10.02.2012 20:21

Hestamiðstöðin í Söðulsholti. Allt á fullu.

 Eftir septemberlokun hestamiðstöðvarinnar hefur allt verið á fullu í vetur.

Það eru 30 - 35 hross stöðugt á járnum og reiðhöllin komið að góðum notum í rysjóttu vetrarfarinu.


 Hér er Dóri að ræða við einn ótaminn sem mætti í skólann í gær.



 Ég byrjaði á að heilsa uppá hann Flugarr minn Fláka og Fjóluson og spurði hann hvort þýddi nokkuð að leyfa honum að spreyta sig á folaldasýningunni um næstu helgi.
 Hann sagði að ég mætti ráða því, en að yrði þá að raka sig fyrst.


Vegna ófærðar hefur tamningaliðið verið spakara heima um helgar og hátíðar en oft áður svo ég hef lítið fengið að spreyta mig í gjafastússi þennan veturinn.



 Það var rólegt í gerðinu enda gekk á með éljum sem aldrei fyrr.



 Hér er regla á hlutunumog hvert hross á sína stíu meðan á innivist stendur.



 Það er rólegra hjá hálmvagninum en nokkurntíma áður því stöðugar haustrigningar höfðu aldeilis afleit áhrif á hálmuppskeru búsins.



 Kjarnfóðurvagninn er eins og hey og hálmvagninn hannaður og smíðaður af yngri Dalsmynnisbóndum. Við hönnunina var lögð sérstök áhersla á að hafa drif og tæknibúnað allan sem einfaldastan til að forðast illviðráðanlegar tæknibilanir.


 Hér bíða svo þessi atvinnutæki meðan eigendur þeirra tóku sér smá kaffipásu.



 Hér eru svo Iðunn og Dóri í kaffipásunni en Einar
óðalsbóndi trúlega að selja hross.
Þriðji starfsmaðurinn Arnar í Haukatungu lagði hinsvegar undir sig sóffann og er utan myndarinnar  af þeim sökum.



 Þessi 4 v. hryssa, Kolbrá undan Sólon og Gloríu frá Snartartungu er í miklu uppáhaldi hjá eigandanum og ég fékk ágætis fyrirlestur um ætlað ágæti hennar í framtíðinni.

05.02.2012 20:51

Birgðarstaða hálendissins. Froða eða alvöru?

Hér um slóðir þar sem hvert þurrkasumarið hefur rekið annað voru menn farnir að bylta sér vansvefta yfir sílækkandi grunnvatnsstöðu. Vatnsból sumstaðar farin að svíkja og uppsprettur sem hafa runnið lengur en elstu menn muna, farnar að þorna upp.

 Nú eru uppsafnaður snjólager fjallanna hér um slóðir með allra mesta móti og ekki ólíklegt að árnar muni renna allavega frameftir sumri.
 Reyndar má velta því fyrir sér hvort meginuppistaðan í birgðunum sé einhver froða sem muni leysast upp á alltof skömmum tíma eins og undirstaðan í hrunveislunni okkar en það á bara eftir að koma í ljós.

 Ég neyddi mig til að fórna dýrmætum tíma mínum í dag til að skrönglast um fjalllendið og meta snjóalögin.



 Svona leit Hesturinn út og snjórinn sem þarna á eftir að þiðna mun lenda annarsvegar ofan í Stóra Langadal og hinsvegar í Flatná og síðan Haffjarðará.

 

 Héðan sést norðausturhlið Ljósufjallanna. Nær eru Tröllabörn og Botnaskyrtunna t.h. Hér er horft eftir vatnaskilum og héðan rennur leysingjavatnið ýmist í Laxá í Miklaholtshr. eða niður í StóraLangadal, nema úr Botnaskyrtunnunni. Og hér sjá menn vestasta hluta Dalabyggðar allavega sunnan Hvammsfjarðar.



 Þetta er sú hlið Skyrtunnu sem tilheyrir ekki Dalsmynni heldur Stóra Langadal.



 Hér er sjálf Sátan sem er mun virðulegri í návígi en margan grunar. Á bakvið hana sést ofaná Svínafellið en handan þess er Heydalsvegur svo lítt kunnugir átti sig á staðháttum.



 Hér sést yfir Rauðukúlugíginn niður yfir Gullborgarhraunið og greinilega farinn að minnka snjórinn á láglendi hjá vinum mínum á Austurbakkanum.

 Já, til hellingur af snjó og það er kannski ekkert svo leiðinlegt að nota hann til ferðalaga á svona degi.



 Hér er svo  snjósleðafloti Dalsmynnisbænda eins og hann leit út um 12 leitið í dag . Klukkutíma seinna var sá blái lagður af stað til nýrra heimkynna þvert yfir landið allt til Vopnafjarðar. Þar mun hann örugglega kynnast snjósælli veröld en hann hefur átt að venjast síðustu árin hér á Nesinu.

01.02.2012 21:07

Korka Tinnadóttir toppaði tilveruna.

 Hundatamningunum var startað í dag hvernig sem framhaldið verður.

 Það voru ekki hefðbundnar aðstæður, því byrja þurfti á því að troða slóð út á nothæft kennslusvæði áður en ballið hæfist.



 Það var dálítill spenningur hjá þjálfaranum því nú átti að fara í fyrsta sinn með 3 tíkur í alvöru kennslustund en engin þeirra var komin með vinnuáhuga í nóv.

  Mér finnst reyndar ágætt að byrja einhversstaðar í nógu rými þar sem ekki er hætta á að kindurnar þrengi sér upp að húsvegg eða girðingu til að verja sig.

  Þegar til kom fannst mér áhuginn hjá þeim systrum Æsu og Spes ekki alveg kominn á rétt stig en þær eru rétt um ársgamlar. Mamma þeirra hún Dáð var reyndar orðin ívið eldri þegar hún var komin í tamningartækt form svo ég er alveg slakur enn með þær.



 Þær  hringfóru samt hópinn í ágætri fjarlægð og hér er Æsa  að stoppa ærnar af. Ég reikna nú samt með að halda aðeins áfram með systurnar sjá hvernig málin þróast.

 Það var hún Korka Tinnadóttir frá Miðhrauni sem kom skemmtilega á óvart en hún er aðeins yngri en systurnar.

 Tilfinningarnar hjá bóndanum voru blendnar þega hann sá hana fara fyrsta hringinn því nú er rétt rúmt ár síðan ég byrjaði að temja Tinna sáluga.



 Það var bara eins og hann væri mættur til leiks á ný. Vinnufjarlægðin og taktarnir þeir sömu.

 Það er alveg innbyggt í Korku að fara vítt fyrir , halda hópnum að mér og koma beint inn. Gamla rollan sem ætlaði að sýna þessu hvolpfífli í tvo heimana fékk tennurnar í andlitið og nart í óæðri endann á flóttanum.



 Sama yfirvegunin, svo ég stóðst ekki mátið að prófa að stoppa hana af og láta óánægju í ljós þegar skæruliðahvatirnar brutust fram.



 En snjórinn var talsvert minni fyrir ári síðan þegar Tinni var að taka fyrstu sporin í rolludansinum.



 Já þetta var ekki slæmur dagur.
Flettingar í dag: 1649
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580342
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:55:03
clockhere