08.08.2011 23:12

Holótt þvottabretti, hringvegur og gas, gas.

Þó það sé alltaf jafngott að komast á malbikið af holóttum þvottabrettisvegum hálendisins er það samt alltaf eitthvað sem togar mann þangað aftur.

 Það er kannski ekki skynsamlegt að leggja af stað í ferðalag á frídegi verslunarmanna en þar sem hringvegurinn var ekki á ferðaplaninu þann daginn nema rétt í gegnum Borgarnes slapp þetta allt til.

 Lundarreykjadalurinn var ekinn með viðkomu og kaffibolla í Skarði svona til að taka aðeins á  púlsinum á mannlífinu í dalnum. Uxahryggirnir voru  eknir og yfir nýju brúna að Flúðum og svo upp Þjórsárdal.


 Hér er frúin komin í fjósið að Stöng og ljóst að Norsku kýrnar í den,  hafa verið mun smávaxnari en þær sem bændurnir sem ætla sér að lifa af komandi þrengingar í mjólkurframleiðslunni láta sig dreyma um að flytja inn.



 Þessi náttúruperla "Gjáin " er í km göngufæri við Stöng og það hlakkaði í minni heittelskuðu þegar ég benti henni í bílastæðið á barmi Gjárinnar eftir að við höfðum þrammað þangað frá Stöng. Það var auðséð á Hvönninni að þarna er sauðkindin fjarri góðu gamni en staðurinn farinn að láta á sjá af ferðamannaágangi.



 Það var síðan dólað uppfyrir ferðaþjónustuna í Hólaskógi til að skoða einn af hæstu fossum landsins , Háafoss ásamt Granna, bróður hans þar sem þeir steypast niður í Þjórsárdalinn um 120 m. fall.
Ég hafði riðið þarna um fyrir nokkrum árum og fannst gaman að koma aftur á þessar slóðir.



 Þessi gististaður er svo algjör andstæða þess að gista á þjóðhátíð eða þannig.
 Það var hinsvegar dálítið langt á næstu bensínstöð þegar gasið kláraðist og varakúturinn sem átti að vera með, var glaðhlakkalegur við grillið vestur í Dalsmynni.

Svo það var ekki hellt uppá kaffi þennan morguninn.

En meira um það seinna(kannski).

05.08.2011 00:06

Einfalt og látlaust orkuver.

Menn leysa orkuþörfina með ýmsum og misdýrum hætti enda aðstæður og andagift misjöfn.

 Hérna sést uppistöðulón orkuvers.



 Og hér fyrir neðan yfirfallið og botnlokan ef hreinsa þarf úr lóninu.



 Hér sést niður gilið og vatnsrörið er fellt niður í vegslóðann.



 Orkuverið sjálft er síðan fellt inn í bergið og málið er dautt.



 Svo er náttúrulega hægt að deila um það, hvort réttlætanlegt sé að skemma þetta sköpunarverk sem gilið er með svona framkvæmd???

29.07.2011 23:23

Hestaferð og hrakviðri.


  Það var ekki notalegt að ríða suður Litla Langadalinn móti hvassri sunnanáttinni sem færðist öll í aukana þar sem hún þrengdi sig niður innanverðan dalinn. Sunnanrokinu fylgdi að sjálfsögðu úrhellisrigning.

 Þetta var þriðji og síðasti dagurinn í hestaferð með tamningagenginu í Söðulsholti og við vorum þarna 4 á ferðinni með tæp 50 hross.

 Fyrri dagarnir höfðu verið mjög fínir og eftir fasta liði við að koma skikki á trippin/ hrossin í rekstrinum í upphafi gekk þetta býsna vel.



 Hér lestar hrossin sig fallega norðan Bullunnar á leið inn austanverðan Heydalinn  frá næturhólfi í Hallkelsstaðarhlíð, að Bíldhóli. Þetta var svo eins og í gamla daga að það beið manns veisla hjá bændunum þegar komið var með hrossin á næturstað.



 Það eru einhverjir áratugir síðan ég hafði farið á hrossum þessar leiðir og margt kom upp í hugann frá gömlum dögum . Hér er áð á gamalkunnum stað í því sem eftir var af fjárhúshólfinu á Höfða.

 Spáin var slæm fyrir síðasta daginn og veðrið var síðan mun verra spánni, mestan hluta leiðarinnar.
Við riðum gamlar og góðar götur frá Bíldhóli að L. Langadal í þokkalegu veðri og þó ég bæri mig vel við samreiðarfólkið þóttist ég vita að það yrði slæmt suðurúr.
 Við stoppuðum vel við eyðibýlið og lögðum á öflugustu hrossin því það gæti orðið erfitt um stopp með þennan hóp í vitlausu veðri.



 Reksturinn hélt forreiðinni vel við efnið og ekki náðist að stoppa þau almennilega fyrr en niður við Illagil. Hér snúa þau skutnum í veðrið,  sem varð nú strax mun skaplegra eftir að kom suður á Flatirnar.



 Dóri með hádegismatinn í höndunum og Illagil í baksýn.



 Hér er trúlega verið að líta til veðurs í fyrsta áningastað í upphafi ferðar, búinn að spretta af aðalhestinum eftir að talsverðan barning við að kenna stóðinu guðsótta og góða siði.

Fín ferð.
Flettingar í dag: 1682
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580375
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 18:16:06
clockhere