17.03.2010 23:56

Lágfóta og" lyktarlausu " hreiðrin.

 Klukkan var að verða 11 að kvöldi.

Ég sat og fylgdist með mórauðri læðu sem var að yfirfara hreiður og fuglalíf í Rauðamelsflóanum.

Það var komið fram í júlí og greinilegt að hún gekk að hreiðrunum vísum eftir að hafa hreinsað reglulega úr þeim síðan í varpbyrjun. Það var norðangola og læðan þveraði flóann fram og til baka þvert á vindáttina með allskonar útúrdúrum.

580 refur
 Þessi er allsendis óskyld sögupersónunni og tekin ófrjálsri hendi af netinu.

Öðru hvoru hvarf hún mér drykklanga stund ef hún lagði leið sína eftir lægðum í landinu eða þar sem þýfið var mikið.
 Eftirtekjan var greinilega lítil og hún nýkomin af greninu því hún gerði sér greinilega allt að góðu sem hún fann en safnaði ekki saman til flutnings á grenið þar sem hvolparnir voru farnir að þurfa sitt á þessum tíma.
 Tvisvar sá ég hana láta sig leka niður í flóann og læðast eða nánast skríða upp í vindinn í bæði skiptin um 70 - 100 m. leið.

 Hún hafði tekið lykt af fugli á hreiðri og í seinna skiptið hafði hún erindi sem erfiði og át fuglinn á staðnum og eggin á eftir.

                                       Mynd tekin traustataki af.  http://eggjasafnari.bloggar.is/myndir/
Rjúpan hér er vel falin fyrir mannskepnunni en en tófa í vindátt af hreiðrinu staðsetur það á augabragði í töluverðri fjarlægð.

  Mér var hugsað til viðtalsins við ungu konuna langskólagengnu (annaðhvort líffræðingur eða náttúrufræðingur) sem var að sannfæra viðmælanda sinn um þarfleysi refaveiða og tók sem dæmi að fuglahreiður væru lyktarlaus og fjölgun tófunnar hefði því hverfandi áhrif á fuglastofnana.

 Fuglahópurinn sem fylgdi lágfótu um flóann var ekki fjölmennur og það var alltaf ljóst þegar hún nálgaðist hreiður, hverjir höfðu þar hagsmuna að gæta. Parið sem átti viðkomandi hreiður færðist greinilega í aukana, gerði vanmáttugar tilraunir til að trufla þá mórauðu og sem betur fer var ég utan heyrnarfæris og þurfti því ekki að hlusta á hvernig tóntegundin breyttist úr árásartóninum í neyðartónana.
Stuttu eftir að tófan hafði lokið sér af við hreiðrið og hélt áfram, tóku tveir hljóðir fuglar sig útúr eftirfararhópnum sveimuðu þöglir yfir bústaðnum sínum nokkra stund og settust þar síðan.

  Þó ég vissi margt um þessa mórauðu vinkonu mína hafði ég ekki heimilisfangið hennar, því hún átti bú í óþekktu greni einhversstaðar  ekki mjög fjarri.

 Það höfðu nokkrar kvöldstundir farið í að vakta hana og reyna að staðsetja grenið en árangurinn var enginn.

  Og grenjaskyttan bölvaði sjálfum sér fyrir að hafa ekki afgreitt málið í vetrarveiðinni sem hefði þýtt áhyggjulausari daga fyrir hann og fuglastofnana á svæðinu þó það hefði stytt lífsgönguna hjá lágfótu um nokkra mánuði.

 Hann velti því svo  fyrir sér að það væri ákaflega skynsamlegt að senda öll líffræðings og náttúrufræðingsefni ásamt kennurum í nokkurra daga göngu um Hornstrandir. Þar myndi mófuglinn (ekki til lengur) verða skoðaður ásamt fuglabjörgunum þar sem einungis er fugl á þeim svæðum sem tófan kemst ekki um.

 Síðan ætti hópurinn að dvelja dagstund í t.d. Hrísey.

Að þessu loknu ættu nemendurnir að semja álitsgerð um það hvernig fuglalífið í
eynni myndi hugsanlega líta út svona 10 árum eftir að refapari væri sleppt í eyna og látið óáreitt þar.

 Reyndar minnir þessi refafriðunarumræði mig dálítið á umræðuna um rjúpnaveiðarnar fyrir nokkrum áratugum 
Þá héldu fræðingarnir því blákalt fram og færðu fyrir því margvísleg náttúruleg rök að rjúpnaveiðin hefði engin áhrif á stofninn vegna mikilla affalla rjúpunnar á fyrsta ári.

 Nú er því haldið fram að rándýrið sem stendur efst í dýraflórunni á landinu og hefur verið haldið niðri með markvissum hætti öldum saman muni ekki hafa teljandi áhrif á fuglaflóruna ef því yrði allt í einu leyft að fjölga sér þannig að einungis náttúruleg skilyrði takmörkuðu stofnstærðina.

Og " fuglaverndarfélagar" eru þar framalega í flokki!! emoticon 

15.03.2010 20:40

Snjólétt sveit, Prinsessa og hann Sindri frá Keldudal..

 Það hefur verið ákaflega rólegt hjá snjósleðunum í sveitinni í vetur og fátt bendir til annars en lítil breyting verði á því.



 Svona leit þetta út í dag og hvað svo sem má um snjóleysið segja, stytta þessi góðviðri sem hafa ríkt lungann úr vetrinum, skammdegið verulega.




 Þó sumir væru eflaust til í að skipta, finnst mér ástandið alveg ásættanlegt.

  Til að undirstrika góðviðrið kom hún Prinsessa litla í heimsókn í gær.



 Yngri bóndinn bauð henni í smá gönguferð og hún kunni þá ekki við annað en kíkja við í eldhúsgluggann á neðri bænum.
 Henni var nú reyndar ekki boðið inn, enda hefði hún örugglega þegið það.



 Tilefnið var myndataka fyrir sænska útrásarvíkinginn sem sló eign sinni á Prinsessu nýfædda snemma í vetur og gerði hana bandvana. Nú var talið rétt að minna hana á eigendaskyldurnar.



 Það urðu svosem ekki  mikil átök í upphafi tamningar eins og stundum vill verða og hér er verið að fara mjúku leiðina.

 Og Hágangssonurinn , hann Sindri frá Keldudal er allur að koma til, í blíðunni.




 Já, alltaf sama fjörið í sveitinni.emoticon

13.03.2010 22:10

Stjórnlaus hundur í kennslustund.

 Það var skilin eftir hjá mér ársgömul B C tík til geymslu í dag.

 Eigandinn er tvisvar búinn að sýna henni kindur og ég sem var að viðra bæði kindur og hunda stóðst ekki freistinguna.

 Þetta er hún Píla frá Kvíabekk og hún tók sko rösklega á því þegar að henni var sleppt, enda enginn nálægur sem hún bar minnstu virðingu fyrir.

 Sem betur fór hringfór hún bara kindurnar og og var ekkert að nota lágu gírana, því síður að hlusta á kallfíflið sem var eitthvað að reyna að hafa áhrif á skemmtilegheitin.



 Hann vissi þó að það var búið að koma bremsukerfinu í lag hjá henni og sætti lagi þegar mesti gassinn var yfirstaðinn að stoppa hana af. Á hárréttum stað að sjálfsögðu. Nema hvað?



 Það þurfti svo rétt að sletta í góm til þess að frökenin tætti af stað á nýjan leik.

 Bráðefnileg tík og eftir tvo hringi var reynt að stoppa hana á nýjan leik.



 Já annaðhvort er þetta eðalefni eða kallinn þessi dj. snillingur. Og Hefu- Grána víkur virðulega undan þessu eldfjöruga hvolpfífli.

 Þegar eigandinn les þetta áttar hann sig á því að nú er ekki til setunnar boðið við tamninguna.emoticon

Og þegar hirðljósmyndarinn hefur tíma til að mynda tamningastöðuna á Dáð, sem er ári eldri en þetta skoffín hér, mun koma  hörku fjárhundablogg.emoticon

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581481
Samtals gestir: 52772
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 00:47:08
clockhere