Færslur: 2017 Febrúar

24.02.2017 20:25

Kúlur eða ekki kúlur, - hvað er málið ?


 Það er velþekkt í hvolpasölunni að tíkurnar eru vinsælli  hjá kaupendum. 

  Skýringarnar á því eru nokkrar en sú veigamesta er trúlega sú að það blundar í mörgum að geta skellt í got ef tíkin reynist vel. 

  Aðrar ástæður eru þær að sumir trúa því t.d. að tíkur séu meðfærilegri í vinnu , úthaldsbetri, skemmtilegri í umgengni eða sýni öðrum hundum/tíkum síður áreiti o.sv.frv. 

  Ég er reyndar ósammála öllum atriðunum nema því fyrsta. 

  Mér finnst skynsamlegra að velja tík frekar en hund  ef verið er að spá í ræktun í fyllingu tímans.

    Það kemur " stundum " fyrir að hvolpaleitendur spyrja mig hvort kynið sé skynsamlegra að velja.  

 Ég er löngu hættur að svara þessu beint.  

  Segi bara ( sem satt er )  að ef ég væri að leita að fjárhundi í vinnu en væri ekki að velta ræktun fyrir mér, veldi ég hund. 

  Þegar hann væri orðinn svona 15 mán. léti ég síðan fjarlægja kúlurnar.

  Rétt eins og ég geri , eða gerði réttara sagt við hesttryppin í den (meðan þau urðu til hjá mér ) .

    Dýralæknar tala reyndar um að  það sé í lagi að gelda hundana eftir svona 6 - 8 mán aldur  en mér finnst skemmtilegra að hundarnir séu nokkurnveginn fullþroskaðir. 


 Vaskur tapaði kúlunum vegna þess að ég taldi hann óhæfan í ræktun og óseljanlegan vegna þess hversu stórt númer hann var í ýmsu.emoticon

   Vanaður hundur  er laus við alla hormónastreitu, merkingarþörf og  áreiti við aðra hunda er oftast lítið eða ekkert. 

   Engin hætta á flakki og sv.frv. 

  Tíkurnar eru hinsvegar með sín  lóðarí á 6 mán fresti.  

 Það stendur yfir í um 20 daga í hvert sinn með tilheyrandi pössun ef einhver með kúlurnar í lagi er innan viss radíuss. 

  Bólusetning gegn þessu er ekki í dæminu hjá mér, því ég er einn þeirra sem trúa þvi að ófrjósemissprauta auki líkur á krabbameini. Ég geri svo engan greinarmun á tík eða hundi, í tamningu, vinnu eða umgengni að öðru leiti . 

    Sumir nefna fitusöfnun á geldingum sem vandamál. 
  Mín reynsla er nú reyndar alveg á skjön við þá fullyrðingu.


 
 Gott dæmi um hið gagnstæða  eru systkinin Korka og Smali. Hann er þrátt fyrir kúluleysi  alltaf í passlegum holdum meðan ég er í vandræðum með Korku sem vill hlaða á sig ef ekki er gætt ýtrasta aðhalds í fóðrun. 

   Ef við lítum hinsvegar framhjá ofanskráðu er auðvitað mikilvægast að menn séu sáttir við það sem þeir telja best.  

 Og ef fólk er ánægt með hundinn sinn,- nú eða tíkina , eins og þau eru með eða án kúlna eða ófrjósemissprautna er auðvitað enginn að fara framá meira .emoticon

08.02.2017 21:09

Blue og söluvísindin .


 Það eru vísindi útaf fyrir sig að velja saman Border Collie sem er taminn til sölu og kaupanda sem passar honum. 

   Þó ég sé að verða pínu glúrinn við það, ganga hlutirnir samt ekki alltaf upp.
  Þessvegna er það regla  að láta líða ákveðinn reynslutíma hjá hundi og kaupanda áður en málinu er lokað. 

  Sá tími hefur reyndar farið mest uppí 2 ár. emoticon . 

  Gerði reyndar ekkert í að loka því máli því ég trúði aldrei að það gengi upp,- sem það gerði ekki.
  Þetta var nú reyndar í upphafi söluferilsins og í dag hefði ég aldrei reynt þetta dæmi.emoticon  

  Ég hef þrisvar tekið til baka hund úr sölu tvisvar úr reynslutíma og einu sinni úr frágengnu máli. 

Mér finnst það reyndar ekkert mál, því mér líkar ekki að vita af tömdum hundi frá mér hjá eiganda sem er ósáttur við hann. 

   Síðasta dæmið er síðan í haust en þá komu upp vandamál sem voru að hluta mér að kenna. 
 Eitt af vandamálunum sem fylgja sölum á mismikið  tömdu  er ef ég fer að rembast við að kenna hundinum eitthvað sem nýtist komandi eiganda strax , enda í flestum tilvikum haustamstrið framundan. 

  Og í þessu síðasta dæmi fór ég framúr mér og tíkinni í hefðbundnu tamningarferli með ákveðna vinnu . 

  Þetta hefði getað gengið ef styttra hefði verið á milli mín og kaupanda svo ég hefði getað gripið inní ferilinn .

 Það var ekki í boði. 

 Nú er ég búinn að dúlla í endurhæfingunni og er kominn með söludýr sem ég held að sé tilbúin að takast á við flest það helsta sem  B C þarf að glíma við meðan hann er að slípast með nýjum eiganda. 

  Þar sem  engum dyrum var lokað þegar ég tók hana til baka verður trúlega reynt á ný hvernig til tekst.  




   Blue er ársgömul síðan í maí , kom seint til en hefur jafnt og þétt aukist í áliti. 
 Fyrir mér er hún draumadýr til sölu, sérlega róleg og þó áhuginn sé alveg bullandi fer hún einstaklega vel með hann. 
 
  Þrátt fyrir forsöguna myndi hún henta flestum þeirra sem ég veit um og eru að spá í tamið.  
  Margir eru eflaust forvitnir um verðið á henni en það er ekki gefið upp, - ja nema til skatts náttúrulega emoticon.. 

  Ég get þó sagt að hún fer ekki í dýrasta flokkinn sem er 400 + . 

  Hún er í verðfl. 2 sem er á bilinu 3 - 400 .000 kr + vsk. 

   Ef hún væri hinsvegar með ákveðnina hennar Bonnie systur sinnar, færi hún  vel uppí fl. 1. 
 Ákveðnin/ kjarkurinn er nefnilega mjög dýrmætur eiginleiki þegar vinnustandardinn er eins og hjá þeim systrum.

Reyndar alltaf emoticon
   Að vísu  met ég Blue þannig, ef vel tekst til hjá henni og nýjum eiganda, að kjarkurinn eigi eftir að bæta sig verulega. 
 Til þess að sannreyna það sjálfur þyrfti ég trúlega að hafa hana í svona ár í viðbót. 
 Kannski verður það raunin  ef brasið tekur sig upp aftur.emoticon 

Hér eru svo  skjáskot sem lýsa  Blue nokkuð vel í dag.  Smella hér.

06.02.2017 21:16

Fjárhundaframleiðslan.

 Ég hef skipt BC vinnuhundaræktuninni gróflega í tvo flokka þegar spáð er í stofninn. 

Þann hluta sem er skráður í ættbók SFÍ og hina sem eru utan skráningar. 

Engir fordómar  sko, en svona skoða ég þetta. 

 Held mig svo við ættbókarfært í mínum ræktunarlínum. 

 Gefur  mér aðeins meiri öryggistilfinningu að geta skoðað bakgrunninn.

 Nú er þriðji flokkurinn að bætast við, ISDS skráða ræktunin sem gefur aðeins meira öryggi gagnvart augnsjúkdómum. 

HRFí er svo til líka en vegur enn lítið hjá okkur sveitaliðinu emoticon

 Og eins og allar vita er breiddin í þessari ræktun nánast óendanleg og það á við um alla flokkana. 

 Sama á við um hvolpaverðið sem speglar vel þessa miklu breidd í gæðum og markmiðum ræktenda. 

 Verðin spanna bilið frá 0 kr. uppí um 200.000 .

  Sífellt fjölgar þó þeim ræktendum sem hafa metnað til að afhenda hvolpana skráða , örmerkta, ormahreinsaða og með fyrstu Pavró sprautuna. 
 Þar eru algengustu verðin um  75 - 100.000 + . 

 Þetta eru ákaflega lág verð fyrir velættaða hvolpa ( í alvöru emoticon  ) sem sýnir að mikið framboð og lágu verðin eru að hafa áhrif . 

Og  því miður trúlega óheppileg áhrif á metnaðarfulla ræktun.  

 Ekkert sem bendir til þess að stórar breytingar séu í augsýn einfaldlega vegna þess að kaupendahópurinn er kannski af svipaðri breidd og framleiðslan, skráð og óskráð emoticon . 

Já .  ég var nú hættur að taka þátt í þessu en suma hluti ræður maður illa við .  


      Þessir eru að komast á skemmtilega aldurinn.

  Fyrsta gotið á nýrri vegferð blæs út þessa dagana. Þetta got  sem verður afhent handvöldum kaupendum eftir 6 - 10 vikur . kemur svo til mín í frumtamningu síðla hausts og næsta vetur.

Þ.e.a.s þau þeirra sem lenda ekki hjá  fólki sem er fært um að temja sjálft. 
  
Eitt - tvö  þeirra verða að vísu ekki afhent fyrr en fulltamin.  

  Semsagt öllu ráðstafað og kominn af stað biðlisti fyrir næsta got  sem gæti orðið í júní. 
 Það verður enn meira spennandi en þetta, afhent með sömu skilmálum, mánaðartamningu, leiðbeiningum og dagsnámskeiði ásamt  skilarétti til ársaldurs.

 Spennandi að vita hvernig þetta gengur upp emoticon .

 

  • 1
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere