24.11.2008 22:15

Spúla mjaltabás og ...................


  Rétt eins og fjöldi þeirra sem telja brýna þörf á spúlun í Seðlabanka og stjórnarráði virðist vaxa, stóðum við Dalsmynnisbændur frammi fyrir því að spúlun mjaltabáss var kominn langt útfyrir ystu mörk skipuritssins.

  Þar sem mér finnst enn dálítið gaman að sulla með vatn fór ég í málið og nostraði dagstund með spúltækið.

 Þetta er reyndar mesti ágætis vinnustaður og notalegt að mæta þarna í morgunverkin enda kýrnar yfir höfuð óstressaðir vinnufélagar og hafa engar áhyggjur af kreppunni né erlendu lánunum sem þær eiga eftir að standa undir.



  Nú eru Remflómenn væntanlegir í árlegt eftirlit mjaltabássins en vegna gjaldeyrismálanna var að verða skortur á varahlutum, en nú er það allt að komst í lag.



  Hér bíða kýrnar hinar þolinmóðustu í biðplássinu eftir að komst í mjaltabásinn. Ég er fyrir langa löngu búinn að gefast upp á því, að fá þær til að ganga nú dálítið rösklega á leið sinn að og frá básnum.



 Og til að gleðja aðdáendur íslensku landnámskýrinnar er hér mynd af dæmigerðu júgri sem er þeim eiginleikum gætt að það er búið úr spenunum á mismunandi tíma. Í stað þess að júgurfjórðungarnir tæmist jafnhratt, og tækið fari sjálfkrafa af , þarf mjaltarinn að vera vakandi yfir þessu og taka hylkin af hverjum spena um leið og hann tæmist. Þetta er aukavinna sem þarf að gera tvisvar á dag svona 300 daga á ári við þessa kú og ótrúlega margar aðrar .
 Já en þetta er jú atvinnuskapandi  á þessum síðust og verstu!!emoticon 

 Góðu fréttirnar eru þær að núna er engin kýr í meðhöndlun vegna júgurbólgu, en þeir dagar sem sú staða er uppi verða aldrei of margir.

 Finnst ykkur básinn ekki vera orðinn fínn hjá mér??emoticon

23.11.2008 08:40

Bygguppskeran 2008.


 
Það var létt yfir byggræktendum í Eyjarhreppnum sáluga þegar þeir mættu á Testofu Hestamiðstöðvarinnar í gærkvöldi. Þar sem Einar er mikill höfðingi heim að sækja, fór góða skapið síbatnandi eftir því sem leið á fundinn.

  Það var verið að fara yfir uppskerutölur haustsins og ákveða verð til framleiðenda, og þurrkunar og umsýslukostnað þurrkunarinnar. Þó þetta væri besta byggræktunarárið í sögu Eyjarhrepps náðust ekki þau markmið að fá yfir 3 tonn af þurrkuðu byggi af hektara. Þó sumir akranna hefðu verið að gefa mikla uppskeru voru aðrir lakari og síðan urðu tjón vegna veðurs og fugla veruleg sumstaðar.
  Það er þó hægt að segja að þetta hafi sloppið til, í heildina litið, miðað við ótíðina frá því snemma
í sept, fram í okt.
  Og uppskeran hefur aldrei verið jafn mikil og jöfn að gæðum og núna.


  Þegar stytti upp í okt.byrjun fengu græjurnar að snúast. Við höfum aldrei tekið svona mikið magn inn á kæligólfið fyrr.

 Dalsmynni sf. náði að uppskera um 43 tonn sem er sama magn og notað var á búinu á síðasta ári.
  Nú virðist eftirspurnin eftir þessari afurð vera að aukast og þau sjónarmið að hverfa, sem mér fannst ríkjandi í þessum viðskiptum, að íslenska byggið ætti að vera ódýrara en það innflutta.

  Það var ákveðið að greiða framleiðendum kr. 23 fyrir kg. en við leggjum allir byggið inn hjá félaginu. Þurrkunarkostnaður á kg. verður 10 kr. og umsýslukostnaður og umbúðakostnaður áætlaður 4 kr. á kg. Með öðrum orðum byggið , þurrkað , valsað, sekkjað og komið á bíl við stöðina verður selt á 37 kr. kg. + Vsk.

  Þetta verð mun væntanlega vera breytilegt eftir verðþróun á því innflutta og síðan geta verið einhverjir sérsamningar í gangi.

  Nú er það spurning hvort gengisþróunin verði farin að lagast fyrir vorið, svo fræ, áburður og olía verði kaupandi, en nærri 100 % hækkun s.l. vor setti ljótt strik í arðsemina/tapið á þessu  "hobbýi" okkar félaganna.

   
 

20.11.2008 20:53

Akrar og hitaveita.



  Þó tíðarfarið sé rysjótt er jörðin klakalaus. Það kemur sér vel fyrir þá sem baslast við að lifa á landsins gæðum og eru að rísla við jarðrækt fram á veturinn og helst áður enfarið er að vora almennilega.
 Á meðan yngri bóndinn dundaði sér við að ryðja út ruðningum, fórum við nágranninn í skoðunarferð um nánasta umhverfi.



 Hér er verið að vinna nýtt land til ræktunar. Það er fullþurrkað, plægt og ruðningum síðan ýtt út. Dalsmynni sf. hefur bæði landið og ýtuna á leigu.

  Söðulsholtsbóndinn er líka að brjóta nýtt land til akuryrkju í gjaldeyrisskortinum.



  Hér er verið að vinna fyrir hann tvær km . langar spildur sem eiga vonandi eftir að gefa 30 - 40 tonn af úrvalsbyggi árlega.

  Við kíktum svo niður í hitaveitu en ég hef vanrækt hana undanfarið.


 Þetta er dæluhúsið okkar við Kolviðarnesvötn, ásamt Söðulsholtsbóndanum sem lítur rannsakandi yfir á Austurbakkann. Það var samt engin skæruliðastarfsemi í gangi í dag.

 
Það er alltaf jafn notalegt að heyra suðið í dælunni sem dælir hitagjafanum til 9 lögbýla og byggskemmunnar, samtals um 15 km. Hér var allt í sómanum og ég tók nokkrar myndir til að setja inn á vefsíðu hitaveitunnar.



  Það skiptir engu hvort Söðulsholtskallinn er á henni Gerplu sinni eða fjórhjólinu. Núpáin er alltaf farin á fullri ferð.

  Hringnum var svo lokað með því að taka úr sér hrollinn í kaffistofu Hestamiðstöðvarinnar í Söðulsholti. Þar var m.a. farið yfir hvaða sölur væru í kortunum og hvað væri til í saltkjötstunnuna.

Er ekki langur og harður vetur framundan??emoticon





Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579394
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:27:07
clockhere