06.07.2009 16:25

Hornstrandaferð, dagur 0 og 1

Það var laugardaginn 27. júni að við Sif áttum stefnumót í Bónus í Borgarnesi. Nú átti að versla fyrir Hornstrandagönguna. Við vorum ekki mjög vel undirbúnar þrátt fyrir að hafa átt einn matarundirbúningsfund viku fyrr. "Eigum við að kaupa sona eða hvað þurfum við mikið af þessu"' Vorum samt með á hreinu að ekki yrðu keyptar núðlur og ekki jafn mikið af súkkulaði og í fyrra. Í lok ferðar kom svo í ljós að þetta var ferðin þegar keypt var allt of mikið af flatkökum. Efit innkaup var brunað af stað, áttum pantað svefnpokapláss í Finnbogastaðaskóla. Fyrsta stopp var á Hólmavík, lentum þar í mikilli veislu á Kaffi eitthvað. Það var svona íslenskt hlaðborð og lá ekki við að hægt væri að smakka allt. Reyndar lögðum við ekki í eftirréttina og slepptum ís og súkkulaðitertu.Uss uss. Fljótlega eftir Hólmavík fór þokan að læðast af hafi og sums staðar var útsýnið minna en ekkert. Við Sif erum báðar frekar lofthræddar og hún með hæfilega trú á bílstjórahæfileikum mínum svo það var kannski bara betra að þokan byrgði stundum sýn, alla vega þegar bratt var niður. Eitt kakó stopp í Djúpuvík og svo keyrt að mestu í þoku það sem eftir var. Svefnaðstaðan í Finnbogastaðaskóla var fín, gott eldhús og ágæt rúm.
Sunnudagurinn byrjaði á að pakka vel fyrir siglinguna, það var enn þoka og var okkur sagt að þokan væri algengur fylgifiskur lognsins á þessu svæði. Brottför með Sædísi frá Norðurfirði til Hornbjargsvita var áætluð hálf fjögur og því nægur tími til að skoða sig um. Byrjað var að skoða kirkjurnar 2, þær eru hvor á móti annarri við þjóðveginn og byrjuðum við á þeirri eldri. Kríurnar voru aðgangsharðar og við slóruðum ekkert í kirkjugarðinum. Girðingin um þá nýju var rammleg og hliðið læst svo ekkert varð úr skoðun á henni. Næsti staður var Kört, safn og handverkshús. Skemmtilegt safn og ýmislegt áhugavert til sölu.  Keyrðum út í Munaðarnes og ætluðum að sjá þetta frábæra útsýni sem Vegahandbókin dásamaði. En því miður, þoka enn og aftur. Þá var sundlaugin í Krossanesi næst og hún stóðst allar væntingar.  Eftir allt erfiði dagsins var svo bara lagst í sólbað niður við bryggjuna og beðið eftir bátnum. Nú fóru væntanlegir göngufélagar að renna í hlað hver af öðrum, m.a. komu Ásta Birna og Gunnar sem voru með á Lónsöræfum í fyrra. Aðra þekktum við ekki. Alls var þetta 22 manna hópur á öllum aldri. Sú yngsta 15 ára og ætli ég hafi ekki verið með þeim elstu.

Siglingin með Reimari skipstjóra á Sædísi tók tæpa 2 tíma, eitt smá stopp þegar koma þurfti farangri í land í Bolungarvík (það er önnur Bolungavík en sú á Vestfjörðum). Sjórinn sléttur en þoka faldi fjöllin. Áður en byrjað var að ferja fólk og farangur í land í Látravík þar sem Hornbjargsviti er, sigldi Reimar undir foss sem steyptist lóðbeint út í sjó.

Eftir að búið var að selflytja farangur í land var hann settur á sleða og togvinda sá um að draga hann upp. Við fólkið löbbuðum upp asskoti mörg þrep, ja reyndar ekki öll því ein kona fékk að fara  með farangurssleðanum. Það var mamma Guðna (leiðsögumanns) og Ævars (húsráðanda), 82 ára og hvergi smeyk þó þetta væri ansi bratt.


Hópurinn dvaldi í vitavarðarhúsinu. Þar er svefnpláss fyrir 35-45 hugsa ég, fyrirtaks aðstaða til eldunar og heit sturta. Sú er hituð með gasi og kostar mínútan 100 kr. Flestir þurftu nú a.m.k. 2 mínútur. Eftir kvöldmat röltum við Sif aðeins í kring en þorðum ekki langt því strax eftir 100 metra var húsið horfið í þokuna.
Þegar við vorum svo komnar undir sæng/í pokana dró Sif fram 26 ára gamla dagbók. Þá hafði hún verið í tjaldi í Hornvík í meira en viku og gengið þaðan á öll helstu fjöll og dali á svæðinu. Annað hvort hefur minnið verið annað og betra en hjá mér í dag því hún var með allar hæðar og breiddartölur, öll örnefni og matseðla upp á hvern dag. Ætlast hún til að öll örnefni verði tínd til og spurning hvað ég man af þeim.

05.07.2009 21:58

Fjörulallarnir, Gullhringurinn og Löngufjörur.

Þegar við fjörulallarnir í Eyjarhreppnum viljum dekra við okkur í reiðvegum förum við gullhringinn okkar.
  Oftast höfum við hann í fullri lengd sem er um 18 km. Gullhringurinn liggur um Haffjarðareyjarnar eða eins og þær eru ofast nefndar í dag, Hausthúsaeyjarnar.

 Stundum erum við spurðir að því hversu langan tíma taki að ríða hringinn.

Þá verðum við ákaflega trúverðugir á svipinn og segjum að ef það sé mjög skemmtilegt þá getum við orðið dálítið lengi.

Við erum oftast dálítið lengi.

 Stundum stingum við bauk í vasann til að hafa eitthvað í höndunum í stóra stoppinu í Suðurey.
Ef það er svo alveg rosalega gaman getum við lent í því að farið sé að falla að á heimleiðinni. Það fellur hratt í álana og állinn sem var í miðjan legg á útleiðinni getur allt í einu verið orðinn hrokasund.

 En við erum öllum hnútum kunnugir og höfum bæði upp á b og c leið að hlaupa ef allt er í voða.


                 Nei, nei, þetta er ekkert mjög leiðinlegt.  Hafursfellið í baksýn.
 
Í tilefni fjórðungsmótsins var ákveðið að skella sér hringinn á föstudagskvöldið en þá var háfjara um kl. 23.
Þetta átti nú bara að vera lítill hópur en fyrr en varði var þetta orðið um 20 manns.

Þarna voru m.a Gugga og Gunni ásamt Brynju og Jonna en þau eru þungavigtarfólk úr sleppitúrunum.

Hér er Jonni að segja Auðun einhverja átakanlega sögu, og miðað við trúverðugleikann í svipnum er nokkuð ljóst að það er ekki satt orð í henni.

 Það eru sterk tengsl milli Eyjarhreppsins sáluga og Skagafjarðar og trúlega væri fyrir löngu búið að koma á formlegum vinabæjartengslum ef Akrahreppurinn væri yfir allan Skagafjörðinn en ekki orð um það meira.

 Með í hópnum voru sem sagt a.m.k. 6 Skagfirðingar sem voru auðvitað sérstakir heiðursgestir hjá okkur.

 Fyrsta stoppið var í hátæknihesthúsinu á Rauðkollstöðum. Það var talið rétt að kanna ölbirgðir bóndans fyrst hann var ekki tilbúinn.



 Þetta er aðalstoppistöðin í hringnum en í alskemmtilegustu ferðunum er oft fundin einhver átylla til að stoppa á ólíklegustu stöðum meira að segja í sandbleytum ef ekki finnst annað.


Fulltrúar Bitrunga í ferðinni. Þarna var ballstressið ekki byrjað hjá þeim enn, en farið að styttast í það.
Þarna voru líka allir skór til staðar en áður en helginni lauk var annar þeirra orðinn berfættur eftir óhagstæð skóviðskipti.



  Og fjallasýnin var í góðu lagi með síminnkandi jökulinn sem endastöð í vestri.



 Kátur frá Dalsmynni naut sín í botn á fjörunum. Þó að hann sé frá kolvitlausu Dalsmynni er svona týpa samt verðugt ræktunarmarkmið fyrir rétta Dalsmynnið.



 S. Skörðugilsbændur voru nokkuð sáttir  við kvöldið um það er lauk. Hér eru þau ferðbúin á Smáralind frá S. Skörðugili og Kát frá Dalsmynni.

 Þetta var þrælskemmtilegt enda var farið að falla hraustlega að á lokaáfanganum í fjörunni. Við heimamennirnir gættu þess að halda ró okkar svo gestirnir héldu bara að þetta ætti að vera svona.

 Næsta miðnæturreið verður svo víðsfjarri Löngufjörum því nú er stefnt á hringinn í kringum Kirkjufellið aðra hvora næstu helgi.

 Það eru trúlega um 3 ár síðan Óli á Mýrum var ráðinn yfirgæd og Gústi Ívars. fyrsti aðstoðarmaður.

 Þar sem þetta eru miklir gleðimenn verður trúlega auk bauksins í vasann tekin með 1/2 Hunts og Wiskílögg neðan í pela í þá ferð.

 Ekki er ólíklegt að einhverjir Grundfirðingar sveifli sér svo með í hnakkinn, enda nauðsynlegt fyrir svo alvörugefinn þjóðflokk að ríða út með mönnum sem eru ekki  alvarlegir nema rétt á meðan þeir ljúga einhverju.

Kannski eitthvað meira um það síðar.emoticon

( Fullt af myndum í albúmi)






 

03.07.2009 18:56

Dásamlegt tíðarfar, nema til heyskapar.


  Það er ljóst að þetta verður mikið sprettusumar hér á Nesinu og víðar og tíðin núna undanfarið er alveg meiriháttar. Endalausar blíður , hiti og hæfilegar úrkomur fyrir sprettuna. En þurrkurinn er stopull.
  Þeir sem eru slakir með þurrefnisprósentuna geta heyjað þegar gerir 1-2 þurra daga, en við hinir sem viljum  hafa heyið nokkuð þurrt, naga neglurnar þessa dagana meðan beðið er eftir stóra þurrkinum´. Og nú verður hann að fara að bresta á fljótlega ef ná á ásættanlegu kúaheyi.

 Við erum nú ekki eins snjallir og kollegar okkar í Evrópu sem eru með  þriggja til fjögurra vagna lestir í eftirdragi. Þessar rúllur eru 140 cm. í þvermál og rúllaðar með fastkjarnavél. Það er alveg fullt af FE í þeim . Við áætlum að um 50 % meira heymagn sé í þessum rúllum en  í hefðbundnum 120 cm. lauskjarnarúllum. Söluaðilinn sýnir okkur hinsvegar töflur sem gefa upp 75 % mun!



 Við höfum verið með Vicon samstæðu án hnífabúnaðar. Yrkjar ehf hafa átt og rekið hana  með rúllugjaldi til bændanna . 
 Hún var keypt sem fjölnotavél og ætluð í línræktina. Nú er línræktin fyrir bí og mikill áhugi   okkar kúabænda og hálmbænda á hnífabúnaði varð til þess að við skiptum vélinni út fyrir aðra eins ársgamla. Það minnkar afköstin aðeins því fluggírinn er ekki notaður lengur.
 Ef allir hnífarnir 23 eru notaðir eykst svo slæðingurinn nokkuð. Þeir munu væntanlega samt  verða notaðir í hálminn.

 Nú er svo verið að semja um að stóri þurrkurinn mæti uppúr helginn.emoticon 
 
 
Flettingar í dag: 665
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579358
Samtals gestir: 52634
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:04:13
clockhere