árum. Sem betur fer hafði hún ekki þolinmæði til að hlusta á lestur, svo það var rennt í gegnum myndirnar og dugðu 3 umferðir, þá gat ég laumað henni aftur í dótahrúguna. Þó kaffið væri orðið kalt var samt vaðið yfir fréttirna en það gafst ekki mikill tími því enn var hnippt í mig og augnsvipurinn var nú öllu ákveðnari. Enn var ég teymdur inn en nú að dótahrúgunni þar sem sú litla settist, leit íbyggin á afann sló í gólfið við hliðina á sér og sagði "dedu". Þá fór ég að velta fyrir mér hvað hefði verið í gangi fyrir 25 árum þegar tvíburunum var skutlað upp í efra hús "til ömmu".

28.02.2008 23:48

Lóðamál og önnur mál.

Það er mikill jafnfallinn púðursnjór í sveitinni núna og þar sem á að hvessa mun mikið ganga á meðan hann sópast út á sjó. Trimmrollurnar mínar voru því lítið látnar labba í dag en hundarnir fengu hinsvegar að hreyfa sig vel í kringum þær, sem þeir töldu ekkert eftir sér enda hver öðrum áhugasamari. Einn nemandinn er á lóðaríi og Asi tek allt slíkt rosalega inná sig og spangólaði mikið í svítunni sinni( er greinilega orðinn talsverður Skagfirðingur í sér), en gleymdi samt öllum slíkum hugrenningum meðan  á vinstri-hægri og stopp skipunaræfingunum stóð og sparaði sig hvergi í snjónum. Hann hefur greinilega haft gott af því að komast í langt jólafrí úr skólanum. Það var síðan dálítið verið að símast í dag m.a. gengið frá hljómsveit fyrir boðsballið sem verður föstudagskvöldið 4 apríl. Reddað refaagni  sem ég fæ í næstu viku, því eins og stundum áður finnst mér sauðfjárafurðirnar ekki virka almennilega. Ekki var farið á hestbak í dag þrátt fyrir fjölda áskorana. 
 Nú er bara að lát sig fara að hlakka til væntanlegs snjómoksturs.
 

28.02.2008 00:23

Ótitlað

   Ég komst í snjómokstur í dag niður í hestamiðstöð. Það var látið duga að snyrta hlaðið en svo verður að ganga í að hreinsa út úr gerðunum áður en lýkur. Hundatamningunum hefur svo  verið  verið sinnt af krafti 2 daga í röð sem er frábært en betur má ef duga skal og það er rýnt í langtímaspána af mikilli áfergju hvort ekki verði hægt að henda rollunum út í rúllu fljótlega, en því miður er ekkert útlit fyrir það. Atli er heldur að ná heilsu og hóstar ekki alveg eins trúverðugt og hann gerði. Frúin er svo  á kafi í VSK.uppgjörinu og þá reyni ég að vera ekki alveg eins leiðinlegur og vanalega en það getur nú verið erfitt. Dagurinn endaði svo á fundi um kaldavatnsmál í skólanum og víðar en þar má segja að hafi verið skortur á köldu vatni frá upphafi og þætti trúlega einhverjum tímabært að fundin verði lausn á því.
Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581497
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:08:40
clockhere